Tryggvi ætlar ekki að borða neitt í tíu daga

Tryggvi Hjaltason ætlar að taka tíu daga föstu og hvetur …
Tryggvi Hjaltason ætlar að taka tíu daga föstu og hvetur fólk til að prófa með sér en fara varlega af stað. Ljósmynd/Sigríður Unnur Lúðvíksdóttir

Tryggvi Hjaltason verkefnastjóri hjá CCP hefur ákveðið að taka tíu daga vatnsföstu frá 14. nóvember klukkan 19:00. Hann býður almenningi í landinu að taka þátt í átakinu með sér en hvetur almenning til að taka styttri föstur. Nú þegar hafa sextíu einstaklingar skráð sig í föstuna með Tryggva. 

Hann segir föstur frábæra leið til að efla aga og bæta heilsuna og er með teymi sérfræðinga á sínum snærum sem ætla að mæla áhrif föstunnar á heilsu hans. 

Tryggvi stundaði nám í liðsforingjaþjálfun hjá Bandaríkjaher og segir hann námið hafa þjálfað hann í aga.

„Það var keppni á hverjum degi í skólanum þar sem athugað var hversu mikið þú þolir andlega og líkamlega.“

Tryggvi var efstur í sínum bekk í náminu sem hann segir ekki aðalmálið í þessu samhengi. Heldur sú staðreynd að hann jók færni sína í að temja sér aga í lífinu. Hann hefur aldrei drukkið áfengi eða reykt sígarettur svo dæmi séu tekin. 

Tryggvi í herþjálfun hjá Bandaríkjaher.
Tryggvi í herþjálfun hjá Bandaríkjaher. Ljósmynd/Aðsend

„Föstur kenna okkur svo mikið á okkur sjálf. Við vöxum andlega með því að fasta. Þessi tiltekna fasta er eitt skref í átt að markmiði hjá mér sem er að eiga mörg góð heilsurík ár í viðbót og að skilja almættið betur.“

Tryggvi bendir á að ár hvert bætist í vaxandi fjölda rannsókna sem sýna fram á margvísleg jákvæð áhrif af því að fasta.

Sjálfur byrjaði ég að fasta fyrst og fremst út af trúarlegum ástæðum. Öll stærstu trúarbrögð heimsins tala um föstur. Kristur talaði mikið um föstur og fastaði sjálfur í 40 daga í eyðimörkinni samkvæmt Biblíunni. Ég man þegar ég las um þetta fyrst. Hversu grjóthart mér fannst þessi tími og ég velti því fyrir mér hvort ég gæti þetta einhvern tímann sjálfur.

Ég fastaði síðan og fann hvernig ég tengdist Guði betur við það og agaðist helling. Ég kom út úr föstu með betri sjálfsaga og betri tengingu við Guð.“ 

Tryggvi hvetur alla þá sem hafa áhuga á að prófa að taka einn dag með sér, en ráðleggur fólki ekki lengri föstur án aðstoðar fagfólks á þessu sviði. 

Byrjaði að fasta fyrir fimm árum

Tryggvi byrjaði að fasta fyrir fimm árum og hefur lengst tekið sjö sólahringa föstur sjálfur. 

„Ég tek alltaf 3 sólarhringa föstu að lágmarki á ársfjórðungsfresti en helstu sérfræðingar sem rannsaka þetta í Bandaríkjunum hafa mælt með slíkum kerfum, sem fyrirbyggjandi heilsumeðferð til að minnka líkur á lífsstílsjúkdómum eins og krabbameini.“

Tryggvi segir þriggja sólahringa föstu almennt talið hentuga til að ná góðum áhrifum í ferli sem hann nefnir sjálfsát frumna (e. autophagy). Slíkt ferli felur í sér að ónæmiskerfið byrjar að eyða veikum frumum sem viðbragð við föstunni. 

„Líkaminn eyðir þeim frumum sem líklegastar eru til að valda sjúkdómum. Ég tek líka reglulegar föstur (e. intermittent) en þá borðar maður allar sínar máltíðir í styttri glugga yfir daginn. Við höfum að meðaltali tvöfaldað fjölda máltíða á sólahring á Vesturlöndum síðastliðin 50 ár og stytt tímann sem við erum ekki að borða og það er hluti af vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir að mínu mati tengt ofþyngd.“

Hvaða árangri ætlar þú að ná þessu tengt?

„Ég ætla fyrst og fremst að auka aga, þekkja mörkin mín betur og tengjast almættinu kröftugra. Við vitum minna um hversu hollar svona langar föstur eins og ég er að fara að taka eru en þess vegna ætla ég að mæla þetta allt af krafti með hjálp sérfræðinga og er spenntur að sjá hvað kemur út úr því.“

Þegar Tryggvi tók sjö sólahringa föstu síðast missti hann nokkur kíló af fitu en ekkert af vöðvamassa.

„Það kom mér á óvart. Eins kom mér á óvart að styrkurinn minnkaði ekki og blóðgildin voru öll góð. Ég varð aðeins gulur því ég drakk ekki nóg vatn en það lagaðist um leið og ég drakk meira af vatni. Núna munum við skoða miklu meira og ég er mjög spenntur að sjá hvað kemur út úr þessum mælingum.“

Þegar kemur að erfiðasta hluta föstunnar telur Tryggvi að dagur tvö og þrjú verði áskorun.

„Þá er skrokkurinn að fara í ketó ástand þegar hann byrjar að keyra orkuna sína fyrst og fremst á fitubirgðum líkamans. Maður verður oft slappur þegar sykurinn í blóðinu fellur, rétt áður en ferlið fer af stað. Síðan líður manni oft vel upp úr fjórða degi. Þá verður til beta-hba í lifrinni sem almennt er talið vera eðal-eldsneyti fyrir miðtaugakerfið. Það er sérstakt gæða eldsneyti fyrir heilann. Það er á þessum dögum sem ég næ bestu tengslunum við Guð og þeir eru oft léttari andlega heldur en hinir.“

Með hóp sérfræðinga með sér í liði

Þegar kemur að sérfræðingunum sem munu meta Tryggva á þessu tímabili nefnir hann föður sinn Hjalta Kristjánsson.

„Pabbi er sérfræðingur í heimilislækningum og verður mér til halds og traust við að mæla og meta ásamt systir minni hjúkrunarfræðingnum Ragnheiði Perlu Hjaltadóttur. Þau eru ekkert alveg sannfærð um að tíu daga fasta sé holl en eru samt til í að hjálpa mér að rannsaka þetta allt sem ég kann ofsalega vel að meta. Síðan mun Birna Ásbjörnsdóttir sem er í doktorsnámi í heilbrigðisvísindum einnig rannsaka mig og þá sérstaklega þá þætti er snúa að þarmaflórunni en hún hefur verið að ryðja braut í rannsóknum og þekkingu þar.“ 

Hvernig undirbýrðu þig fyrir svona föstu andlega?

„Fyrir svona langa föstu byrja ég tveim vikum fyrr að styrkja mig og undirbúa andlega. Það er mjög mikilvægt að smíða ekki inn neina andlegar flóttaleiðir. Andleg flóttaleið væri þá sem dæmi að hugsa að ef þetta verður erfitt þá ætli ég að hætta. Ég fer alltaf inn í svona verkefni með heiminn að veði.“

Tryggvi segir að hann hafi lært í gegnum svona ferli og fleiri atvik í lífinu að heilinn hefur mikli meiri getu til að stýra líkamanum á okkur en flestir gera sér grein fyrir. 

„Þetta á sérstaklega við þegar kemur að orkunýtingu, úthaldi og styrk að mínu mati. Ég tek líka Guð inn í þetta með mér sem er styrkur sem er erfitt að útskýra, en auðmýkt gagnvart honum er það sem kom mér út í þetta til að byrja með.“ 

Hvað er mikilvægt að huga að fyrir líkamann þessu tengt?

„Það sem er mikilvægt að gera er að borða ekki unnar matvörur eða einföld kolvetni dagana fyrir föstuna. Það gerir hana mjög erfiða. Síðan reyni ég að sofa vel og svo lágmarka ég stressið í kringum mig á meðan á föstunni stendur. Annars verður hún óþarflega erfið. Að minnka stress fyrir föstuna set ég í forgrunn, sem gengur kannski ekki alltof vel núna, þar sem ég er nýkominn úr vinnuferðalagi í Texas þar sem voru mörg verkefni. Ég sé á heilsumælinum mínum núna (e. fit tracker) að ég er með meiri streitu í líkamanum en venjulega.

Ætlar að vera meira til staðar fyrir fjölskylduna í desember

Hvernig gerir þú ráð fyrir því að starfsgeta þín verði á þessum tíma?

„Það kom mér á óvart hvað hún skertist lítið þegar ég tók 7 sólarhringa föstu. Það var bara einn dagur þar sem ég fann skerta getu andlega og það var á degi þrjú. En ég vinn fyrst og fremst flókna hugsunarvinnu, sem er aðeins öðruvísi en að vinna erfiða líkamlega vinnu.“

Þegar kemur að heimilislífinu segir Tryggvi að hann eigi frábæra eiginkonu.

„Guðný eiginkona mín er yndisleg og skilningsrík. Hún sagði mér að það hefðu verið að minnsta kosti tvö kvöld þegar ég tók sjö sólarhringa föstu þar sem hún hefði alveg getað fengið meiri hjálp frá mér.“

Tryggvi ásamt Guðnýju eiginkonu sinni og þremur börnum.
Tryggvi ásamt Guðnýju eiginkonu sinni og þremur börnum. mbl.is/Árni Sæberg

Tryggvi segir að líklegast kvíði eiginkona hans aðeins fyrir síðustu dögum föstunnar, enda eiga þau þrjú ung börn saman og þeim fylgi alls konar verkefni eins og vera ber.

„Ég ætla að leggja mig fram um að vera til staðar heima þótt ég sé að fasta. Ég vona að ég nái því. Annars verð ég að bæta Guðnýju þetta upp í desember.“

Nú þegar hafa fjölmargir einstaklingar skráð sig í föstu með Tryggva í nóvember. Hægt er að taka þátt í áskorun Tryggva með því að finna hópinn Ofurheilsu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál