Tryggvi borðaði ekkert í 10 daga og er á lífi

Tryggvi Hjaltason kláraði rúmlega tíu daga föstu í morgun.
Tryggvi Hjaltason kláraði rúmlega tíu daga föstu í morgun. Ljósmynd/Sigríður Unnur Lúðvíksdóttir

Tryggvi Hjaltason verkefnastjóri hjá CCP sem ákvað að taka tíu daga vatnsföstu frá og með 14. nóvember síðastliðnum braut föstuna klukkan tíu í morgun og hafði þá fastað í rúma tíu sólahringa. Hann segir að síðustu tveir dagar föstunnar hafi verið erfiðir. Hann hafi verið með lágt orkustig og töluvert hungur. Hann segir föstur efla andann og merkilegt hvað líkaminn geti tekist á við mikið álag þegar þrýst er á hann.  

„Ég náði að vera í fullri vinnu og sinna heimili með þrem börnum ásamt konunni án þess að missa af mikið af verkefnum. Auðvitað er maður ekki hundrað prósent, en líkaminn hefur allsvakalega aðlögunargetu.“

Fita er gæða eldsneyti

Þegar kemur að því að útskýra hvernig hann náði að taka þátt í lífinu þessa daga segir Tryggvi fitu góðan orkugjafa. 

„Þegar líkaminn skiptir yfir í að nota fitu sem aðal orkugjafa býr hann til úr henni ketóna og ein tegund af ketónum sem verða til er kallað Beta-HBA sem er talið vera algjört gæða eldsneyti fyrir miðtaugakerfið og hugann. Ég hef einmitt fundið hversu skýr ég hef verið allan tímann og með góða einbeitingu. Eina frávikið frá þessu var dagur tvö þegar ég var að klára glýkógen birgðirnar í lifur, þ.e.a.s. að skipta formlega yfir í fitubirgðirnar og seinni hluti fjórða dags, en þá var ég aðeins slappur.“

Varstu á einhverjum tímapunkti að fara að gefast upp?

„Nei, það kom aldrei til greina hjá mér. Ég passa alltaf vel að smíða engar andlegar flóttaleiðir inn í þetta. En ég var samt alltaf að fara að hlusta á heilbrigðisteymið í kringum mig ef þau hefðu haft of miklar áhyggjur. Helstu áhyggjurnar voru að pH gildin mín féllu aðeins í kringum miðja föstu og áhyggjur voru að ég yrði of súr sem getur verið hættulegt en þá tók ég létt inngrip og fékk mér smá salt og steinefni og vítamín í vatn og fór svo í aðra blóðgas mælingu og þá höfðu gildin aftur hækkað.

Einn af lærdómum í þessari föstu og þetta tel ég mikilvægt er að ef lagst er í lengri föstur, lengra en fjóra dagar þá þarf að passa að taka vítamín, sölt og steinefni reglulega. Það er hægt að gera án þess að brjóta föstu. Ég fékk mér t.d. tvisvar síðustu dagana heitt vatn með smá salti út í, einni sneið af sítrónu, teskeið af hunangi, engifer, kalk og magnesíum töflu ásamt einni fjölvítamín töflu. Þetta telst líklega algjört lágmark til að viðhalda öruggum gildum og gæti verið betra að gera eitthvað sambærilegt á hverjum degi svona langt inn í föstu.“

Leið illa á áttunda degi föstunnar

Hvernig lýsir þú líðan þinni á áttunda degi föstunnar þegar blóðsykurinn lækkaði skyndilega og þú byrjaðir að verða súr?

„Hún var svo sannarlega ekki góð en af því að það var svo vel fylgst með öllu og ég var sjálfur að taka blóðgildi heima hjá mér daglega þá náði maður þessu strax og ég tók bara beint inngrip þannig að þetta var ekkert lengi. Hjúkrunarfræðingurinn systir mín sem tók svo blóðgös hjá mér daginn eftir sagði mér að hugsanlega hefði ég verið oðrinn lár líka í söltum þarna.“

Hvernig brást fjölskyldan við?

„Ég á yndislega fjölskyldu sem eru næstum öll heilbrigðis starfsfólk. Mamma og systir mín eru hjúkrunarkonur og pabbi er læknir og þeim fannst þetta uppátæki nú ekkert sniðugt, því þetta er svo löng fasta. Þau vildu því vera mér innan handar og fylgjast með mér því þau sáu að ég ætlaði greinilega að gera þetta. Það var náttúrulega mikið lærdómsferli og gott að eiga góða að þegar maður ýtir svona á mörkin. En það voru bara helst seinni dagarnir sem eitthvað reyndi á, fyrstu eru náttúrulega frekar öruggir.“

Tryggvi segir það að fasta svona lengi auðmýkjandi ferli. 

„Maður lærir alveg stórkostalega á sjálfan sig, hvar mörk líkamans liggja, hvernig aga maður hefur og hversu mikið maður getur eflt agann. Þetta styrkir sjálfstraust og dýpkar andlega tengingu við Guð.

Sem dæmi hef ég íhugað á næstum hverjum degi hvað það séu mikil forréttindi að fá að borða og búa í samfélagi þar sem ég get í raun alltaf borðað þegar ég vil og meira að segja get valið hvað ég vil borða. Ég hef valið það að dvelja í tómleikatilfinningunni í maganum og nota hana sem áttavita og agaverkfæri þegar ég kem út úr föstunni. Þetta hef ég gert áður og niðurstaðan er sú að ég finn fyrir þakklæti í hvert skipti sem ég sest niður til að borða og ég hef miklu meiri sjálfstjórn gagnvart mat, hvað ég borða og hvenær. 

Svona dæmi gæti ég talið upp lengi. Þetta er nefnilega alveg stórkostlega andlegt og auðmýkjandi ferli og þú þarft ekkert að fara 10 sólahringa til að upplifa þetta. Flestir eiga að geta upplifað þetta í gegnum eins til tveggja daga föstu.“

Sá ummæli um mat á samfélagsmiðlum meira en vanalega

Tryggvi segir að síðasta sólahringinn hafi hann hugsað mikið um mat. 

„Ég var farinn að lesa um uppskriftir og líka við færslur um mat á Facebook, sem er eitthvað sem ég geri aldrei. Þetta kemur kannski öðrum ekki á óvart en svona hefur ekki gerst fyrir mig áður. Þetta fyrir mér var merki um að líkaminn var kominn að ákveðnum þolmörkum og farinn að beina allri minni athygli að mat. Skynfæri voru líka skrúfuð í botn og mjög meðvituð um allan mat í kringum mig. Mér fannst þetta persónulega skemmtilegasti tíminn því þarna fékk ég að æfa agann svo mikið. Þarna var ég sannarlega kominn að mörkum.“

Stuðningur frá samfélaginu var eitthvað sem Tryggvi hafði ekki gert ráð fyrir í þeim mæli sem hann fékk.

„Það kom mér á óvart sá samfélagslegi stuðningur sem ég fékk í föstunni og áhuginn á þessari tilraun hjá mér. Ég bý í Vestmannaeyjum og gat varla hreyft mig niður í bæ án þess að fólk kæmi að mér og væri að spyrja um föstuna og segja að það hefði annaðhvort áhyggjur af mér eða væri að styðja mig. Síðan höfðu nokkrir heilbrigðisstarfsmenn samband við mig og annaðhvort gáfu mér ráð eða báðu mig að fara varlega. Þetta þykir mér ótrúlega vænt um og alveg hrikalega fallegt.“

Tryggvi stofnaði hóp á Facebook þar sem fólk gat fylgst með honum og hvatti hann almenning að taka þátt í föstunni með sér, en þó einungis í skamman tíma.

„Ofurheilsu-hópurinn á Facebook var gerður fyrir þá sem hefðu kannski áhuga á að fylgjast með „nördahliðinni“ á þessari föstu, öllum mælingunum og prófunum og ástæðum þess að ég er að fasta og svo framvegis. Sá hópur hefur vaxið stanslaust á meðan ég fastaði. við erum núna yfir 600 manns í hópnum og í kringum 100 aðilar prófuðu að fasta sjálfir á tímabilinu. Flestir tóku einn sólahring en sumir allt að fjóra. Þetta er búið að vera alveg frábært samfélag og mikill andlegur stuðningur fyrir mig en ég opnaði skjal (e Google Doc) og bað alla um að deila upplifun sinni af föstunni þar hafa 46 manns deilt upplifun sinni og það er fróðlegt að fara yfir rauða þræði þar. Langflestir segja að þetta hafi verið léttara en þeir héldu. Margir lýsa léttum svima eða kulda í útlimum. Þeir sem áttu erfiðast með þetta, eru þeir sem drekka kaffi. Flestir eru ánægðir með að þeir gerðu þetta og vilja prófa aftur. Sumir lýsa mjög sértækum upplifunum eins og einn lýsti því að skráð viðbragð hans í skotleiknum Counterstrike hefði orðið hægar um 0,7 sekúndur sem mér fannst vera eðal dæmi um nútímalega vísindalega mælingu.“

Blóðsykurinn nokkuð stöðugur í gegnum föstuna

Hvað eru prófin sem þú fórst í að sýna?

„Blóðsykur var nokkuð stöðugur í gegnum föstuna, eða rétt yfir 4 mmol/L alla daganna sem þýðir að líkaminn hefur ansi góða getu að halda honum stöðugum í þennan tíma. Flestir vilja hafa glúkósa á bilinu 4-6 til að líða vel. Það var eitt kvöld sem hann féll niður í 3,8 og þá leið mér ekki vel en eftir á að hyggja og eftir að hafa rætt það við heilbrigðisstarfsfólk gæti það líka tengst því að sölt voru orðin of lág, þetta lagaðist allavega strax með smá söltum og steinefnum.

Ketónar í blóði sem sýnir lauslega hvað þú ert að brenna mikla fitu hækkuðu rólega úr 0,7 mmol/L fyrsta daginn upp í 6 og voru síðan á milli 6 og 7 flesta daganna. Síðasta daginn fóru þeir hinsvegar yfir 8 og var ég þá líklega kominn að ákveðnum mörkum. Maður vill ekki sjá svona háa tölu þar. Þetta þýðir að fitubrennslan var mjög mikil og þ.a.l. mikil orka í boði en það eru sirka 3600 hitaeiningar í hálfu kíló af fitu. Til samanburðar getur þú búist við því að ná 3-5 eftir mjög erfiða æfingu, t.d. cross fit æfingu, þannig að svona fitubrennslutölur eru í raun eins háar og þær verða. Helstu tölur voru þær að fituprósentan fór úr 12,82% í 9,81% á 10 dögum. Þyngd fór úr 84,1 í 76,5 kg en á næstu dögum mun ég fá á mig nokkur kíló aftur sem verður vatn sem ég missti úr vöðvum, þetta eru sirka 4 kg miðað við reynslu mína af fyrri föstum. En miðað við fituprósentutölur þá fóru 3,3 kg af fitu af mér og miðað við fyrri föstur þá ætti megnið af því að haldast af. Þannig að ég hef brennt um 400 grömm af fitu á dag eftir að ég byrjaði fitubrennslu (það tekur líkamann 24-36 klukkustundir að klára glýkógen birgðir í lifur áður en hann fer á fullt í fitubrennslu). 400 grömm af fitu er um það bil 3100 hitaeiningar sem er sirka það sem ég brenni vanalega. Þannig að hér kemur lítið á óvart.“

Gerð voru þarmaflórupróf og ýmsar aðrar blóðprufur sem á eftir að koma niðurstöður um á næstu dögum og vikum sem verður forvitnilegt að vita meira um. 

Hvaða áhyggjur hafðir þú helst af svona langri föstu?

„Svo það sé á hreinu þá hvet ég engan til að fara í svona langa föstu nema vera heilbrigður og helst ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsmann. Styttri föstur og lotuföstur (e intermittent) eru vel rannsakaðar og hafa margvísleg jákvæð heilsuáhrif. En svona langar föstur eru meira spurningamerki. Það sem kom bersýnilega í ljós í þessari föstu var að ef maður vill minnka áhættu í svona langri föstu þá á maður að taka sölt, vítamín og steinefni þegar maður kemur lengra inn í föstuna, þá minnkarðu líkur á saltskorti og að verða súr sem dæmi. Það er hægt að gera án þess að brjóta föstu.

Síðan er hópur að fólki sem á ekki að fasta eins og fólk með sykursýki 1, börn og unglingar sem enn eru að vaxa, óléttar konur og konur með barn á brjósti og fólk með undirliggjandi heilbrigðisvandamál.“

Ætlar að gera vel við sig en vera skynsamur á næstu dögum

Hvað borðar þú þegar þú kemur út úr svona langri föstu?

Birna Ásbjörnsdóttir sem hefur verið að ryðja braut í rannsóknum á þarmaflóru er að ráðleggja mér og hjálpa við að stilla upp mataræði sem kemur til með að passa upp á meltinguna og byggja öfluga þarmaflóru. Við langar föstur deyr talsvert af þarmaflórunni en fyrst og fremst slæmi hlutinn en þarmaflórann er viðkvæm eftir föstu og þess vegna mikilvægt að byggja hana vel upp. Það versta sem ég gæti gert núna væri að fá mér gos og súkkulaði. Ég mun þess vegna byrja á vatnsríkum ávöxtum og grænmeti og byggja mig upp þaðan. En eftir langa íhugun og pælingar hef ég ákveðið að fyrsta máltíðin mín verður frá Gott Veitingastaðnum hérna í Vestmannaeyjum sem leggur mikla áherslu á eðal hráefni og ég mun fá mér blómkálsborgara frá þeim.“

Hver er ávinningurinn af föstu?

Fyrir utan fitumissinn sem margir sækja í og hefur í raun aldrei verið lykil hvati hjá mér þá fer mjög áhugavert ferli á fullt við föstu sem kallast „Autophagy“ sem í stuttu máli lýsir sér þannig að líkaminn fer að eyða út veikum og skemmdum frumum og endurnýta þær. Þetta gerir mikið fyrir ónæmiskerfið og er talið stuðla að langlífi og hafa fyrirbyggjandi áhrif á að lífstílssjúkdómar myndast eins og krabbamein, en þær frumur sem líklegastar eru til að fjölga sér í krabbameini eru hreinsaðar út í þessu ferli.

Aðrir þættir eru að húðin verður betur, insulín næmi eykst sem getur verið rosalega hollt fyrir fólk sem er komið með insulín ónæmi t.d. eftir langa tíð af því að borða of mikið eða mikið af einföldum kolvetnum.

Það sem ég sækist mest í og finnst mögnuðustu áhrifin eru þau andlegu. Ég kem út úr hverri föstu með meiri aga og meira sjálfstraust. Því þegar maður finnur að maður getur þetta, þá er maður ófeiminn við að setja sér stór markmið annars staðar og síðan skerpist brjálæðislega á tengingunni við Guð og bænir verða sterkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál