Instagram í 10 ár: Frá sjálfum yfir í rassamyndir

Hvernig líkama eigum við að hafa samkvæmt Instagram?
Hvernig líkama eigum við að hafa samkvæmt Instagram? Samsett mynd

Það eru tíu ár síðan Instagram var búið til. Á þessum tíu árum sem eru liðin síðan þessi sívinsæli samfélasmiðill fór í loftið hefur margt breyst. Við elskum að hata Instagram og við hötum að elska Instagram. 

Instagram hefur áhrif á daglegt líf notenda sinna, sama hvort við viðurkennum það eða ekki. Hver rannsóknin á fætur annarri hefur verið gerð um hvaða áhrif Instagram hefur á heilsu okkar, sjálfsmynd ungra stúlkna, ferðamannastaði og eiginlega allt í mannlegu samfélagi. 

Á þessum tíu árum höfum við án efa séð miklar breytingar á trendum. Það þarf engan sérfræðing til að átta sig á því hvað er vinsælast í tískuheiminum, það er auðvelt að koma auga á það í gegnum Instagram. Við keppumst sífellt við að vera meira ögrandi en á sama tíma erum við líka að keppast um að vera eins. Trendin leyna sér ekki. 

Instagram var ekki vinsælt til að byrja með og fræga fólkið notaði það ekki eins og það gerir í dag. Þetta var saklaust til að byrja með. Matarmyndir. Að taka mynd af því sem maður var að borða, í skelfilegum myndgæðum því snjallsímar voru ekki orðnir jafn þróaðir og þeir eru í dag og birta á samfélagsmiðlum.

Árið 2011 varð svo sjálfsmyndin vinsæl. Og sjálfsmyndin og matarmyndirnar lifa enn góðu lífi í dag. Þær eru þó ekki það heitasta. 

Árið 2012 mætti drottningin sjálf, Kim Kardashian, á Instagram og gerði allt vitlaust með rassamynd.

Kim Kardashian gerði rassinn frægan.
Kim Kardashian gerði rassinn frægan. Skjáskot/Instagram

Ári seinna varð svo gríðarlega vinsælt að birta mynd af sér þar sem það sást greinilega hversu mikið bil er á milli læranna. Fyrirsætur, leikkonur og aðrar frægar konur voru þar í fararbroddi. 

Bilið á milli læranna.
Bilið á milli læranna. Skjáskot/Instagram

Árið 2014 fór það svo að verða vinsælt að sýna hversu ótrúlega grannur þú ert og myllumerkið #skinnybitch, eða #grönntík varð vinsælt. Árið 2015 á Instagram fór líka í það að sýna, helst á sundfötum, hversu grannur þú ert.

Skjáskot/Instagram

Sama ár fór þó að bera á öðrum straumi, því að vilja frekar að vera sterk heldur en grönn. Myllumerkið #strongnotskinny eða #sterkekkigrönn byrjaði að verða vinsælt. 

Nú var í tísku að vera sterk en ekki grönn.
Nú var í tísku að vera sterk en ekki grönn. Skjáskot/Instagram

Árið eftir 2016 urðu magavöðvar það heitasta sem kona gat sýnt á samfélagsmiðlum og „magaskoran“ þótti það flottasta. Fyrirsætan Ashley Graham stóð þó upp fyrir stærri konur með myllumerkinu #curvybutfit.

Magaskoran.
Magaskoran. Skjáskot/Instagram

Rifbeinin komu svo í tísku árið 2017 og kepptust þá allar helstu skvísur þessa heims um að setja inn flotta mynd af sér á sundfötum þar sem rifbeinin sáust vel. 

Rifbeinamynd Bellu Hadid olli fjaðrafoki.
Rifbeinamynd Bellu Hadid olli fjaðrafoki. Skjáskot/Instagram

Bilið á milli læranna kom svo aftur 2018, nú með nýju nafni, #tobleronetunnel, eða #tobleronegöngin sem vísar til þess að bilið efst á milli læranna vill oft vera þríhyrnt, þannig að auðvelt væri að stinga Toblerone þar í gegn. 

Síðasta ár hefur svo farið í mjaðmir og línur. Nánar tiltekið mjaðmir og línur og eins og þær systur Kim Kardashian West og Kylie Jenner skarta til dæmis. Nýja líkamsgerðin sem konur á öllum aldri þrá er að vera „slim thick“ eða grannur, en samt með línur. Fallega feitur eins og einhver orðaði það. 

Það er mikið puð að ná því að vera fallega feitur því ef þú hefur ekki aðgang að bestu lýtalæknum og líkamsmeðferðum í heimi þá þarftu að eyða miklum tíma í hnébeygjum og réttstöðulyftu. 

mbl.is