Stanslaus átök og samviskubit skila engu

Sölvi Tryggvason.
Sölvi Tryggvason.

Sölvi Tryggvason, fyrrverandi fréttamaður og núverandi heilsugúrú, gaf út bókin Á eigin skinni í fyrra. Síðan þá er búið að prenta bókina tvisvar og í kjölfarið fór hann út í það að halda fyrirlestra um heilsu. Núna er hann búinn að halda 150 fyrirlestra fyrir um 7.000 manns. Hann segir að fólk þurfi að endurhugsa heilsuna og það þurfi að reyna að hreyfa sig miklu meira þótt það komist ekki á skipulagðar æfingar. 

„Ég gaf mér góðan tíma í að fara yfir árið 2019 og það hefur virkilega snert mig hvað ég hef fengið stórkostleg viðbrögð við efninu mínu alls staðar þar sem ég hef komið. Það leið varla dagur allt síðasta ár án þess að einhver léti mig vita að bókin mín eða fyrirlestrar hefðu gert viðkomandi gagn. Það hefur verið frábært ferðalag að fá að deila þessu með svona mörgum í öllum þjóðfélagsstigum úti um allt land,“ segir Sölvi. 

Aðspurður hvað hann hafi lært á þessu ferðalagi segir hann að það sé mögnuð upplifun að tala við svona margt fólk. 

„Að mínu mati eru nokkur atriði sem standa upp úr eftir að hafa talað við allt þetta fólk og allt sem ég hef lært á þeirri vegferð. 

Heilsuumræðan einkennist oft af töfralausnum og einhverju einu sem á að virka fyrir alla. Við erum jafn ólík og við erum mörg og þó að ákveðin aðalatriði eigi við um flesta, verður fólk að fá að fara sína eigin leið og finna sína eigin formúlu. Hjá flestum er allt of stór gjá á milli raunveruleikans og „ideal“ hugmyndarinnar þegar kemur að heilsu og fólk ætlar að borða allan fílinn í einum bita. Lykilatriðið er að snúa drifkraftinum úr samviskubiti og refsingu yfir í vellíðan. Tilfinningin sem fylgir því að standa við fyrirheit, sama hversu smá þau eru, býr smám saman til vellíðan, sem síðan verður að drifkrafti sem býr til fleiri góðar aðgerðir. Að byrja á litlum raunhæfum framkvæmdum sem fólk stendur raunverulega við er algjört lykilatriði, jafn lítið „sexy“ og það kann að hljóma. Það sem knýr fólk yfirleitt í þessi stanslausu átök er samviskubit, skömm og tilraun til að breyta öllu á einum degi. Gjáin er síðan of stór og fólk festist í vítahring,“ segir hann. 

Einu sinni var því haldið fram að fólk næði engum árangri nema æfa alla daga vikunnar í tvo tíma í senn eða eitthvað álíka. Finnst þér þetta vera að breytast?

„Það er sama hvort um ræðir hreyfingu, mataræði, hugleiðslu, kælingu eða annað. Í stað þess að ætla sér að fara úr sófakartöflu í keppnismann í íþróttum, úr því að hugleiða aldrei yfir í að ætla í klaustur á Indlandi, úr því að fara úr stanslausri óhollustu yfir í 100% fæðu, úr því að hafa aldrei kælt yfir í að verða Ísmaðurinn, gæti verið góð hugmynd að byrja á að hugleiða 5 mínútur á dag, taka 3 göngutúra í næstu viku, taka upp einn nýjan vana í mataræði og byrja að kæla morgunsturtuna í 15 sekúndur. Ef fólk síðan stendur við þessa litlu vana í ákveðið langan tíma verður til „momentum“ og drifkrafturinn að þessu öllu verður löngun til að líða vel í stað samviskubits og refsingar.“

Sölvi segir að fólk verði að hætta að rífa sig stöðugt niður því það skili engum árangri. 

„Jafnmikið og ég er algjör talsmaður þess að fólk skori sig á hólm og fari alla leið í hlutum, verðum við á sama tíma að átta okkur á að það þarf að taka eitt skref í einu til að komast á áfangastað. Ef það er allt of stór gjá á milli raunveruleikans og hugmyndarinnar um það hvernig við eigum að vera býr það til samviskubit, niðurrif og fleiri tilfinningar sem festa fólk og stoppa í raun aðgerðir þegar horft er til lengri tíma. Auðvitað get ég bara talað fyrir sjálfan mig, en ég hef í raun gjörbreytt fjölmörgum lykilþáttum í lífi mínu með því að breyta einum pínulitlum hlut í einu.“

Nú er mikið rætt um samfélagsmiðla. Telur þú að þeir hafi slæm áhrif á heilsu fólks?

„Sennilega leika samfélagsmiðlar þarna eitthvað hlutverk, þar sem við sjáum fyrir okkur ákveðinn glugga inn í líf fólks og höfum óljósa hugmynd um fullkomna einstaklinga og að við ættum að vera þannig.“

„Annað sem mér finnst vert að íhuga þegar kemur að heilsu er að gera greinarmun á hreyfingu og æfingu. Gífurlega stór hluti fólks er með samviskubit yfir því að æfa ekki nóg, en pælir lítið í að auka hreyfingu. Ef fólki finnst það ekki hreyfa sig nóg leitar hugurinn beint í að það þurfi að æfa eins og atvinnuíþróttamaður, sem yfirleitt er algjörlega óraunhæft. Persónulega hef ég aukið áherslu á hreyfingu og endurheimt í stað stanslausrar ákefðar á undanförnum misserum með þeim árangri að ég hef aldrei verið í betra formi. Með margra ára æfingu hef ég lært að hlusta á líkamann og vinna með honum.“

Hvernig æfir þú sjálfur? 

„Í meðalviku æfi ég til að mynda ef til vill þrisvar, en hreyfi mig kannski tuttugu sinnum. Hreyfing getur verið 5 mínútna líkamsæfing á stofugólfinu, stuttur labbitúr, teygjur, leikur með börnum, eða hvað sem er. Persónulega finn ég þörf til að komast inn í líkamann nokkrum sinnum á dag til þess að halda einbeitingu og finna almenna vellíðan. Það að hreyfa sig þarf ekki að þýða að setja púlsinn yfir 160 eða að æfa fyrir „ironman“, jafnfrábært og það getur verið. Líkaminn er gerður til að nota hann og meðalmanneskja á Íslandi getur að jafnaði hreyft sig miklu miklu meira. Ef fólk vill svo ná árangri í vöðvauppbyggingu eða þolþjálfun er hægt að gera það á mun styttri tíma en flestir átta sig á, með því að setja líkamann mjög markvisst í hámarksákefð í takmarkaðan tíma.“

Nú er nýtt ár gengið í garð. Hvert er þitt markmið fyrir 2020?

„Í bókinni minni er ég auðvitað að tala um gríðarlega mörg atriði, sem öll hafa gagnast mér, en eftir þessa fyrirlestrahrinu er ég að átta mig á ákveðnum aðalatriðum sem ég ætla að gera mitt besta til að miðla á þessu ári. Ástríðan er til staðar og á meðan fólk nennir að hlusta á mig og ég finn að ég er að gera gagn er ég með það einfalda markmið að ná til sem allra flestra og halda áfram að gera örlítið betur á hverjum einasta degi.“

mbl.is