Greta Salóme fékk alvarlega nýrnasýkingu

Greta Salóme hneig niður á Keflavíkurflugvelli.
Greta Salóme hneig niður á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Hanna

Tónlistarkonan Greta Salóme hneig niður á Keflavíkurflugvelli fyrir rúmlega viku. Við nánari skoðun kom í ljós að hún var með alvarlega sýkingu í nýrunum. 

Hún var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í kjölfarið og þaðan á bráðamóttökuna í Fossvogi. Greta opnar sig um veikindin í viðtali við Mannlíf

Þar segir hún að mikið hafi verið að gera hjá henni yfir jólahátíðirnar og upp úr áramótum hafi hún verið mjög slöpp. Hún hafi reynt að hrista þetta af sér en ekkert gengið. 

„Ég byrjaði að vera slöpp upp úr áramótum, ég var búin að vera að spila á fullu, á tónleikum á nýársdag og styrktartónleikum, og hélt að ég væri bara með flensu,“ segir Greta. 

„Ég átti að fljúga til Bandaríkjanna að spila á tónleikum hjá Norwegian Cruise Lines, og fer til læknis um morguninn 6. janúar. Þá var ég komin með 40 stiga hita, farin að sjá óskýrt og með einhvern skrýtinn bakverk, sem ég hef aldrei fengið áður. Mér leið bara alveg skelfilega.“

„Seinnipartinn næ ég að drösla mér á Keflavíkurflugvöll og í gegnum öryggisgæsluna, en átta mig svo á því að ég er ekki að ná að fara gangandi að brottfararhliðinu. Þannig að ég fer niður í farangursupplýsingarnar og ræði við starfsfólkið þar um að ég þurfi að fá töskuna úr vélinni. Síðan man ég bara ekkert meira,“ segir Greta Salóme.

„Þetta er ótrúlega ólíkt mér og ég hef aldrei misst heilsu og verið svona algjörlega bjargarlaus. Ég missti tilfinningu í höndum, fann ekki fyrir vörunum á mér og sá ekki skýrt. Ég datt bara út, komin með 41 stigs hita og þetta var bara alveg ömurlegt. Mæli ekki með.“

mbl.is