Síðustu aukakílóin fóru á lágkolvetnafæði

Jane Lynch tók mataræðið í gegn.
Jane Lynch tók mataræðið í gegn. AFP

Ólíkt mörgum Hollywood-stjörnum er leikkonan Jane Lynch ekki spennt fyrir því að mæta í ræktina. Hún léttist um aukakílóin sín þegar hún byrjaði á lágkolvetnafæði að því er fram kemur á vef Prevention. Prófaði Lynch bæði ketó og Atkins. 

„Mér finnst gaman að ganga en ég geri það ekki oft,“ segir Lynch í viðtalinu. „Ég ætti líka að byrja að lyfta. Ég hef reynt að gera það í sex ár.“

Lynch er grönn frá náttúrunnar hendi en byrjaði þó að borða hollara nýlega. Hollara mataræði gerði það að verkum að hún léttist um fimm kíló. Hún fór á Atkins-mataræðið. Áður hafði hún prófað ketó-mataræðið en entist ekki lengi á því. 

Leikkonan þurfti að gera nokkrar breytingar á mataræðinu sínu. Gat hún til að mynda ekki borðað steikur á hverjum degi þar sem kólesterólið í líkama hennar rauk upp úr öllu valdi. Hún skipti yfir í lax og segist hún nú vera komin með mikið æði fyrir laxi. Lynch segist einnig borða mikið af osti. Hún borðar til dæmis ostsneið í millimál eða parmesan-ostasnakk.

Jane Lynch.
Jane Lynch. AFP
mbl.is