Magahjáveituaðgerð leysti ekki vandann

Hólmfríði Helgu Björnsdóttur leið eins og hún gæti allt þegar …
Hólmfríði Helgu Björnsdóttur leið eins og hún gæti allt þegar hún kom úr magahjáveituaðgerð. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hólmfríður Helga Björnsdóttir er gift tveggja barna móðir á Akureyri. Árið 2010 fór Hólmfríður í magahjáveituaðgerð á Landspítalanum eftir áralanga baráttu við ofþyngd. Hólmfríður var þó engan veginn tilbúin andlega undir breytingarnar. Ímyndað sjálfstraust sem fylgdi því að komast í kjörþyngd endaði með því að Hólmfríður fékk taugaáfall og reyndi að taka sitt eigið líf.

„Ég fer í magahjáveituaðgerð 2010. Ég kemst þá loksins í þessa svokölluðu kjörþyngd. Allt í einu var farið að taka eftir manni. Maður fór svolítið fram úr sjálfum sér,“ segir Hólmfríður og segir að eftirfylgni eftir aðgerðina hefði mátt vera meiri og þá sérstaklega í sambandi við andlegu hliðina. 

Vann mikið og djammaði mikið

Hólmfríður segist hafa haldið að hún væri ánægð þegar hún komst loksins í kjörþyngd. Hún lýsir því þannig að hún hafi fengið ímyndað sjálfstraust. Hún hafi talið sér trú um að henni væru allir vegir færir og hún gæti gert allt.

„Mér leið eins og ég gæti gert allt. Ég fór í það að vinna eins og vitleysingur. Ég var að vinna upp í 16 tíma á sólarhring og þess á milli djammaði ég. Ég var bara á einhverju trippi. Sem betur fer stóð maðurinn minn við bakið á mér í gegnum allt saman.“

Var fólk í kringum þig með áhyggjur?

„Fólkið í kringum mig var með miklar áhyggjur. Foreldrar og systkini voru með miklar áhyggjur og maðurinn minn,“ segir Hólmfríður. Stöfuðu áhyggjurnar bæði af breytingum á persónuleika Hólmfríðar og hvernig hún fór með sig.

Lenti á botninum

Hólmfríður lenti á botninum nokkrum árum eftir aðgerðina og var það á árunum 2016 og 2017 sem hún áttaði sig á að hún væri ekki á góðum stað andlega.  

„Ég átta mig ekki á því fyrr en ég hryn andlega. Það endar þannig að ég fæ hreinlega taugaáfall og reyni að taka mitt eigið líf,“ segir Hólmfríður.

Þegar Hólmfríður fór að vinna í sjálfri sér áttaði hún sig á því að þrátt fyrir að aðgerðin hefði lagað líkamlegan vanda hennar lagaðist andlegi þátturinn ekki. 

Hólmfríður segir að hún hafi glímt við ömurlegt sjálfstraust auk þess sem hún átti erfitt með að segja nei. Hún segir sjálfstraustið hafa verið í molum síðan hún var stelpa en þá varð hún fyrir miklu einelti vegna þess hversu þung hún var. 

Hólmfríður Helga leggur áherslu á að vinna í andlega þættinum.
Hólmfríður Helga leggur áherslu á að vinna í andlega þættinum. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hefur þyngst en líður betur

Í dag hefur Hólmfríður þyngst aftur og er 30 kílóum frá því sem hún var þegar hún var hve þyngst. Hún segir lítið mál að stækka magann aftur eftir magahjáveituaðgerð. Þrátt fyrir þyngdaraukninguna segir hún að sér hafi sennilega aldrei liðið betur andlega. Hólmfríður segir að hún sé aðallega að vinna í andlegu hliðinni en fljótlega þurfi hún að fara að hugsa um líkamann. Hún ætlar ekki að fara í aðgerð aftur. 

Hólmfríður hefði viljað fá meiri stuðning eftir aðgerðina. Hún segist hafa fengið takmarkaðar leiðbeiningar um það hvernig hún ætti að takast á við lífið eftir aðgerðina. Oft glímir fólk við flóknari vanda en að eiga bara erfitt með að grennast. 

„Það var voða lítið farið út í matarfíkn. Oft þegar ein fíkn hverfur þá tekur önnur við ef maður er fíknisjúklingur. Ég lagðist mikið í áfengi. Það er víst mjög algengt í þessu. Ég veit um fólk sem hefur verið í svipaðri stöðu. Hefur farið í þessa aðgerð og þegar matarfíknin er tekin út þá í mörgum tilvikum tekur við áfengisfíkn. Ég veit um tilfelli þar sem kona á svipuðum aldri og ég fór í svona pakka. Hún fór að djamma og svona. Ég ætla alls ekki að hallmæla aðgerðinni sem slíkri en umhverfið í kringum hana þyrfti að vera betra, eftirfylgni og svona.“

„Þó að líkaminn breytist þá breytist persónuleikinn ekkert og á ekkert að breytast. Maður á bara vera maður sjálfur áfram,“ segir Hólmfríður að lokum. 

mbl.is