Heilsuleyndarmál Aniston og Witherspoon

Reese Witherspoon og Jennifer Aniston hugsa vel um mataræðið.
Reese Witherspoon og Jennifer Aniston hugsa vel um mataræðið. AFP

Hollywood-stjörnurnar Jennifer Aniston og Reese Witherspoon eiga það sameiginlegt að æfa vel og huga vel að mataræðinu. Stöllurnar mættu saman í útvarpsviðtal á dögunum að því er fram kemur á vef Independent og greindu frá heilsuleyndarmálum sínum. 

Eins og svo margir aðrir fastar Jennifer Aniston hluta dags og borðar ekki mat í 16 tíma á dag. Aniston segist ekki borða á morgnana. Segist hún hafa tekið eftir miklum breytingum eftir að hún hætti að borða mat í föstu formi hluta dags. 

Reese Witherspoon segist fá góð heilsuráð frá vinkonu sinni Aniston en fær sér þó smá næringu á morgnana. Það mætti líklega líkja mataræði hennar við föstu en á morgnana fær hún sér aðeins sellerídjús og kaffi. Aniston viðurkenndi að fá sér líka stundum sellerídjús á morgnana. 

Vinkonurnar Reese Witherspoon og Jennifer Aniston ásamt Steve Carell.
Vinkonurnar Reese Witherspoon og Jennifer Aniston ásamt Steve Carell. AFP

Þrátt fyrir að margt sé keimlíkt við mataræði þeirra hefjast dagar þeirra á mismunandi tímum. Aniston segist helst ekki vilja vakna fyrr en klukkan níu en Witherspoon kemst ekki upp með slíkan lúxus. Witherspoon á sjö ára gamlan son sem vaknar hálfsex. Hún nýtur þó morgnanna vel og fer í ræktina klukkan hálfátta. Witherspoon segist æfa sex daga í viku en Aniston ekki nema fimm sinnum í viku. 

mbl.is