Ræktarmistök sem pirra Schwarzenegger

Arnold Schwarzenegger veit hvernig á að taka á því í …
Arnold Schwarzenegger veit hvernig á að taka á því í ræktinni. AFP

Vöðvatröllið Arnold Schwarzenegger hefur lyft fleiri lóðum á sinni 72 ára löngu ævi en margir aðrir hafa gert. Eitt er víst að Schwarzenegger náði ekki árangri með því að gera æfingar með hangandi hendi. Hann fór yfir á vef LADbible hvað það er sem fer í taugarnar honum í ræktinni. 

Stjarnan segist til að mynda hata þegar hann sér fólk gera helmingi færri endurtekningar en það á að gera. Eða framkvæmir æfingar ekki til fulls, lyfti bara lóðum hálfa leið til dæmis. Hann segir fólk þurfa að einbeita sér þegar það er í ræktinni. 

Schwarzenegger segir algengt að fólk geri ekki æfingar rétt. Hann segir að fólk þurfi að spenna vöðvana þegar það framkvæmir æfingar. Ef fólk gerir það ekki hafa æfingarnar engin áhrif. Segir hann fólk geta eytt tímanum sínum í eitthvað annað. Segir hann fólk í rauninni vera að svindla á sjálfu sér þegar það svindlar á æfingum. 

„Það gerir mig brjálaðan þegar ég sé þetta í ræktinni. Ég hef verið að sjá þetta í 50 ár af því ég var alltaf öfgafullur þegar kom að því að gera hreyfingu rétt. Ekki svindla á sjálfum þér, gerðu bara æfinguna rétt,“ segir Schwarzenegger í viðtalinu. 

„Jafnvel þó að þú sért með þjálfara sem er ekki að horfa ættir þú alltaf að gera æfinguna rétt. Þetta eru hlutirnir sem ég sé í ræktinni,“ segir  Schwarzenegger sem fer stundum upp að fólki og les yfir því. 

Arnold Schwarzenegger.
Arnold Schwarzenegger. AFP

Schwarzenegger vill þó ekki meina að það sé bara hægt að kenna almennri leti um þar sem hann segir fullt af lélegum þjálfurum í líkamsræktarheiminum. Segir hann þá glataða og þeir kenni ekki kúnnum sínum að gera æfingarnar rétt. 

„Ég sé þá kenna þeim vitlausar æfingar eða vitlausar stellingar. Vitlausar hreyfingar sem skaða marga kúnna og fólkið sem er að æfa og ég finn til með þeim.“ 

mbl.is