Vítamín afsakar ekki lélegt mataræði

Hannes Þór Þorvalsson lyfjafræðingur segir að það sé ekki til …
Hannes Þór Þorvalsson lyfjafræðingur segir að það sé ekki til neitt sem heitir töfralausn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hannes Þórður Þorvaldsson lyfjafræðingur segir það loða við marga í sinni stétt að nota helst engin lyf, þau vilji síður bera á sig nokkurs konar krem eða áburði né taka neins konar pillur, hvort heldur sem er til lækninga eða bara vítamín og önnur fæðubótarefni. 

Hannes Þórður lyfjafræðingur starfar í apóteki meðfram því að starfa að spennandi frumkvöðlaverkefni sem hann nefnir Formúlu (áður KoPrA). Verkefnið spratt upp úr sérstökum áhuga hans og Finns Freys Eiríkssonar,

lyfjafræðings og doktors í líf- og læknavísindum, á næringarefnum og mataræði. Þá sér í lagi hversu mikill van- og misskilningur hefur viðgengist í vísindum tengdum næringu og matvælum og þar með hjá lýðheilsuyfirvöldum, framleiðendum og í þjóðfélaginu öllu að þeirra mati.

„Formúla er alhliða æfingadrykkur fyrir afreksíþróttamenn og aðra sem ætla að leggja of mikið á sig líkamlega en vilja koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar svo mikils álags. Þá er farið á æfingu með tóman maga en með blandaða Formúlu í farteskinu og drykkurinn drukkinn jafnt og þétt yfir æfinguna. Formúla inniheldur allt sem góður fyrir-, á meðan og eftir-drykkur myndi hafa upp á að bjóða, í nægu magni til að hafa áhrif og á þannig formi að efnin eru nothæf líkamanum um leið. Þú fyllir því jafnóðum á orkubirgðirnar og vatnsbúskapinn og getur haldið áfram að ganga fram af þér 1-2 tímum lengur en ella – án bólguviðbragða (vondra harðsperra), taugaslens eða annarra alvarlegra eftirkasta.“

Notar lítið af vítamínum sjálfur

Hannes segir þá nálgast málin út frá lyfjafræðilegri aðferðafræði.

„Þar sem tilgangur, virkni, öryggi og fleira er haft til viðmiðunar. Þannig er einnig hugsunin við framleiðsluna. Við blöndum formúluna sjálfir úr hreinum efnum og pökkum og dreifum líka beint til neytenda; eina útstillingin í verslun er í Apóteki Garðabæjar enn sem komið er.“

Hver er skoðun þín á vítamínum sem maður kaupir úti í búð í dag?

„Ég hef ekki mikla skoðun á þeim. Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að spyrja að því, þar sem ég nota svo lítið vítamín. Það virðist loða við okkur marga í minni stétt að nota helst engin lyf; vilja síður bera á okkur nokkurs konar krem eða áburði né taka neins konar pillur, hvort sem eiga að vera til lækninga eða eru bara vítamín og önnur fæðubótarefni.

Ef heilsan leyfir heldur maður sig bara við almenn matvæli; ég borða sjálfur fjölbreyttar dýraafurðir. Það er hægt að fá ýmis önnur vítamín, snefil- og bætiefni ef maður er ekki pjattaður og borðar eingöngu magra kjötið, heldur líka innmat, hausa, skinn og fitu og brjósk. Ég bryð það alltaf ef það verður fyrir mér í t.d. kjúklingi eða svíni. Mergurinn er svo mergur málsins.“

Fæðubótarefnamarkaðurinn ekki traustverðugur

Fæðubótarefnamarkaðurinn hefur aldrei verið mjög traustverðugur að mati Hannesar. „Það er ekki mikið eftirlit og ýmsu haldið fram – en auðvitað vill maður trúa því að í vörulínum hér heima sé það sem lofað er á umbúðunum sannarlega í vítamínunum og þá á þannig formi að það skili sér. Ef við gerum ráð fyrir því, þá er auðvitað fullt af fólki með skilgreind vandamál sem sjálfsagt er að mæta með viðeigandi fæðubótarefnum. Að taka vítamín til þess eins að taka þau, pissa þeim út og afsaka lélegt mataræði, er síður betra en að sleppa því í mínum bókum.“

Hvaða samsetningu af vítamínum mælir þú með fyrir fólk?

„Til að geta farið að mæla með einhverjum vítamínum þyrfti ég að vita hvað er að hrjá fólk. Það almennasta hérlendis væri auðvitað fyrir íslenska innipúka að leiðrétta D-vítamínskort og bjarga sér þannig frá lítilli hormónastarfsemi (t.d. minni kynhormónum), þar sem við fáum ekki endilega svo mikið D-vítamín úr fæðu heldur er ætlað að mynda það sjálf í sólarljósi. Öðrum vítamínum eigum við að fá meira en nóg af úr matnum okkar en gætum misst eða ekki tekið vel upp og þar með þurft að bæta við eða koma í okkur á annan hátt.“

Blóðgjafar og konur á blæðingum

Hannes hefur upplifað að gefa of ört blóð sem varð til þess að hann þurfti meira af járni.

„Ég hugaði ekki nógu vel að því hvaða birgðir það gekk á og þurfti þá að sætta mig við fjárfestingu í járnmixtúruflöskum og D-vítamín perlum. Þannig að blóðgjafar og konur á miklum blæðingum þurfa að huga að járnbúskapnum og öðru því tengdu. Þá er ágætt að C-vítamín fylgi með, en heilbrigðu fólki nægir að narta í salatblað eða sítrónubát til koma í veg fyrir skort á því.

Þeir sem eru komnir með vanstarfsemi í meltingarvegi eða ójafnvægi á insúlín-kerfið (svo sem byrjunarstig á sykursýki II) virðast stundum taka illa upp B12-vítamín og geta lent í skorti á því ásamt járni og C-vítamíni, svo eitthvað sé nefnt, og þá hressist fólk mjög við aftur af að bæta sér það upp. Það getur líka haft áhrif á skjaldkirtilsstarfsemi, sem ef dregur úr veldur slappleika og þarf að huga að – en allt þetta væri þó best að bæta til lengri tíma með lausnum sem miða að því að laga undirliggjandi vandamálið en ekki bara afleiðingar þess. Algengasta orsökin er að mínu viti of mikið sykur- og kolvetnaát. Ég hef oft spurt fólk hvort það drekki mikið af sætum gosdrykkjum og mæli þá með að það hætti því og jafnvel fari bara á góðan lágkolvetnakúr ef ekki lágkolvetnamataræði til frambúðar. Það er merkilega auðvelt að koma ofan í sig um eða yfir 2 lítrum af sætum gosdrykk eða ávaxtasafa á dag og þá samhliða kökubitum, nammibitum og brauðáti – en þá eru vítamínin ekki sjálft vandamálið.“

Heilbrigð manneskja á ekki að þurfa fæðubótarefni

Er hægt að fá allt sem maður þarf úr góðu mataræði?

„Já, heilbrigð manneskja eða þeir sem ekki eiga við skilgreind vandamál tengd næringarefnum að stríða þurfa auðvitað engin fæðubótarefni til að lifa góðu lífi. Ef mannskepnan hefur aðgang að mat og vatni, hreyfir sig og fær svefn og snertingu þá auðvitað lifir hún, annars værum við ekki hér. Það þarf að sjálfsögðu einhverja fjölbreytni í mataræðið til að nálgast öll lífsnauðsynleg efni, en í sumum frumstæðum þjóðfélögum hefur það sýnt sig að það þarf ekki endilega margt að koma til svo að allt sé „dekkað“.

Og svo er gott að muna að ekki þarf endilega að fá allt á hverjum degi. Ein tafla á dag er bara sniðug uppfinning lyfjafræðinnar og gott viðmið til skilgreiningar í umræðu, til að einfalda okkur lífið og tryggja sem besta meðferðarheldni í lyfjameðferðum. Allt í einhverju magni á hverjum degi, alla vikuna, gegnum allar tíðir ársins er fráleitt að sé nauðsynlegt viðmið í umræðu um næringu.

Sveiflur eru okkur eðlislægar. Of mikið einn daginn en ekkert þá næstu er í sumum tilfellum bara betra en að fá alltaf sömu efni alla daga. Tökum sem dæmi kolvetni og sykur, en „svindl“dagar á nokkurra daga fresti eru að öllum líkindum hollari en ekki fyrir þá sem eru á annars kolvetnalausu mataræði. Við getum lifað án matar í allt að 3 vikur bara ef við neytum vatns og jafnvel nokkra daga án vatns. Við fáum ekki C-vítamínskort á einum sólarhring, þótt það skolist nokkuð hratt út, hvað þá nokkurn annan vítamínskort.

Mataræði þarf því hvorki að vera flókið né bjóða upp á alla sína fjölbreytni upp á hvern dag til að fáum allt sem við þurfum út úr því.“

Fituforði ágætur D-vítamíngjafi

Hvernig myndir þú setja saman bætiefni/vítamín miðað við að búa á Íslandi í janúar?

„Aftur væri gott að vita hvað fólkið er ekki að gera eða ekki að borða. Nú borðar fólk ekki lengur svo árstíðabundið. Allt fæst allan ársins hring í matvöruverslunum; grænmeti, ávextir, kjöt, egg, mjólkurvörur, baunir og hnetur o.s.frv. Svo varla er við neinum skorti að búast eins og í gamla daga, þegar fólk horaðist upp eftir jólahátíðina og þreyði þorrann í framhaldi af mánuðinum mörsugi.

Ef ekki nýtur sólarljóss má eins og ég nefndi áðan huga að D-vítamíninu. Það má annars fá úr fiskolíum og lifur eða jafnvel bara úr eigin fituforða! Fari fólk í að láta ganga á hann á nýju ári vel upp birgt af D-vítamínforða eftir útivistarsumar og sólarlandaferð í miðsvetrarfríinu. En að öllu gamni slepptu, þá myndi ég líklega bara ekki setja saman fjölvítamín fyrir heilbrigðan Íslending út frá neinum mánuði.

Meira að segja reyni ég ekki einu sinni að pranga eigin drykk upp á fólk í hversdagslegri líkamsrækt. Góður matur dugar alveg til að koma fólki af krafti í gegnum 45 mínútna æfingu. Það er ekki nema eitthvað fari út fyrir „normið“ að þurfi sérhæfðar lausnir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál