Fór að lyfta lóðum eftir seinna barnið

Hilary Duff er farin að rífa í lóðin.
Hilary Duff er farin að rífa í lóðin. AFP

Tveggja barna móðirin Hilary Duff breytti algjörlega um stíl í ræktinni eftir að hún eignaðist seinna barnið sitt. Duff á tvö börn, Luca 7 ára og Banks 1 árs. 

Duff er farin að lyfta lóðum, gera hnébeygjur og alls kyns æfingar til að styrkja sig. Fyrir það fór hún oft á svokallaðar „brennsluæfingar“ til að reyna að brenna fitu.

Hún hefur nú algjörlega skipt um takt og segir það henta sér mun betur, þar sem hún fann fyrir mikilli þreytu og svengd meðan á brennsluæfingunum stóð. 

„Mér fannst ég aldrei þurfa að lyfta þungu af því að ef ég myndi gera það myndi ég bæta miklum vöðvum á mig. Ég á mjög auðvelt með að byggja upp vöðva,“ sagði Duff í viðtali við Women's Health

En hún hefur séð villur síns vegar. „Ég lyfti og geri hnébeygjur með stönginni með mikilli þyngd á og hef aldrei verið jafn sterk en grönn,“ sagði Duff. 

Hún segir að nú þegar hún er orðin tveggja barna móðir hafi hún ekki jafn mikinn tíma til þess að stunda líkamsrækt og því henti lóðin líka betur. „Þetta er svo allt öðruvísi, miklu skilvirkari leið til að hreyfa sig,“ sagði Duff.

Hilary Duff lyftir nú lóðum.
Hilary Duff lyftir nú lóðum. skjáskot/Instagram
mbl.is