„Hungruð manneskja borðar óskynsamlega“

Ólöf Guðný Geirsdóttir næringafræðingur.
Ólöf Guðný Geirsdóttir næringafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólöf Guðný Geirsdóttir, næringarfræðingur og deildarforseti matvæla- og næringarfræðideildar, er á því að staða næringarfræðinga ætti að vera víða í samfélaginu. Hún segir mat félagslegt fyrirbæri og að á löngum ferli sínum hafi hún tileinkað sér sjálfsmildi og kærleik í sinn garð og annarra. 

Ólöf Guðný er á því að góður matur sé gulls ígildi og vonar að almenningur fái í náinni framtíð aukin tækifæri til að hitta næringarfræðinga hvort heldur sem er á spítölum, á heilsugæslustöðvum eða í fyrirtækjum.

Þó hún sinni fullu starfi uppi í háskóla, þá finnur hún sér tíma til að sinna fleiri verkefnum, enda eftirspurn eftir næringarfræðingum mikil í þverfaglegum teymum sem miða að því að efla og styrkja fólk, m.a. með mat.

„Við erum búin að vera í evrópsku rannsóknarverkefni síðustu tvö árin, erum í innlendum og norrænum rannsóknarverkefnum þar sem næring snertir á málefnum allt frá hvernig getum við tryggt sem best næringarástand veikra og hrumra aldraðra sem eru í heimahúsi, hvernig næring og félagsleg staða hefur áhrif á hvernig við eldumst og áhrif lífsstíls frá vöggu til grafar. Ég vann sem dæmi að Ráðleggingum um mataræði fyrir eldra fólk sem er við góða heilsu, með Landlækni í fyrra. Er í Byltuhóp Landspítalans sem vinnur að leiðbeiningum fyrir fagfólk til að fyrirbyggja byltur á spítalanum. Minn þáttur í þeirri vinnu var að koma með ráðleggingar er varða næringu og orku fyrir þá sem eru veikir á spítala. Margir gætu velt því fyrir sér hvað næringarfræðingur gerir inni í slíkum hópi. Veikur einstaklingur getur misst styrkinn, vöðvana og jafnvægi ef ekki er hugað að næringarástandi hans og vökva, við höfum rannsókn sem sýnir að vannærður eldri sjúklingur er í áttfalt meiri hættu að detta inni á sjúkrahúsi en aldraðan einstakling sem er ekki vannærður. Byltur eru eitt af því sem viljum af öllum mætti koma í veg fyrir, bæði inni á stofnunum og í heimahúsum.“

Við vannæringu slokknar á tilfinningum

Hún segir næringarfræði ná víða. Við þurfum jú öll að borða og nærast.

„Ef við gerum það ekki þá hættir líkaminn að virka eins og hann á að gera og maður verður daufur, kvíðinn og sinnulaus. Tilfinningar krefjast orku og ef ekki er nægilega orka í líkamanum slokknar á tilfinningum og kvíði, þráhyggja og vanlíðan tekur yfir.“

Ólöf Guðný hefur reynslu á þessu sviði, enda vann hún í átröskunarteymi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans á árunum 2000-2008.

Hún segir það tímabil hafa kennt sér samkennd og auðmýkt í garð fólks.

Hvað kenndi það tímabil þér?

„Sumt af unga fólkinu okkar hefur upplifað erfiðleika og áföll sem enginn ætti að fara í gegnum. Umhverfið segir að það sé fátt verra en að vera feitur. Heilbrigði að mínu mati er hins vegar ekki mælt í kílóum heldur hvernig þú sinnir þér líkamlega, andlega og félagslega. Það eru alls konar ástæður fyrir átröskunum og það ætlar sér enginn að vera með átröskun. Átröskun tekur á sig alls konar myndir og sést yfirleitt ekki utan á einstaklingnum.

Það eru sem dæmi langflestir með átröskun í kjörþyngd eða í yfirþyngd.“

Þegar fólk notar hreyfingu sem refsingu við að borða

Ólöf Guðný segist oft heyra fólk segja að það megi borða aðeins meira af því það sé búið að hreyfa sig. Eins segist hún heyra í almennu tali að einhver hafi borðað köku og viðkomandi ætli að fara út að hlaupa í 45 mínútur í staðinn til að ná af sér kökunni.

„Af hverju ekki að borða og njóta? Af hverju er hreyfing notuð sem refsing fyrir að borða? Hreyfing ætti að mínu mati ekki að vera refsing. Það eru forréttindi að geta notið hreyfingar sem styrkir bæði andlega og líkamlega.“

Hún segir þátt næringarfræðings í átröskunarteymi vera að reyna að finna eðlilega matarhegðun fyrir þann einstakling sem unnið er með hverju sinni. Það að borða úr flestum fæðuflokkum og að borða reglulegar máltíðar.

Hvað um þá sem hafa misst tökin á þyngdinni?

„Við lítum alls konar út og eigum öll okkar tilverurétt, sama hvernig við erum í laginu. Ég trúi því að við séum öll að gera okkar besta miðað við þær aðstæður sem við eru í hverju sinni. Sumir eru með góð gen og eru aldir upp við hollar og góðar matavenjur en þannig er það ekki komið fyrir öllum. Eins er þáttur samfélagsins töluverður. Það er stöðugt verið að segja okkur að borða. Allt í þjóðfélaginu ýtir undir ofneyslu og er áreitið sem dynur á okkur mikið. Ábyrgð matvælaiðnaðarins í þessu tilliti er mikil. Ef farið er vel með hráefnin getur matur verið heilsueflandi fyrir okkur mannfólkið og umhverfið líka. En ef farið er illa með hráefnin getur orðið mikill skaði bæði á einstaklingnum og umhverfinu.“

Hvernig er ástandið hjá okkur í matvælaframleiðslunni og hvaða áhrif ertu að tala um?

„Umbúðirnar utan um mat, kalla á okkur, svo er lítil eftirfylgni með því hvað er sett í matinn okkar. Að mínu mati þyrfti matvælaeftirlitið að vera öflugra hér á landi.“

Tiltölulega flókið mál að léttast

Hvað um að léttast. Hvernig horfir það við þér?

„Það er að mínu mati tiltölulega flókið og margþætt mál að aðstoða fólk við að léttast. Út frá umhverfissjónarmiði væri að sjálfsögðu best ef við myndum minnka sóun og borða hæfilega. Enda er vinna næringarfræðingsins ekki einvörðungu manneskjan sjálf og samfélagið heldur einnig jörðin. Ef við hugsum hvað við setjum ofan í okkur, að það sé unnið í sátt við umhverfið og náttúruna, þá værum við í betri málum.

Þegar að kemur að fólki sem hefur misst stjórn á þyngdinni sinni þá er það oft fast í hugmyndum og niðurbrjótandi hugsunum. Það er töluverður fjöldi einstaklinga í mikilli offitu. Þeir sjást oft ekki á meðal almennings því þeir eru með svo mikla skömm út af þyngdinni og samfélagið lætur þá finna fyrir fordómum. Það hefur enginn rétt á að dæma aðra manneskju út frá útliti. Það er mannréttindi okkar allra.“

Hún segir starf næringarfræðings með einstaklingi sem hefur misst tökin á þyngd sinni vera að fá hann til að byggja upp sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu.

„Að borða reglulega er lykilatriði að mínu mati. Svo svengd eða vanlíðan stjórni ekki fæðuvali eða magni matar. Því auðvitað hefur svöng manneskja ekki stjórn á því hvað hún borðar, við veljum flest það sem er bragðgott, þarf ekki að tyggja mikið og tekur ekki langan tíma að undirbúa. Eins finnst mér allt tal um fall eða dómharka á því sviði ekki hjálpa til við svona aðstæður. Að gera sitt besta á degi hverjum, greiða úr tilfinningum með sálfræðingi ef þarf, fá aðstoð með hreyfingu og fleirir skref í átt að bata er hluti af bata einstaklings sem þarf uppbyggingu á þessu sviði að mínu mati.“

Ólöf Guðný varði doktorsnámi sínu í rannsókn á eldra fólki og kom einnig að þróun á Hleðslu hjá Mjólkursamsölunni á sínum tíma.

„Verkefnið heitir IceProQualitia og var tveggja ára verkefni sem enn þá er verið að skrifa vísindagreinar úr. Við vildum mæla áhrif próteindrykkja á eldra fólk og fengum tæplega 250 einstaklinga sem voru 65 ára og eldri til að taka þátt í þessu með okkur. Fólkið sem tók þátt í rannsókninni var algjörlega rjóminn fyrir sinn aldur, flestir voru á engum lyfjum, eða tveimur lyfjum eða færri. 80% þátttakenda voru í reglulegri hreyfingu og í góðu næringarástandi. Ég skoðaði hreyfifærni og lífsgæði fólksins og náðu 20% hópsins ekki árangri eftir þriggja mánaða styrktarþjálfun. Þegar rýnt var í gögnin sást að þau sem borðuðu ekki nóg fengu ekki nægilega orku og prótein. Þessi hópur náði ekki árangri eins og aðrir í hópnum náðu og á sama tíma. Þeir jafnvel misstu færnina og hreyfigetu með tímanum því þá vantaði næringu í líkamann, líkt og þegar bensínlaus bíll stoppar út af orkuleysi. Manneskjan stoppar hins vegar ekki heldur tekur orku og byggingarefni úr líkamanum. Vöðvar hreyfa beinin og minnkandi styrkur eykur hrörnun. Eftir rannsóknina sá ég hversu mikilvægt er fyrir okkur konur sem dæmi að vera ekki alltaf að setja athyglina of mikið á þessi fimm kíló sem okkur langar að missa. Við megum alveg taka pláss og ef rannsóknin sýnir að einn af hverjum fimm sem taka þátt í styrktaræfingum til að byggja upp vöðva og styrk rýrnar vegna niðurbrots í líkamanum og vegna lélegrar næringar þá verðum við sem samfélag að vera meðvituð um að við þurfum að borða nóg til að standa undir okkur og tryggja að viðkvæmir hópar eins og veikir eða hrumir fái viðeigandi mat og næringu.“

Í þessu samhengi er Ólöf Guðný ekki að mælast til að fólk borði of mikið. Heldur meira að ítreka mikilvægi þess að borða fjölbreytt. Í raun að við tryggjum að við fáum öll næringarefni úr fæðunni. Hún segir hálft kíló af grænmeti ráðlagðan dagskammt sem flestir ættu að reyna að halda sér við en þeir sem borða lítið eða nærast illa þurfa að tryggja að matur sem gefur meiri orku og næringu eins og mjólkurvörur, kjöt, fiskur, hnetur og fræ minnki ekki og þá þarf oft að minnka grænmeti- og ávexti.

Matur mikilvægur í krabbameinsmeðferð

Að starfa með fólki sem er að ná sér eftir krabbamein gaf einnig sömu niðurstöðu og hún nefnir hér að ofan.

„Það er sagt að við getum minnkað líkur á krabbameini um 10% með ráðlögðum dagskammti af grænmeti og ávöxtum. Að hreyfing og losun stress og streitu efli ónæmiskerfið. Áfengi er einnig talið vera áhættuþáttur þegar kemur að krabbameini.“

Hvað gerir næringarfræðingur inni í teymi sem vinnur með krabbameinssjúklingum?

„Ég gerði rannsókn árið 2008 þar sem ég athugaði konur með krabbamein. Þar sá ég hvernig þær þyngdust í meðferð en misstu vöðvamassann. Ein af ástæðum þess er að eftir meðferð er einstaklingur vanalega mjög þreyttur og slappur. Hlutverk næringarfræðings inni á krabbameinsdeild er að finna leiðir fyrir þann sem er veikur til að nærast. Fólk er oft með sár í munni, eða viðkvæm meltingarfæri. Eftirmeðferð og að ná sér eftir krabbamein getur tekið mörg ár. Fólk upplifir sig sem dæmi glatt eftir meðferð ef allt lítur vel út. Hins vegar er það oft með stöðugan ótta við að fá krabbameinið aftur og er þróttlítið og vannært og þarf að finna bestu leiðirnar til að byggja sig upp aftur. Þar gegnir næring lykilatriði að mínu mati, úrvinnsla tilfinninga og hreyfing svo dæmi séu tekin.“

Ræða vanmátt tengdan mat við sérfræðing

Ólöf Guðný lifir góðu lífi sjálf og nýtur þess að borða góðan mat. Hún reynir að sniðganga engar matartegundir og er á því að við eigum ekki að ala börnin okkar upp við ótta tengdan mat. Hún viðurkennir að að sjálfsögðu fari matur misvel í fólk. Sumir séu með einskonar óþol fyrir sykri eða öðrum matvælum.

„Mér finnst lykilatriðið að vinna í sjálfsvirðingunni og njóta matar. Matur er stór hluti af lífsgæðum okkar. Ég reyni að vera með sjálfsmildi og að borða það sem mér finnst gott. Matur er mjög félagslegur í mínum huga. Ég sem dæmi nýt þess að drekka góðan kaffibolla og borða morgunmat með eiginmanni mínum á morgnana og lesa blöðin, sem er ljúf byrjun á deginum. Síðan reynum við að elda alltaf saman á kvöldin eitthvað sem er gott og fallegt á diskunum fyrir okkur fjölskylduna að borða. Það má ekki gleymast að maturinn þarf líka að vera fyrir öll skynfæri, vera fallegur, lykta vel, hafa rétta áferð og sem dæmi grænmeti að vera brakandi. Þegar kemur að hádegisverðinum þá er hann oftast inni hjá mér við tölvuna, því miður og er það ekki til eftirbreytni. Dagskráin mín leyfir ekki alltaf að hádegisverðurinn sé borðaður klukkan tólf í félagsskap góðra samstarfsfélaga.“

Hún segir að gullna reglan sé að hugsa jafn vel um sjálfan sig og aðra. Að tala eins fallega við sig og maður gerir við besta vin sinn. Ef maður setur eitthvað ofan í sig sem maður ætlaði ekki að gera, að halda bara áfram án þess að dæma sig. Ef maður verður vanmáttugur gagnvart mat sé best að ræða það við fagfólk.

,,Læknir verður ekki reiður að hitta þig ef þú brýtur á þér fótinn. Það sama á við um næringarfræðing ef þú þarft aðstoð vegna mataræðis. Það er allt eins víst að þú hittir fyrir manneskju sem elskar vinnuna sína og kann fjölmörg ráð við að koma hlutunum í réttan farveg á þínum forsendum. Fyrsta skrefið er alltaf að gera raunhæf lítil markmið og taka jákvæð skref í rétta átt og muna að þegar við erum að vinna að breytingum þá er það erfitt og við gerum alltaf eins vel og við getum á hverri stundu. Að borða af skynsemi þýðir að svelta sig ekki. Hungruð manneskja borðar alltaf óskynsamlega. Það er í mannlegri hegðun að gera slíkt.“

Að lokum segir hún að gamla staðalímyndin af næringarfræðingnum með fingurinn á lofti sé barn síns tíma. Að viðmót næringarfræðinga sé faglegt og grundvallist vinna þeirra á þekkingu og samvinnu – og að finna út heilbrigðar leiðir sem efla einstaklinginn bæði andlega og líkamlega.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál