Svona grenntist Jamie Oliver um 12 kíló

Jamie Oliver hefur grennst.
Jamie Oliver hefur grennst. AFP

Stjörnukokkurinn Jamie Oliver losaði sig nýverið við heil 12 kíló. Hinn 44 ára gamli kokkur leggur nú meiri áherslu á grænmeti en áður og er það meðal annars ástæðan fyrir því að vigt Olivers sýnir nú lægri tölu þegar hann stígur á hana en áður að því fram kemur á vef Men's Health

„Ég minnkaði kjötát, borðaði meira af grænmeti, svaf meira og hreyfði mig meira,“ sagði Oliver. Stjörnukokkurinn mælir meðal annars með því að borða hnetur í millimál til þess að bæta við fitu sem áður fékkst með kjötátinu. Hann mælir einnig með því að gefa börnunum hnetur.

Oliver vill meina að breytt mataræði hans skili ekki bara grennri líkama. Hann segir ólíklegra að hann fái hjartaáfall á þessu mataræði. Það var reyndar ekki bara kjötneysla sem minnkaði hjá Oliver. 

„Hinn venjulegi Breti drekkur mikið áfengi. Ég er ekki að segja þér hvað þú átt að gera en núna er venjan mín að drekka ekki nema um helgar,“ sagði kokkurinn sem hafði áður greint frá breyttum svefnvenjum sínum. 

Það getur verið erfitt að fara alltaf eftir stífum reglum en Jamie Oliver segir eins og svo margir sem hafa náð árangri þegar kemur að heilsusamlegum lífstíl að það skipti máli að fara næstum því alltaf eftir reglum en ekki alltaf. 

Jamie Oliver tók svefninn í gegn.
Jamie Oliver tók svefninn í gegn. AFP
mbl.is