Skipti yfir í sykurlaust gos og léttist um 40 kíló

Shannon Palmer skipti yfir í sykurlaust gos og léttist mikið.
Shannon Palmer skipti yfir í sykurlaust gos og léttist mikið. Skjáskot/Instagram

Þegar Shannon Palmer var sem þyngst drakk hún 10 dósir af skoska gosinu Irn-Bru á dag. Þegar hún ákvað að skipta yfir í sykurlausu útgáfuna af gosinu missti hún 32 kíló á aðeins einu ári. Síðan þá hefur hún misst 8 kíló til viðbótar.

Líf Palmer hrundi í mars árið 2017 þegar heimili hennar og foreldra hennar brann til grunna. Daginn eftir missti hún svo vinnuna. Hún sökk niður í djúpt þunglyndi og til þess að takast á við allar þessar breytingar þambaði hún Irn-Bru. 

Hún þyngdist hratt og á nokkrum mánuðum fór hún úr fatastærð 12 upp í 24. Eftir sólarlandaferð í september 2018 ákvað hún að snúa blaðinu við. 

Hún hreyfir sig ekki mikið en lifir heilbrigðum lífsstíl.
Hún hreyfir sig ekki mikið en lifir heilbrigðum lífsstíl. Skjáskot/Instagram

„Öll æska mín hvarf í brunanum. Ég átti ekkert eftir það. Mamma mín lést næstum því í eldinum og ég missti vinnuna daginn eftir, eftir að hafa unnið þar í fjögur ár. Ég var lögð í einelti í skóla svo ég notaði mat sem flóttaleið. Matur var mín huggun. Ég hef alltaf elskað gos og ég er háð Irn-Bru, það er bara svo sætt. Sumt fólk notar eiturlyf, áfengi eða fjárhættuspil, ég nota mat,“ segir Palmer. 

Eftir sólarlandaferðina í september 2018 leið henni illa og langaði aldrei aftur að klæðast sundfötum. Í stað þess að grafa sig niður í enn dýpra þunglyndi ákvað hún að gera eitthvað í málunum. 

Hún skráði sig í Slimming World, félagsskap fyrir fólk sem vill grennast, og náði ótrúlegum árangri. „Ég hefði ekki getað haldið mig við mataræðið ef ég hefði hætt að dekka Irn-Bru alfarið og þess vegna hefur það hjálpað mér svo mikið að drekka sykurlausu útgáfuna,“ segir Palmer. 

Palmer segist ekki fara mikið í ræktina og hreyfir sig ekki mikið heldur einblínir hún frekar á mataræðið. 

Skjáskot/Instagram
mbl.is