Léttist um 53 kíló á kartöflukúr

Í lok árs 2016 birti Andrew Taylor mynd af árangri …
Í lok árs 2016 birti Andrew Taylor mynd af árangri sínum á Instagram. skjáskot/Instagram

Ástralinn Andrew Taylor var orðinn rúmlega 150 kíló og með matarfíkn að eigin sögn þegar hann ákvað að gera eitthvað í sínum málum. Árið 2016 borðaði hann bara kartöflur og léttist um rúmlega 53 kíló. Taylor segir í nýlegu viðtali við Men's Health að hann hafi náð að viðhalda þyngd sinni síðan hann hætti á kartöflukúrnum. 

Taylor segir að hann hafi aldrei litið á kartöflukúrinn sem mataræði til lengri tíma litið heldur leið til þess að meðhöndla matarfíkn sína. Það hljómar frekar leiðinlega að borða ekkert nema kartöflur en Taylor mælir með að gera matinn óspennandi og lífið sjálft því mun meira spennandi. 

Eftir að áskoruninni sem hann kallar Spud Fit Challange lauk byrjaði hann að borða fjölbreyttari fæðu. Í dag borðar hann óunna matvöru eins og ávexti, grænmeti, heilhveiti og auðvitað kartöflur líka.

Á meðan áskoruninni stóð borðaði hans kartöflur af öllu tagi, sætar kartöflur og venjulegar kartöflur. Hann setti krydd á kartöflurnar eða fitlausa sweet chili-sósu og barbecue-sósu. Ef hann bjó til kartöflumús notaði hann olíulausa sojamjólk. Hann borðaði eins mikið og hann vildi, drakk aðallega vatn en einstaka sinnum bjór. 

Ástralinn Andrew Taylor borðaði ekkert nema kartöflur í heilt ár.
Ástralinn Andrew Taylor borðaði ekkert nema kartöflur í heilt ár. mbl.is/Colourbox.dk

Allir heitustu kúrarnir í dag eins og ketó snúast um að hætta að borða kolvetni. Taylor gerði hins vegar ekkert annað en að borða kolvetni. Á fyrsta mánuðinum æfði hann ekki neitt en grenntist samt um tíu kíló. Seinna bætti hann svo við 90 mínútna langri æfingu daglega. Eftir heilt ár var hann orðinn 98,5 kíló. 

Ekki er endilega mælt með því að borða jafn einhæfa fæðu og bara kartöflur í heilt ár. Taylor sem var undir læknishendi, tók B12 vítamín og segir að heilsa sín hafi batnað til muna eftir að hann byrjaði á kúrnum. Kartöflur eru vissulega ekki óhollar en flestir sérfræðingar mæla þó með því að borða fjölbreytta fæðu. 

mbl.is