Hvers vegna fer tíðni krabbameins ört vaxandi?

„Gæti vöruval þitt í dag haft eitthvað að segja fyrir heilsu þína í framtíðinni? Stutta svarið við því er einfaldlega „já!“. Samband mataræðis og heilsu hefur margoft verið rannsakað. Þó að ákveðin tengsl séu umdeild, þá er það óumdeilanleg staðreynd, að ákveðið mataræði getur aukið hættuna á fjölda sjúkdóma, þar á meðal hjartasjúkdómum, krabbameini, sykursýki, og offitu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Una Emilsdóttir læknir í nýrri grein sem birtist í heilsublaði Nettó: 

Við höfum líklegast flest heyrt yfirlýsinguna „þú ert það sem þú borðar“, en hvað þýðir það í raun og veru? Jú, það er vissulega mikið til í þessu. Það er nefnilega hægt að sjá þetta fyrir sér þannig, að næringarefni úr fæðunni veiti líkamanum byggingarefni fyrir þær óteljandi frumur sem hann endurnýjar daglega. Ef byggingarefnið er lélegt er einfaldlega ekki hægt að búast við því að útkoman verði góð. Þá er ólíklegt að musteri sálarteturs okkar standi óhaggað í fjölda ára, vel í stakk búið til að standast veður og vind. 

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, að maður er ekki einungis það sem maður borðar og tekur upp í gegnum meltingarveginn, heldur líka það sem maður ber á sig og tekur upp í gegnum húðina, það sem maður andar að sér og tekur upp í gegnum öndunarfæri og slímhúð og svo framvegis. Þar fyrir utan eru það ekki einungis næringarefni sem við tökum upp úr fæðunni, heldur líka alls kyns aukefni eins og skordýraeitur, litarefni, ýruefni og fleira. Svo flækist málið enn frekar, því ekki nóg með að erfitt sé að vita hvaða matvara er raunverulega holl, heldur er snyrti- og hreinsiefnabransinn líka stöðugt að selja okkur hreinsi-, heilsu- og snyrtivörur sem eiga að bæta líðan okkar og útlit og þrífa heimilin okkar með ofurkrafti. Þær valda margar hverjar skaðlegum áhrifum á ákveðin kerfi líkamans, og í raun værum við mun betur sett án flestra þeirra. 

Þetta eru einungis örfá dæmi um vöruflokka sem geta innihaldið falin efni sem eru okkur skaðleg. Þau finnast hvarvetna í nútímasamfélagi og eflaust gera fæstir sér grein fyrir því hversu gríðarleg útbreiðsla þeirra er. Þau herja á okkur daglega og flestir eru algerlega ómeðvitaðir um hættuna sem af þeim getur stafað. Slíka þekkingu má rekja til umfangsmikilla rannsókna vísindamanna í hinum ýmsu fögum, svo sem læknisfræði, erfða-, lífefna- og faraldsfræði en umræðan nær því miður allt of sjaldan til almennings. Sjálf nálgast ég viðfangsefnið út frá læknisfræðinni og þá sérstaklega „umhverfislæknisfræði“, sem er fag sem ég kynntist í grunnnámi mínu í Kaupmannahafnarháskóla. Það fjallar í stuttu máli um sjúkdóma af völdum utanaðkomandi þátta í umhverfi okkar nútímafólks. Þó svo að allir sjúkdómar veki áhuga minn þykir mér krabbamein - og þá sérstaklega fyrirbygging þeirra - sérstaklega áhugaverð. 

Tíðni krabbameins og dánartíðni fer ört vaxandi um allan heim. Ástæðurnar eru flóknar en endurspegla bæði hækkandi meðalaldur og íbúafjölgun, sem og breytingar á algengi og dreifingu helstu áhættuþátta krabbameina, sem margir hverjir tengjast félagslegri efnahagsþróun og þar með lifnaðar- og umhverfisþáttum. Tóbaksreykingar eru til dæmis eitt þekktasta dæmið um umhverfisáhættuþátt en minna þekktir áhættuþættir og eituráhrif í nærumhverfi okkar eru viðfangsefni sem mér þykir skorta meiri og háværari umræðu um.

Og hvers vegna eru þessi eituráhrif frá umhverfi svona áhugaverð? Jú, vegna þess að rannsóknir síðustu ár bæta stöðugt í bunka sönnunargagna um að ytri þættir eigi verulegan þátt í þróun krabbameina og annarra sjúkdóma. Þar að auki hafa rannsóknir leitt í ljós að miklu máli skiptir hvað mæður setja ofan í sig og á, á meðan þær bera börn sín í móðurkviði, því það getur haft mikið að segja fyrir heilsu og þroska barna þeirra. Einnig hafa alþjóðlegar og faraldsfræðilegar rannsóknir hingað til gefið sterkar vísbendingar um að ákveðnar tegundir sjúkdóma megi rekja til þátta í umhverfinu vegna svæðistengdra breytileika í tíðni þeirra, þ.e.a.s. algengi sjúkdómanna er misjafnt eftir löndum/heimshlutum. Það er ekki síður athyglisvert, að innflytjendur frá löndum með lága tíðni krabbameina þróa með sér aukna áhættu sem er í samræmi við hið nýja umhverfi þeirra. 

Rannsóknirnar eru eins og eitt lítið púsl í heildarmyndinni, og heildarmyndin er að verða nokkuð skýr - við getum óneitanlega haft ómæld áhrif á heilsu okkar og líðan með því að velja vörur sem fara vel með frumur líkamans. 

Það er augljóslega ekki pláss fyrir upptalningu og umfjöllun allra skaðlegra efna og hvar þau leynast í þessari stuttu grein. Mitt markmið er þó að gera lesendum grein fyrir að ábyrgðin er að töluverðu leyti í þeirra höndum og það er ótalmargt sem hægt er að gera, til að minnka líkur þeirra á myndun langvinnra lífsstílssjúkdóma í framtíðinni. Það er auðvitað ýmislegt annað sem getur valdið röskun á jafnvægi líkamans. Meðfæddir gallar í erfðaefni geta til dæmis valdið arfgengum kvillum, en það eru skaðlegu umhverfisþættirnir sem við höfum hvað best tök á að stjórna. Stöðugt vaxandi vöruúrval gerir okkur þó erfitt fyrir að velja rétt í „frumskógi“ búða-rekkanna, en kemur á sama tíma með nýjar lausnir fyrir okkur sem erum óþreytandi í leit okkar að „betri kostinum“ þegar kemur að öllu vöruvali. Blessunarlega hefur þetta verið einfaldað töluvert fyrir okkur neytendur, þar sem við getum nú valið okkur vörur sem merktar eru með svokölluðum umhverfismerkjum sem fyrirtæki og vöruframleiðendur geta notað að uppfylltum skilyrðum. Eitt þessara merkja er Svansmerkið, gæðavottun sem var sett á fót fyrir rúmum 20 árum en að því standa helstu sérfræðingar Norðurlandanna á sviði umhverfismála. Það frábæra við merkið er að neytendur geta treyst því að í vörunum séu ekki ofnæmisvaldandi ilm- og rotvarnarefni, hormónaraskandi efni né míkróplast. Þar að auki uppfylla vörurnar kröfur um lágmarks umhverfisáhrif í framleiðsluferli þeirra. Með því að velja Svansmerkta vöru og þjónustu stuðlar þú að betra umhverfi og bættri heilsu. Einnig er gott að líta eftir vörum sem merktar eru Evrópublóminu, en í framleiðsluferli þeirra hefur skaðlegum umhverfisáhrifum verið haldið á lágmarki og Bláa kransinum, en hann er staðfesting á því að innihald vöru sé sérstaklega valið til að minnka hættu á ofnæmi hjá notendum.

Mér til mikillar ánægju hefur úrval metnaðarfullra framleiðenda sem kjósa að fá Svansmerkinguna og önnur umhverfismerki aukist töluvert hér á landi og blessunarlega hafa sumar matvörubúðir sett sér það markmið að veita okkur gott úrval þessara vara. Nettó er mjög framarlega á þessu sviði og þangað hvet ég neytendur til að fara og uppgötva það frábæra vöruúrval sem er í boði, fyrir bæði fullorðna, börn og heimilisdýr!

mbl.is