Kate Hudson gekk illa að grennast

Kate Hudson átti í meiri erfiðleikum með að grennast eftir …
Kate Hudson átti í meiri erfiðleikum með að grennast eftir að hún eignaðist þriðja barn sitt. AFP

Ár er síðan að Kate Hudson greindi frá því að hún ætlaði að losa sig við meðgöngukílóin og léttast um 11 kíló fyrir vorið. Hudson segir í nýju viðtali við Women's Health að áramótaheitið hafi ekki gengið jafnvel og hún átti von á og segir það hafa verið auðveldara að létta sig eftir fyrstu tvær meðgöngurnar. 

Hudson segir að ferlið hafi ekki bara tekið lengri tíma heldur hafi það tekið meira á. „Ólíkt með hin tvö þá hafði ég eiginlega ekki tíma til að æfa,“ sagði leikkonan. „Það þurfti öðruvísi aga til.“

Vegna þess að Hudson hafði minni tíma til að æfa lagði hún meiri áherslu á mataræði. Leikkonan fór í samstarf við Weight Watchers og segir Hudson að hún hafi lært mikið um skammtastærðir og samsetningu þess sem hún borðar. 

Hudson segist borða fimm sinnum á dag. Hún byrjar morgnana á sellerídjús og eftir djúsinn fær hún sér annnað hvort prótíndrykk, hafragraut, acai-skál eða egg. Aðrar máltíðir samanstanda yfirleitt af grænmeti en hún bætir auk þess stundum kjúklingi, fiski eða kjöti við. 

Eins og áður segir hefur hún minni tíma til að æfa og hreyfir hún sig aðeins þrisvar til fjórum sinnum í viku. Þá kýs hún meðal annars að fara í súluleikfimi, heitt jóga, „butt lift“ eða pilates. Hún segist vilja breyta reglulega til en pilates er alltaf í uppáhaldi og ekki að ástæðulausu. „Ég elska hversu liðug ég verð og hvernig það mótar líkama minn,“ segir leikkonan um pilates. 

Kate Hudson í nóvember 2019.
Kate Hudson í nóvember 2019. AFP
mbl.is