Fjallið hafði ekki roð við Annie Mist

Hafþór Júlíus og Annie Mist æfa.
Hafþór Júlíus og Annie Mist æfa. skjáskot/Youtube

Hafþór Júlíus Björnsson, eða Fjallið eins og hann er kallaður, er kannski einn sterkasti maður í heimi en það þýðir ekki að hann sé í betra formi en crossfit-stjarnan Annie Mist Þórisdóttir. Það sést vel í nýju myndbandi sem Hafþór Júlíus birti á youtubesíðu sinni. 

Á æfingunni sem sjá má hér að neðan sjást þau Annie Mist og Hafþór Júlíus gera ýmsar crossfit-æfingar. Þau lyfta meðal annars lóðum, gera æfingar með bolta og hjóla. Æfingarnar kannast Hafþór Júlíus misvel við en hann virðist ekki vera vanur úthaldinu sem Annie Mist leggur mikla áherslu á að þjálfa vel. 

Hafþór Júlíus segist í lokin vera dauðþreyttur en ánægður með sjálfan sig. Var þetta í þriðja sinn sem þau Hafþór Júlíus og Annie Mist æfðu saman. Þrátt fyrir að Hafþór hafi hætt á undan Annie Mist var crossfit-stjarnan mjög ánægð með Hafþór enda æfir hann öðruvísi en Annie sjálf og hafði auk þess tekið aðra æfingu sama dag. 

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið af þeim Annie og Hafþóri á æfingu. 

mbl.is