Fólk þarf að passa sín mörk

Jódís Brynjarsdóttir hugsar vel um heilsuna.
Jódís Brynjarsdóttir hugsar vel um heilsuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jódís Brynjarsdóttir, viðskiptastjóri Vistor, hefur aldrei fundið fyrir kulnun og segist fá mikla orku út úr því að hreyfa sig. Hún æfir Crossfit fjórum til sex sinnum í viku og reynir að borða lítið unninn mat.

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég reyni að vera skynsöm í fæðuvali og hlusta á líkamann, eyða tíma úti í náttúrunni og hreyfa mig reglulega. Eiga gæðastundir með vinum og fjölskyldu og passa upp á svefninn, sem ég er farin að gera betur í seinni tíð,“ segir hún.

Gerir þú eitthvað sérstakt til að fara betur með þig?

„Ég hef reynt að tileinka mér einhvers konar meðalveg og forðast öfgar. Njóta lífsins og hafa jákvæðni að leiðarljósi. Finna jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og hlæja oft og mikið. Meðvitaðar ákvarðanir í innkaupum og gæði matvæla skipta auðvitað miklu máli því við erum jú það sem við borðum eins og einhver sagði. Ég reyni að velja lífrænt þegar þess er kostur og forðast mikið unna matvöru fyrir mig og mína.“

Stundar þú líkamsrækt?

„Ég æfi Crossfit hjá Crossfit Kötlu um það bil fjórum til sex sinnum í viku.“

Hvers vegna Crossfit?

„Ég er búin að æfa Crossfit í 2,5 ár og fyrir það var ég „bara“ að mæta í ræktina, hóptíma og þessháttar. Crossfit er sjúklega fjölbreytt og skemmtileg hreyfing í æðislegum félagsskap.“

Hvað finnst þér skipta mestu máli

þegar heilsan er annars vegar?

„Mér finnst mikilvægast að halda andlegu heilsunni góðri því að þegar andlega heilsan er góð fylgja oft góðu venjurnar eins og hreyfing og mataræði með. Fyrir andlegu heilsuna reyni ég að finna tíma til að sinna sjálfri mér og mínum áhugamálum, hitta vini og hlæja mikið.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Það sem mig langar í en reyni samt að borða hreina fæðu.“

Er eitthvað sem þú borðar ekki?

„Drekk hvorki gosdrykki né ávaxtasafa.“

Hefur þú alltaf haft heilsuna í forgrunni?

„Nei, alls ekki. Með aldrinum hefur ég áttað mig betur á því að það er nauðsynlegt að halda heilsunni í lagi.“

Tekur þú inn einhver vítamín og bætiefni?

„Ég hef lengi haft áhuga á heilsuvörum og ég hef eins og sennilega margir aðrir farið að hugsa betur um meltinguna og þarmaflóruna enda er mikið rætt um hana í dag. Ég held að eitthvað geti jafnvel verið til í því að hinir ýmsu sjúkdómar geti átt upptök sín í meltingarvegi, jafnt andlegir sem líkamlegir, ef ekki er allt eins og best verður á kosið þar. Ég vanda valið á fæðubótaefnum sérstaklega vel og það sem ég tek inn að staðaldri í dag eru Probi Mage mjólkursýrugerlar fyrir meltinguna og til að styrkja varnirnar. Mér finnst þeir frábærir og gera mér mjög gott. Það er einu sinni þannig að ef meltingin er í lagi hugsar maður ekkert um þessi mál en verður alveg undirlagður ef eitthvað er í ólagi. Probi Mage sér til þess að ég þarf voða lítið að velta þessum málum fyrir mér.“

Nú er kulnun mikið í umræðunni. Hefur þú

einhvern tímann fundið fyrir slíkum áhrifum?

„Nei.“

Oft er talað um að nútímakonur keyri sig út.

Hvað telur þú að konur geti gert betur til

þess að sleppa við það?

„Ég verð að nefna að það er mikilvægt að hlusta á líkamann og þekkja sín mörk. Mér hefur skilist á umræðunni allri undanfarið, sem ég tel bæði mikilvæga og þarfa, að þeir sem lenda í kulnun hafa gengið nærri sér í lengri tíma og ekki áttað sig á ástandinu fyrr en um seinan. Það er allra góðra gjalda vert að vilja standa sig vel og mæta kröfum samfélagsins en það má ekki gleymast að við berum ábyrgð á okkur sjálfum og því er bæði mikilvægt að virða og þekkja sín eigin mörk og ekki síður að setja mörk út á við. Kannski er það ágæt æfing að segja „nei“ af og til.“

Gerir þú eitthvað sérstakt til að verða ekki goslaus?

„Ég hreyfi mig, alveg ótrúlegt hvað góð æfing getur dregið úr þreytu og streitu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »