Lítið eftirlit með fæðubótarefnum: Sjálfsvígstíðini steranotenda há

Tómas Þór Ágústsson, sérfræðilæknir í innkirtlalækningum og læknir hjá Lyfjaeftirliti …
Tómas Þór Ágústsson, sérfræðilæknir í innkirtlalækningum og læknir hjá Lyfjaeftirliti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning í sölu og notkun ýmissa fæðubótarefna og orkudrykkja á Íslandi. Tómas Þór Ágústsson, sérfræðilæknir í innkirtlalækningum og læknir hjá Lyfjaeftirliti Íslands, segir að margt bendi til þess að notkun svokallaðra frammistöðubætandi eða útlitsbætandi efna hafi aukist mikið, sé orðin nokkuð almenn og þyki jafnvel ásættanleg í íslensku samfélagi. Hér ber mest á anabólískum sterum og nú einnig vaxtarhormóni. 

„Fæðubótarefni eru hvers kyns fæða sem ætluð er sem viðbót við venjulegan mat og sögð er innihalda viðbætt magn af ýmsum vítamínum, steinefnum, eða annars konar efnum með eftirsóknarverða eða jákvæða verkun. Vandinn er hins vegar sá að með þessu er ekkert raunverulegt eftirlit og því ómögulegt að vita hvað slíkar vörur raunverulega innihalda. Fæðubótarefni falla hvorki undir lyfjalöggjöf né matvælaeftirlit. Þannig er engin trygging fyrir því að varan innihaldi það sem kaupendur halda. Því miður er ekki óalgengt að vörurnar séu illa merktar eða hafi einfaldlega villandi innihaldslýsingar. Stundum kemur hreinlega fram að efni á bannlista séu í vörunum, en það hefur oft ekki afleiðingar fyrir framleiðendur þar sem eftirlit er ekkert, og hins vegar geta ólögleg efni leynst í vörunum án þess að það komi fram. Þetta er vel þekkt alþjóðlegt vandamál og hefur margsinnis verið staðfest í rannsóknum á innihaldi vara á markaði erlendis. Kynningar- og söluaðferðir sem notaðar eru byggjast oft alls ekki á vísindalegum rökum og lýsa áhrifum sem erfitt eða ómögulegt er að ná fram með neyslu efna eingöngu, án þess að þau þá séu í raun ólögleg.

Nokkuð öðru máli gegnir um orkudrykkina vinsælu. Þeir eru jú skilgreindir sem matvæli og falla undir viðeigandi eftirlit. Þetta eru hins vegar einfaldlega gosdrykkir sem innihalda mikið magn af koffíni, eða öðrum löglegum örvandi efnum. Stundum er bætt við vissum amínósýrum, steinefnum eða vatnsleysanlegum vítamínum, oft í hrossaskömmtum í óljósum tilgangi. Koffín er örvandi efni sem neyta má upp að takmörkuðu magni. Mikil notkun getur valdið svefntruflunum, kvíða, hjartsláttartruflunum, háþrýstingi, höfuðverk, ógleði og mörgu fleiru. Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir áhrifum koffíns og neysla þess því sérstaklega óæskileg fyrir þau. Það er ekkert sem bendir til að þessir drykkir séu hollari eða betri fyrir heilsuna á nokkurn hátt en aðrir gosdrykkir. Markaðssetning þeirra hefur hins vegar tekist mjög vel hér á landi og virðast mörg íslensk ungmenni því miður tengja þessar vörur við hreysti og gott útlit, sem er sorglegur misskilningur. Kannanir Rannsóknar og greiningar við Háskólann í Reykjavík sýna að neysla orkudrykkja hefur aukist gríðarlega í grunn- og framhaldsskólum bæði innan og utan íþrótta, ásamt neikvæðum áhrifum á heilsu þessa hóps í formi svefnvanda. Hér er um stóran og stækkandi lýðheilsuvanda að ræða.

Fólk má heldur ekki gleyma kostnaðinum, dagleg neysla nokkurra slíkra drykkja kostar jafnvel hundruð þúsunda króna á ári. Fyrir utan umhverfisáhrifin af öllum þessum einnota umbúðum,“ segir Tómas, aðspurður hvers vegna þurfi að hafa áhyggjur af þessari þróun.

Sjáið þið áhrif af notkun þessara efna á spítalanum?

„Já! Það kemur fyrir að fólk sem hefur verið að nota fæðubótarefni í frammistöðu- eða útlitsbætandi tilgangi hafi brenglaða eigin hormónaframleiðslu ásamt því að sum þessara efna geta t.d. haft áhrif á lifrar- og nýrnastarfsemi. Eins og við ræddum áðan er eftirlitið mjög lítið og því veit fólk ekkert hvað það er að nota. Íþróttafólk sem þarf að fara í regluleg lyfjapróf verður einnig að vera á varðbergi. Notkun fæðubótarefna, sem þá innihalda eitthvað annað en haldið er fram svo þau virki, er einmitt algeng ástæða fyrir falli á lyfjaprófi. Afleiðingar orkudrykkjanotkunarinnar eru einnig algengar í formi svefnvanda, kvíða, almennrar vanlíðunar, og eru eflaust vangreindar og vanmetnar,“ segir hann.

Af hverju notar fólk þá þessi efni?

„Auðvitað sækist fólk eftir þeim jákvæðu áhrifum sem seljendur fæðubótarefna eða ólöglegara efna halda fram. Þetta snýst hins vegar fyrst og fremst um markaðssetningu og þær óeðlilegu fyrirmyndir sem samfélagið hefur búið til, frekar en raunveruleika eða staðreyndir. Sumar þeirra fyrirmynda hreysti og heilsu sem eru mest áberandi í íslensku samfélagi í dag eru því miður hluti vandans. Ekki síst með tilkomu samfélagsmiða er ungt fólk stöðugt baðað í myndum og sögum af fólki, sem hefði nú þótt ansi undarlegt í útliti fyrir nokkrum áratugum. Rannsóknir hafa sýnt fram á streituvaldandi áhrif þessa áreitis og tengsl þess við vaxandi sjálfsímyndarvanda ungs fólks. Staðreyndin er einfaldlega sú að mjög erfitt er að ná slíkum áhrifum á útlit öðruvísi en með notkun einhvers konar efna. Mig grunar nú að flestir viti þetta, en af einhverjum ástæðum er fólki farið að þykja þetta í lagi og ræðir vandann ekki á viðeigandi hátt.

Ástæður óhóflegrar notkunar fæðubótarefna, og í framhaldi notkun stera og annarra ólöglegra frammistöðubætandi efna, eru þannig kannski tvenns konar. Annars vegar samfélagsþrýstingur sem tengist þessum fyrirmyndum og viðmiðum samfélagsins, og hins vegar undirliggjandi óöryggi, kvíði og svokölluð líkamslýtaröskun (body dysmorphic syndrome) notandans. Líkamslýtaröskun í þessu samhengi svipar á margan hátt til átraskana, en hér snýst vandinn um vöðvastærð og annað í útliti. Ég efast um að nokkrum dytti í hug að réttlæta átröskunarhegðun á sama hátt og notkun allra þessara efna er nú talin eðlileg eða jafnvel eftirsóknarverð.“

Hvað um stera. Eru sterar þá mikið notaðir á Íslandi?

„Ýmislegt bendir til þess að notkun stera og annarra frammistöðubætandi efna sé algeng og vaxandi meðal almennings á Íslandi. Lögreglu- og tollayfirvöld leggja hönd á vaxandi magn slíkra ólöglegra efna og heilbrigðisvandamál sem tengjast þessu eru algengari. Eins og annars staðar í heiminum er þó af ýmsum ástæðum erfitt að staðfesta þetta með rannsóknum. Við vitum að um 5% karlmanna í nágrannalöndunum nota stera einhvern tímann á lífsleiðinni, og mig grunar að það sé síst minna hér og er ekki endilega bundið við ákveðna samfélagshópa.“

Sterar auka árásagirni

Hverjar eru áhætturnar við notkun stera?

„Áhætturnar við notkun stera eru margvíslegar. Áhrifin á hormónaframleiðslu, frjósemi og ýmsa líkamsstarfsemi bæði karla og kvenna eru vel þekkt (Mynd 1). Það sem fólk veit kannski síður er hversu mikil áhrif þeir geta haft á geðheilsu. Sterar auka árásargirni og minnka samkennd. Dagbækur Anders Breivik sem framdi ódæðin í Utøya í Noregi lýsa því t.d. mjög skýrt hvernig hann notaði stera einmitt í þeim tilgangi að geta gert það sem hann gerði. Sjálfsvígstíðni steranotenda sem eru að reyna að hætta er einnig mjög há. Mörgum reynist ótrúlega erfitt að hætta að nota þessi lyf. Því fylgir mikil vanlíðan, þunglyndi og kvíði, ásamt því að þau áhrif sem sóst var eftir á grunni óöryggis og kvíða hverfa mjög hratt. Einnig hefur verið sýnt fram á að heilavefur rýrnar við notkun stera á þennan hátt.

Á sama hátt og með fæðubótarefnin og orkudrykkina snýst þetta líka að miklu leyti um markaðssetningu og sölumennsku. Ekki má gleyma því að sölumenn stera eru oft þeir sömu og selja önnur ólögleg efni og eiturlyf. Sterakaup eru þannig oft fyrstu samskipti sem þessi viðkvæmi hópur á við slíka sölumenn, sem svo reyna auðvitað að selja fleira. Einnig eru sterar stundum fyrsta sprautulyfið sem fólk notar. Það að sprauta sig í fyrsta sinn er ákveðinn þröskuldur, sem þá er búið að stíga yfir.

Í þessu eru líka ákveðnar tískusveiflur eins og í öllu öðru. Í dag er ekki lengur í tísku að vera mjög stór, heldur sækist fólk frekar eftir því að vera með sýnilega vöðva og „fit“. Í þessu samhengi er fólki ranglega talin trú um að hægt sé að nota stera, og ýmis önnur efni, í „réttu“ eða „öruggu“ magni. Þetta er auðvitað ekki rétt. Ef slík efni eru notuð þannig að þau hafa yfir höfuð áhrif á vöðvavöxt og útlit, munu þau líka valda aukaverkununum – það segir sig sjálft. Hins vegar er nú mun erfiðara að þekkja steranotanda í sjón en áður og ýtir þetta enn undir „normaliseringu“ þessarar hegðunar og útlits.

Langtímarannsóknir á afleiðingum steranotkunar hafa hingað til verið erfiðar. Hér er ekki um það gamalt fyrirbæri að ræða og leyfi fyrir raunverulegum lyfjarannsóknum fengjust aldrei á því sem við vitum að er skaðlegt. Afturskyggnar rannsóknir eru einnig flóknar þar sem fólk veit oft ekki hvað það í rauninni keypti af eiturlyfjasalanum og reiða verður sig á að fólk muni rétt og segi rétt frá. Slíkar rannsóknir eru þó að koma fram og sýna að steramisnotendur lifa skemur og eiga frekar við ýmis alvarleg heilsufarsvandamál, bæði líkamleg og andleg, að stríða seinna í lífinu.“

Nú er mikð rætt um notkun vaxtarhormóns (HGH), hvað vitum við um það og notkun á Íslandi?

„Vaxtarhormón er eitt heiladingulshormónanna og leikur hlutverk í almennri heilsu og vellíðan fullorðinna og vexti barna. Eina rétta ábendingin fyrir notkun vaxtarhormóns hjá fullorðnum er staðfestur vaxtarhormónaskortur. Slíkt er sjaldgæft og mjög flókið í greiningu. Raunverulegt vaxtarhormón er einnig mjög dýrt lyf. Af báðum þessum orsökum hafa einungis innkirtlalæknar fullorðinna og barna leyfi til að ávísa því að gefnum mjög ströngum skilyrðum. Of hátt vaxtarhormón, sem án lyfjagjafar verður ef í heiladinglinum myndast góðkynja æxli sem framleiðir vaxtarhormón, hefur margvíslegar alvarlegar afleiðingar. Börn sem hafa offramleiðslu vaxtarhormóns verða risar, þekkt dæmi um slíkt voru Jóhann Svarfdælingur og „Jaws“ úr James Bond-myndunum. Ef slíkt gerist á fullorðinsaldri fær fólk svokallaðan æsavöxt eða „acromegaly“, sem gefur ákveðnar útlitsbreytingar, en veldur einnig ómeðhöndlað háþrýstingi, sykursýki, hjartabilun, beinabreytingum, ákveðnum útlitsbreytingum, ásamt mörgu öðru. Afleiðingar af óviðeigandi notkun vaxtarhormóns eru í raun þær sömu. Hormónið getur til skemmri tíma breytt líkamssamsetningu og eflaust gefið ákveðna vellíðan, en það er skammgóður vermir.

Við vitum lítið um raunverulega útbreiðslu þessa hér. Aukin umræða og fyrirspurnir leyna sér þó ekki. Heyrst hefur að fólk borgi hundruð þúsunda fyrir mánaðarskammt af HGH. Því er þetta hugsanlega bundið við ákveðna þjóðfélagshópa, en tengist fyrst og fremst hégómalegri útlitsdýrkun. Vaxtarhormón er hins vegar mjög óstöðugt efni og er framleiðsla þess er flókin og mjög dýr. Líklegt verður því að teljast að margt af því sem fólk kaupir án lyfseðils frá öðrum en viðkurkenndum og vottuðum lyfjaframleiðendum sé kannski ekki raunverulegt. Engin raunveruleg vísindaleg rök eru fyrir því að vaxtarhormón hafi jákvæð áhrif á heilsu, nema sem meðferð á staðfestum skorti.“

Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, og Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits …
Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, og Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands, undirrita samning Mjölnis MMA og Lyfjaeftirlits Íslands varðandi fræðslu og forvarnir í lyfjamálum.

En hvað er þá hægt að gera?

„Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um fræðslu og samfélagslega ábyrgð. Almenningur verður að hafa aðgang að viðeigandi upplýsingum og gera verður honum kleift að skilja muninn á raunverulegum staðreyndum og sölumennsku. Þeir sem þjálfa og skipuleggja íþróttaiðkun verða að vera upplýstir. Stærsta áskorunin hér eru þó líkamsræktarstöðvar, sem stór hluti þjóðarinnar lítur til varðandi hreyfingu og heilbrigt líferni. Í nágrannalöndunum fer langmest sala ólöglegra efna fram í tengslum við líkamsræktarstöðvar, þó svo að hún tengist kannski ekki starfseminni sjálfri. Engin ástæða er til að álykta að það sama eigi ekki við hér á landi. Rekstri slíkra stöðva, sem oft tengjast sundlaugum og öðrum almenningsmannvirkjum, og stór hluti þjóðarinnar greiðir fyrir aðgang að, fylgir gífurleg samfélagsleg ábyrgð í þessu samhengi. Enn meira áhyggjuefni er ef hlaupist er undan þeirri ábyrgð af einhverjum, þá nokkuð gegnsæjum ástæðum.

Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa brugðist við þessum vanda með því að gera líkamsræktarstöðvum kleift að sækja um vottun sem lyfjalausar stöðvar. Mikilvægasti þáttur þess er fræðsla fyrir starfsfólk og áskrifendur, en sum landanna gefa einnig möguleika á lyfjaprófum ef grunur vaknar um misnotkun inni á stöðinni. Lyfjaeftirlitið hér á Íslandi hefur efnt til samstarfs við systurstofnunina í Noregi (Anti-Doping Norway), sem er jú ein sú fremsta í heimi hvað íþróttir varðar. Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri lyfjaeftirlitsins, á veg og vanda að þessu samstarfi. Mjölnir hefur nú þegar skrifað undir, en áhugi hefur því miður verið takmarkaður hjá öðrum stærri stöðvum hingað til. Lyfjaprófanir eru ekki hluti af þessum samningum, nema beðið sé um það sérstaklega. Frekari upplýsingar má finna hér: www.hreinnarangur.is.

Við erum einnig í samstarfi við embætti landlæknis, en landlæknir hefur auðvitað sýnt þessu mikinn áhuga og er þetta hluti verkefna þeirra sem koma að heilsueflandi samfélagi og fleiru. Vinna verður á þessum vanda úr sem flestum áttum.“

Hvað á fólk þá að gera til að bæta heilsu sína?

„Í stuttu máli eru engar töfralausnir. Það eru engin undralyf eða styttri leiðir. Þetta snýst alltaf um sömu almennu ráðin; borða hollan venjulegan mat, sofa vel, hvorki reykja né drekka í óhófi, og hreyfa sig reglulega. Ef einhver reynir að selja þér eitthvað sem virkar betur en það, er vanalega maðkur í mysunni,“ segir Tómas.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál