Ekki jafn hollt og maður heldur að drekka „smoothie“

Guðmundur Freyr Jóhannsson segir að eiginleika ávaxta eigi til að …
Guðmundur Freyr Jóhannsson segir að eiginleika ávaxta eigi til að tapast þegar þeir eru settir í blandara. Ljósmynd/Unsplash

Ávaxtabúst eða „smoothie“ eru ekki jafn holl og margir halda þar sem blóðsykur og hormónaáhrif verða mun hraðari og ýktari þegar trefjarnar eru fjarlægðar og sykurinn „frelsaður,“ segir Guðmundur Freyr Jóhannsson, lyf- og bráðalæknir. Í hans fyrsta pistli í samvinnu við verslunina Nettó talar hann um upptöku trefja, vítamína og annarra steinefna og hvernig þau geta breyst eftir því hvernig ávöxturinn er innbyrtur. 

Guðmundur Freyr Jóhannsson, lyf- og bráðalæknir.
Guðmundur Freyr Jóhannsson, lyf- og bráðalæknir.

Rannsóknir sýna að blóðsykur- og hormónaáhrifin verða mun hraðari og ýktari þegar trefjarnar eru eyðilagðar eða fjarlægðar og sykurinn frelsaður“,“ segir Guðmundur og bætir við: 

„Ég er mjög spenntur að geta komið að jafn metnaðarfullu verkefni og „Hollheilsuráð“ Nettó er. Það eru ýmsar mýtur þarna úti sem geta haft neikvæð áhrif og því mikilvægt að miðla réttum upplýsingum sem eiga rætur sínar að rekja til vísindasamfélagsins. Það er hægt að vinna gegn lífsstílstengdum sjúkdómum með réttu mataræði og hreyfingu og ég trúi að við getum bætt líðan margra bara með því að fræða þá um rétt mataræði og lífsstíl,“ segir Guðmundur.

Guðmundur lauk embættispróf í læknisfræði frá HÍ 2005, hlaut sérfræðiviðurkenningu í almennum lyflækningum 2012 og í bráðalækningum 2013. Guðmundur hefur einnig sérhæft sig í og haldið ráðstefnur um vandamál sem snúa að lífsstíl, efnaskiptum og ofþyngd ásamt því að aðstoða þá sjúklinga sem glíma við lífsstílstengd vandamál.

Guðmundur brann sjálfur út í starfi og ákvað að taka sér ársleyfi frá störfum sínum á bráðamóttökunni. Eftir að hafa safnað kröftum sneri hann aftur til starfa. Hann hefur síðan talað opinberlega um sína reynslu og mikilvægi þess að huga að réttum lífsstíl og umhverfi til að vinna gegn streitu, óþarfa álagi, svefnleysi, kvíða og almennri depurð. Guðmundur mun miðla þekkingu sinni og reynslu með mánaðarlegum pistlum um hin ýmsu mál tengd lýðheilsu, heilbrigðum lífsstíl ásamt fleiri áhugaverðum viðfangsefnum.

Við gefum Guðmundi orðið í hans nýjasta pistli:  

Orðið ávöxtur þýðir, eins og orðið hljóðar, það sem vex á einhverju” en í daglegu tali erum við að meina litríku, ilmandi og safaríku ávextina í kjörbúðunum. Í raun eru ávextir sá hluti af plöntum sem umlykur fræ þeirra og er tilgangur þeirra yfirleitt að fá dýr til að borða þá og dreifa fræjum þannig áfram með áburði.

Ávextir koma af ýmsum stærðum og gerðum og má gróflega skipta upp í tvo flokka: holdávexti og þurrávexti. Þegar við heyrum orðið ávöxtur þá er yfirleitt verið að tala um holdávöxt, s.s. appelsínu, peru, eða epli en fáir kannski tengja orðið við hnetur, kornvörur og belgjurtir, en þetta eru allt dæmi um þurrávexti.

Hollusta ávaxtanna er einkum fólgin í þeim vítamínum, steinefnum og trefjum sem þeir innihalda en orkan sem við fáum úr þeim er í formi ávaxtasykurs og sterkju sem líkaminn breytir fremur auðveldlega í blóðsykur (undantekningar frá því eru t.d. ólífur og avókadó sem eru dæmi um fituríka og kolvetnasnauða ávexti).

Almennt séð eru fjölmörg næringarefni í ávöxtunum sem mannslíkaminn nýtir til að vaxa og viðhalda sér en næringar- og orkuinnihald ávaxta er eins misjafnt og þeir eru margir.

Sumir ávextir eru hlutfallslega orku- og sykurríkir eins og t.d. flestir þurrkaðir ávextir, bananar og vínber. Aðrir eru orku- og sykursnauðir en engu að síður ríkir af vítamínum og steinefnum, eins og t.d. jarðarber, hindber og brómber.

Þegar kemur að neyslu ávaxta stendur gamla góða reglan um fjölbreytni enn þá fyrir sínu en það er þó gott að hafa nokkur atriði í huga.

Hvaða mataræði hentar hverjum og einum er mjög einstaklingsbundið og háð mörgum þáttum eins og aldri, kyni og hversu mikla hreyfingu við stundum. Þannig myndi t.d. ungur, fullfrískur einstaklingur sem er í mikilli hreyfingu stundum grípa í kolvetnaríkan ávöxt sem nýtist við erfiðar æfingar eða keppni á meðan sá sem glímir við erfiðleika með blóðsykurstjórn myndi velja sér sykursnauðari eða fituríka ávexti til að ná í öll góðu næringarefnin án þess að koma ólagi á blóðsykurinn.

Eins skiptir form ávaxtanna töluverðu máli, þ.e. að við að jafnaði borðum heila ávexti en gerum minna af því að mauka þá niður í búst/smoothies eða drekka bara ávaxtasafann.
Í heilum ávöxtum er mikið af sykrinum bundinn í trefjar sem hindra og hægja á frásoginu á honum. Sýna rannsóknir að blóðsykur- og hormónaáhrifin verða mun hraðari og ýktari þegar trefjarnar eru eyðilagðar eða fjarlægðar og sykurinn „frelsaður“.

Þá sýnir sig einnig að við finnum minna fyrir seddu þegar við borðum ávexti á þennan hátt sem aftur getur aukið líkur á því að við innbyrðum óþarflega mikla orku.

mbl.is