Hélt að spegilmynd sín væri Paltrow í fitubúningi

Konan hélt í fyrstu að spegilmynd sín væri af Gwyneth …
Konan hélt í fyrstu að spegilmynd sín væri af Gwyneth Paltrow í gervi konu í yfirþyngd. Ljósmynd/20th Century Fox

Hin breska Tracy Mhamdi áttaði sig ekki á hversu þung hún var orðin fyrr en hún sá spegilmynd af sér í búðarglugga að því fram kemur á vef Daily Mail. Í fyrstu hélt Mhamdi að þetta væri mynd af leikkonunni Gwyneth Paltrow í fitubúningi í myndinni Shallow Hal. 

Hin 54 ára Mhamdi segist hafa borðað mikið af snakki og súkkulaði á daginn og borðað kaloríuríkar máltíðir á kvöldin. Hún segist hafa borðað allt að fjögur þúsund kaloríur á dag. Áður en hún vissi af var hún orðin 150 kíló. Hún áttaði sig ekki á hversu stór hún var orðin fyrr en hún sá spegilmynd sína á flugvelli. Mhamdi var á leiðinni í vikulangt frí til Marokkó. 

„Hver mætti með stelpuna úr Shallow Hal með sér í frí,“ segist Mhamdi hafa hugsað með sér áður en hún áttaði sig á því að þetta væri spegilmynd hennar. „Ég vissi að ég hefði þyngst en ég áttaði mig ekki á hversu mikið. Ég hélt virkilega að ég væri ekki svona stór.“

Mhamdi léttist um rúmlega 25 kíló fyrsta hálfa árið með því að drekka megrunardrykki í staðinn fyrir að borða óhollustuna sem hún borðaði áður. Í kjölfarið fór hún hjáveituaðgerð í júlí 2019. Nú hálfu ári seinna er hún 90 kíló og líður mun betur.  

mbl.is