Áhrifavaldur varar við fitandi sjampóum

Færsla áhrifavaldsins Eleni Chechopoulos á Instagram hefur vakið athygli á …
Færsla áhrifavaldsins Eleni Chechopoulos á Instagram hefur vakið athygli á Twitter. skjáskot/Twitter

Stundum er talað um skaðsemi áhrifavalda og neikvæð áhrif þeirra á annað fólk. Áhrifavaldurinn Eleni Chechopoulos gerði ekki mikið til þess að afsanna þessa kenningu þegar hún skrifaði pistil á Instagram um að sjampónotkun gæti haft áhrif á þyngd fólks. 

Chechopoulos hefur fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum eftir pistil sinn og hefur mál áhrifavaldsins vakið athygli fjölmiðla víða um heim. Chechopoulos er með 11 þúsund fylgjendur á Instagram og er næringarfræðingur. 

„Ertu að þyngjast út af sjampóinu þínu?“ skrifaði áhrifavaldurinn á Instagram. Fyrst eru það kaloríur, svo eru það hormón, svo er það þarmaflóran...núna er þetta sjampóið mitt. Þú telur allar kaloríur sem fara inn fyrir varir þínar en samt haggast ekki talan á vigtinni. Að hafa stjórn á þyngdinni snýst ekki bara um kaloríur inn á móti kaloríum út.“

Vildi áhrifavaldurinn vekja athygli á efni sem er meðal annars að finna í sumum sjampóum. Benti hún á rannsókn á músum sem hefði sýndi fram á skaðsemi efnisins sem er að finna í fleiru vörutegundum en hársápu. 

„Jafnvel þó að þú borðir hollt og hreyfir þig á hverjum degi þá gætir þú samt verið að glíma töluna á vigtinni út af SJAMPÓINU þínu,“ skrifaði áhrifavaldurinn við litla hrifningu fólks. 

Er pistill hennar um fitandi sjampó meðal annars talinn hafa náð nýjum hæðum þegar kemur að umræðu um fitu og megrunaraðferðir. Telja sérfræðingar sjampókenningu áhrifavaldsins ekki heldur vera lausnina við þeim offituvanda sem heimurinn glímir við í dag. 

mbl.is