„Vinsældir hjáveituaðgerða aldrei verið meiri“

Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir.
Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalsteinn Arnarson var hræddur við nálar á menntaskólaárum sínum en starfar nú sem skurðlæknir og sérhæfir sig í efnaskiptaaðgerðum. Fólk virðist öðlast nýtt líf eftir slíkar aðgerðir en þær eru ekki með öllu hættulausar. 

Aðalsteinn er sérfræðingur í kviðarholskurðlækningum og hefur lagt áherslu á kviðsjáraðgerðir í efri hluta kviðar. Þegar fólk leitar til Landspítala í aðgerðir vegna gallsteina, vélindabakflæðis, kviðslits, krabbameins í vélinda eða maga eða vegna offitu eru líkur á að það hitti hann.

Aðalsteinn er einn nokkurra sérfræðinga landsins í efnaskiptaaðgerðum vegna þyngdarvanda fólks. Hann lærði læknisfræði við Hans-Christian-Albrechts-háskólanum í Kiel í Þýskalandi og fékk almennt lækningaleyfi 2003.

Aðalsteinn starfaði sem sérnámslæknir og síðar sérfræðingur í kviðarholsskurðlækningum við Blekingesjukhuset í Svíþjóð í 13 ár. Árin 2011-2015 vann hann jafnframt í hlutastarfi við Sørlandet Sykehus í Arendal í Noregi þar sem hann byggði upp starfsemi um efnaskiptaaðgerðir. Aðalsteinn starfar nú á Landspítala-háskólasjúkrahúsi í 80% starfshlutfalli og á Klíníkinni Ármúla í 20% starfshlutfalli, þar sem hann sérhæfir sig meðal annars í efnaskiptaaðgerðum – það er magaermiaðgerðum og hjáveituaðgerðum.

Mittismál Íslendinga ekki til fyrirmyndar

Efnaskiptaaðgerðum fjölgar úti um allan heim og einnig á Íslandi að sögn Aðalsteins. Tölur um mittismál Íslendinga eru öðrum þjóðum ekki til eftirbreytni ef marka má rannsóknir. Í raun sker Ísland sig frá hinum norrænu þjóðunum því meira en helmingur fullorðinna í landinu er í yfirvigt samkvæmt rannsókn sem unnin var í matvæladeild Tækniháskólans í Danmörku. Rannsóknin var gerð á árunum 2011 til 2014 og unnin sem samvinnuverkefni rannsóknarteyma í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi. Niðurstöður um Ísland sýndu að tveir af þremur körlum í landinu eru í yfirvigt og fimmti hver karl og kona í mikilli yfirvigt. Í Yfirliti heilbrigðismála sem unnin er fyrir OECD löndin fyrir árið 2019 segir ennfremur að hegðunartengdir áhættuþættir leiða til rúmlega þriðjungs allra dauðsfalla á Íslandi. Áhætta tengd matarvenjum leiddi til rúmlega eins sjötta allra dauðsfalla ársins 2017, sem rekja mátti til of lítillar ávaxta- og grænmetisneyslu en of mikillar neyslu á sykri og salti.

„Samkvæmt líkamsþyngdarstuðli (e. BMI) er fólk komið í yfirþyngd þegar BMI er yfir 25. Ef við tökum sem dæmi einstakling sem er 175 cm er hann í yfirþyngd ef hann er 77 kg eða þyngri.

Ef BMI-stuðullinn fer yfir 30 er um ofþyngd að ræða. Þá er einstaklingur sem er 175 cm orðinn 92 kg eða þyngri.

Fari BMI-stuðullinn yfir 35 er um alvarlega ofþyngd að ræða og einstaklingur sem er 175 cm orðinn 107 kg eða meira.

Í alvarlegri ofþyngd er hættan á vandamálum tengdum efnaskiptum líkamans orðin mikil og hættan á sykursýki 2 orðin veruleg. Eins eru lífsgæðatengd vandamál eins og kæfisvefn og stoðkerfisverkir orðin algeng.“

Þær viðurkenndu leiðir sem eru í boði fyrir fólk sem er að berjast við vigtina eru að mati Aðalsteins magaermi- og magahjáveituaðgerðir. „Hjáveituaðgerðir eru gerðar í ýmsum útfærslum og fer þá maturinn í gegnum vélindað og þaðan niður í miðhluta smágirnis.

Magaermin er einfaldari aðgerð og felst í því að minnka magann, en allt að 80-90% magans eru fjarlægð úr líkamanum í þeirri aðgerð.“

Aðalsteinn segir magabandsaðgerðir lítið sem ekkert notaðar enda sýni rannsóknir að sú leið virki ekki til lengdar. Félag fagfólks um offitu mæli jafnframt gegn þeim og mikilvægt að almenningur sé upplýstur um það.

Efnaskiptaaðgerðir kosta rúma milljón 

Þar sem Aðalsteinn starfar bæði á Landspítalanum og í Klíníkinni þekkir hann muninn á undirbúningi fyrir efnaskiptaaðgerðir á þessum tveimur stöðum.

„Þeim einstaklingum sem fara í þessar aðgerðir á vegum Sjúkratrygginga Íslands er gert að fara á undirbúningsnámskeið á Reykjalundi og/eða Heilsuborg. Sjúkratryggingar greiða þá að mestu fyrir undirbúning, skurðaðgerð og eftirfylgni.

Fólk getur líka leitað til einkaaðila á borð við Klíníkina. Þrátt fyrir að öll skilyrði Sjúkratrygginga Íslands fyrir aðgerð séu uppfyllt (BMI þarf í flestum tilvikum að vera 40 eða hærra til að Sjúkratryggingar taki þátt í aðgerðarkostnaði) þarf einstaklingurinn samt sem áður að greiða stærstan hluta aðgerðarinnar. Efnaskiptaaðgerð kostar um 1,2 milljónir íslenskra króna.“

Aðalsteinn segir að það sé fleira í þessu samhengi sem áhugavert er að skoða.

„Tökum sem dæmi mæðgur sem leituðu til mín. Báðar höfðu fengið aðgerð samþykkta af Sjúkratryggingum. Vegna langs biðtíma á Landspítala valdi dóttirin að fara í aðgerð erlendis sem Sjúkratryggingar greiddu að fullu. Móðirin treysti sér ekki til að fara sömu leið og valdi að fara í aðgerð á Klíníkinni og þurfti að greiða aðgerðina sjálf.

Þetta er mismunun sem ætti ekki að sjást á Íslandi og þekkist ekki í Noregi og Svíþjóð svo dæmi séu tekin.

Sum stéttarfélög skilja þó hversu miklir hagsmunir þetta eru fyrir einstaklinga og greiða hluta aðgerðarinnar.“

Konur í meirihluta í efnaskiptaaðgerðum

Aðalsteinn segir það áhugaverða staðreynd að stærstur hluti sjúklinga sem fara í efnaskiptaaðgerð er konur þótt fleiri karlmenn séu hins vegar í ofþyngd.

„Ástæðan fyrir þessu gæti verið sú að konur huga mögulega frekar að eigin heilbrigði en einnig getur verið að samfélagið samþykki frekar að karlmenn séu í yfirþyngd.“

Hvað viðkemur hlutverki hjúkrunarfræðinga og næringarráðgjafa hjá Klíníkinni segir Aðalsteinn þessa sérfræðinga skipta miklu máli.

„Þeir gegna mikilvægu hlutverki bæði fyrir aðgerð en einnig fyrstu eitt til tvö árin eftir hana þar sem sjúklingurinn þarf að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Það þarf að passa vel upp á fjölbreytta og góða næringu og eins er mjög mikilvægt að nægjanlega mikið magn af vítamínum og steinefnum sé í líkamanum. Sem dæmi þá getur járnskortur gert vart við sig eftir aðgerð og hætta á beinþynningu eykst. Með góðri eftirfylgni má tryggja betri árangur til langs tíma.“

Leita matarfíklar í svona aðgerðir?

„Það er mjög fjölbreyttur hópur fólks sem sækir í efnaskiptaaðgerðir og bakgrunnurinn gríðarlega misjafn. Ástæður ofþyngdar geta verið margar. Sumir geta hafa lent í áföllum í æsku en aðrir hafa erfðirnar ekki með sér. Aðrir eru orðnir leiðir á að fara upp og niður í þyngd á milli ára. Þeir grennast og fitna til skiptis en ná aldrei langtímaárangri. Þarna eru einstaklingar með BMI-stuðul á bilinu 35 og allt upp í 80.

Stór hópur er konur sem fóru kannski að þyngjast eftir barneignir, eru komnar á miðjan fimmtugsaldur og eru með BMI á bilinu 40-45.“

Örlögin leiddu hann á slóðir læknisfræðinnar

Hvað varð til þess að þú valdir þér læknisfræði á sínum tíma?

„Ég var alltaf frumgreinasinnaður og stefndi á nám í verkfræði í Þýskalandi á sínum tíma – en af forvitni sótti ég jafnframt um nám í læknisfræði. Ég naut góðrar aðstoðar þáverandi þýskukennarans míns við að sækja um háskólanám. Við áttuðum okkur þó ekki á því að sýna þurfti fram á þýskukunnáttu þegar sótt var um háskólanám með fjöldatakmörkunum – eins og læknisfræði. Ég sótti um nokkra skóla í læknisfræði og einnig í verkfræði. Ég fékk inni í öllum skólum í verkfræði en fékk synjun um læknisfræðinámið í öllum skólum vegna skorts á þýska stöðuprófinu.“

Háskólinn í Kiel, sem bauð upp á læknisfræði, gerði undanþágu um málaprófið á þeim forsendum að Aðalsteinn hafði verið skiptinemi í Þýskalandi á menntaskólaárum sínum.

„Ég ákvað að grípa tækifærið þar sem greinilega var erfitt að komast inn í háskólann í Kiel og ílengdist síðan í frekara námi á þessu sviði í kjölfarið. Ég hef ekki séð eftir þessari ákvörðun.“

Aðspurður hvort margir í fjölskyldunni séu læknar segir hann að svo sé ekki þótt fleiri og fleiri bætist í hópinn. Meðal annars yngri systir hans sem starfar nú sem læknir á Grensási.

Ekki hættulausar aðgerðir

Aðalsteinn segir að í langflestum tilfellum sé góður árangur af efnaskiptaaðgerðunum sem hann framkvæmir. Alvarlegir fylgikvillar séu tiltölulega sjaldgæfir.

„Tíðni alvarlegra fylgikvilla í kjölfar efnaskiptaaðgerða er sem betur fer lág og sambærileg við til dæmis aðgerðir á gallblöðrum. Þar má nefna blæðingu, blóðtappa eða alvarlega sýkingu í kjölfar aðgerðar. Hins vegar má ekki gleyma að margir sjúklingar í þessum hópi teljast áhættusjúklingar í aðgerð vegna ýmissa fylgisjúkdóma eða notkunar lyfja sem geta aukið áhættu aðgerðar.“

Aðalsteinn segir fleira geta komið upp á eftir aðgerð. Allt að fjórðungur þeirra sem fara í magaermi fær bakflæði og svo sé mikilvægt að fyrirbyggja vítamín- og steinefnaskort með inntöku góðra vítamína ævilangt.

Til langs tíma er hætta á magasárum eða garnaflækju í kjölfar hjáveituaðgerða.

„Ég heyri marga lýsa því að þeir hafi öðlast nýtt líf í kjölfar aðgerðar. Margir losna við sykursýki 2 og kæfisvefn. Þeim mun fyrr sem fólk leitar í svona aðgerðir eftir að sykursýki kemur upp þeim mun meiri líkur eru á að við getum læknað hana. Þá getur kæfisvefn batnað, æða- og hjartasjúkdómum fækkar, blóðþrýstingur verður betri og tíðni krabbameins minnkar.“

Tengsl á milli krabbameins og yfirþyngdar

Hvaða tengsl eru á milli krabbameins og yfirþyngdar?

„Konur í ofþyngd eru í allt að tvöfaldri hættu á að fá brjóstakrabbamein miðað við þær sem eru í kjörþyngd. Sambærilegar tölur má sjá um annað krabbamein eins og í vélinda og ristli.“

Aðalsteinn segir yfirþyngd brengla hormónastarfsemi líkamans, geti breytt þarmaflórunni og að krónískar bólgur verði í líkamanum við yfirþyngd. „Þeir sem eru í alvarlegri ofþyngd lifa að meðaltali 7-8 árum skemur en þeir sem eru í kjörþyngd. Rannsóknir sýna að aðgerðir sem þessar geta gefið þessi ár til baka.

Auk þess á fólk auðveldara með að hreyfa sig og nýtur þess að stunda útivist og ganga á fjöll svo dæmi séu tekin.“

Aðalsteinn segist sjálfur lifa frekar heilbrigðu lífi. Hann hugi almennt að hollri hreyfingu, hjóli og syndi og borði það sem oft er nefnt „hreinn matur“.

„Ég hef áhuga á matargerð og hef gaman af því að elda matinn frá grunni með góðum hráefnum – helst íslenskum. Ég held það skipti miklu máli fyrir heilsuna, að borða góðan einfaldan mat sem nærir líkamann á heilbrigðan hátt.“

Gefur lítið fyrir megrunarkúra

Aðalsteinn gefur lítið fyrir megrunarkúra.

„Einhvern tímann las ég að til væru 20.000 megrunarkúrar með nafni – það segir allt sem segja þarf að mínu mati.“

Hversu margir fara í efnaskiptaaðgerðir á ári?

„Á Landspítala eru gerðar um 80 aðgerðir árlega og á Klíníkinni voru gerðar um 250 aðgerðir á síðasta ári. Mín tilfinning er að ásókn í aðgerðir sé heldur vaxandi.“

Aðalsteinn bendir áhugasömum á að kynna sér Læknadaga sem haldnir verða í lok janúar. Heill dagur verði tileinkaður málaflokknum yfirþyngd og sykursýki 2 svo dæmi séu tekin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál