51 árs og í besta formi lífs síns

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég var ófrísk að mínu fyrsta barni þá þyngdist ég um 25 kíló. Fór úr 60 kg í 85 kg á níu mánuðum. Það er frekar mikið þó að ég segi sjálf frá. Það tók mig 2 ár að komast næstum því niður í sömu þyngd, þ.e. að komast í „sextíu og eitthvað kíló. Þegar Axel Valur sonur minn var 2ja ára hóf ég nám í kerfisfræði við HR. Þetta var ansi krefjandi nám, marga daga og kvöld,“ Ásdís Ósk Valsdóttir í sínum nýjasta pistli:

Þar sem ég var gífurlega upptekin hafði ég lítinn tíma til að taka með mér hollt og gott nesti. Fannst það óþarflega mikil fyrirhöfn og vesen. Kringlan og Stjörnutorgið voru þarna við hliðina og miklu fljótlegra að skjótast yfir og fá sér eitthvert snarl þar. Þetta var sem sagt áður en HR flutti í Nauthólsvíkina, annars hefði ég nú líklega verið fljót að komast í kjörþyngd ef ég hefði hlaupið úr Nauthólsvík í Kringluna til að fá mér snarl. Ég var líka sannfærð um að ég gæti borðað allt sem ég vildi alveg eins og ég gerði þegar ég var unglingur. Þessi þyngdaraukning í kringum meðgönguna hefði verið smá óheppni. Um vorið var ég farin að nálgast sjötíu kílóin ansi hratt. Ég ákvað því að nota sumarið til að ná þeim af mér.

Að æfa tvisvar á dag og þyngjast!!!

Ég fékk mér einkaþjálfara og æfði einu sinni til tvisvar á dag og í minningunni borðaði ég túnfisk og skyr allt sumarið. Það gerðist samt ekkert, eða jú ég náði að komast vel yfir sjötíu kíló það sumarið og hef haldið mig þar og gott betur síðan 1999 eða í tuttugu og eitt ár.  Ég ræddi þetta oft við einkaþjálfarann. Ég sagðist ekki skilja þetta, hvað væri eiginlega í gangi? Hvers vegna ég væri að þyngjast? Ég fékk þessa týpísku ræðu, „vöðvar eru þyngri en fita, þetta er bara tímabil, þetta kemur örugglega“. Svo kom haustið og ég fór aftur í sömu rútínu í HR og vigtin hélt áfram að stíga upp á við. Mörgum árum seinna var ég hjá öðrum einkaþjálfara og hann sagði, „það er eitthvað skrýtið hvað þú ert alltaf þanin. Þú ert örugglega með mjólkuróþol. Þú ættir að láta skoða þetta“. Ég pantaði mér tíma í mælingu og það kom í ljós að ég var ekki bara með mjólkuróþol, ég var með ger-, sveppa- og mjólkuróþol. Svo allskonar undiróþol, eiginlega allt sem mér fannst gott var á bannlistanum. Ég horfði á listann yfir allt sem ég mátti ekki borða. Hann var svona 4 sinnum lengri en listinn yfir það sem ég mátti borða.

Ásdís fær sér lítinn bragðaref á tyllidögum.
Ásdís fær sér lítinn bragðaref á tyllidögum. Ljósmynd/Aðsend

Ég tók kalt mat á ástandið. Fyrr frysi í helvíti en ég myndi taka út allt sem mér fyndist gott. Ákvað að fara milliveginn og hætta að borða sveppi. Mér fannst þeir hvort sem er ekkert góðir. Ég minnkaði einnig neyslu á mjólkurvörum töluvert og fann mun á mér. Nokkrum árum seinna fór ég aftur í mælingu, þá kom ég mun betur út og ýmislegt sem var á bannlistanum var orðið leyfilegt. Gamla ég gerði nú samt það sem hún vildi. Æi, mér fannst lífið bara of stutt til að neita mér um nokkurn skapaðan hlut. Tók fórnarlambið á þetta. Fannst ósanngjarnt að ég mætti ekki borða allt sem ég vildi og í hvert skipti sem ég horfði á súkkulaði þyngdist ég, þannig að til hvers að vera að þessu. Ég var ekkert að tengja við að mögulega væri einhver tenging á milli þess að ég fór og gekk 2 km og verðlaunaði mig með bragðaref eða synti 500 metra bringusund og fékk mér svo ís eftir sund. Ég var gífurlegt fórnarlamb og fannst þetta glatað.

Ég finn samt alltaf þegar ég tek út hveiti, sykur og mjólkurvörur að mér líður miklu betur. Þegar ég byrjaði nýtt líf í ágúst 2017 þá tók ég þetta út í nokkra mánuði. Svo setti ég inn smátt og smátt það sem mig langaði í. Markmiðið var aldrei að taka út súkkulaði út ævina, sumt gerir kona einfaldlega ekki. Okkar á milli er ég nammigrís, ég elska súkkulaði.

Heilsuáskorun Lindu P reddar aðventunni

Í maí 2019 var ég komin á góðan stað. Ég var búin að æfa mikið allt árið og borðaði það sem mér datt í hug, leyfði mér alveg að sukka annað slagið. Þegar ég datt í byrjun júní og lenti í gifsinu, hélt ég áfram að borða eins og ég væri ennþá að æfa. Það var víst ekki svo sniðugt. Ég þyngdist aðeins um sumarið og þó að ég byrjaði að æfa aftur af krafti um haustið þá voru þessi aukakíló orðin ansi heimakær. Til að bæta gráu ofan á svart þá buðu þau nokkrum vinum í heimsókn. Í lok ársins stóð ég frammi fyrir tveimur kostum. Það var nákvæmlega jafnt stutt í 80 kg og 70 kg.

Annaðhvort myndi ég stoppa þetta eða ég myndi sigla hægt og rólega í átt að hundrað kílóum eina ferðina enn. Ég ákvað að taka sykurlausa aðventu. Það virkar best á mig að taka algjöra pásu frá einhverju frekar en að leyfa mér alltaf smá. Ég fann prógramm frá Lindu P sem heitir heilsuáskorun. Það er algjör snilld. Þú skiptir út einni máltíð fyrir einn heilsudrykk. Þessi blanda gerði það að verkum að ég léttist á aðventunni. Það hjálpaði síðan örugglega einnig til að við Brynjar fórum til Heidelberg í aðventuferð um miðjan desember. Þar lagðist ég allhressilega í rúmið og ykkur að segja, þá man ég ekki eftir því að hafa orðið svona veik síðan ég fékk matareitrun í Hondúras 1992. Brynjar reyndist sem betur fer frábær hjúkka. Fátt sem toppar fyrstu utanlandsferðina annað en að hjúkra kærustunni.

Ásdís hefur náð góðum árangri.
Ásdís hefur náð góðum árangri. Ljósmynd/Aðsend

2 aukakíló hægja á þér um mínútu í 10 km hlaupi

Ég var að ræða við sjúkraþjálfarann minn um eitt og annað. Hann sagði mér að hver 2 aukakíló myndu hægja á mér um 1 mínútu í 10 km hlaupi. Það væri síðan ákveðin veldisvöxtur þegar þú hlypir lengra. Þetta voru ekki góðar fréttir. Ég er að fara í hálfan járnkarl í september. Það er 21 km hlaup. Hvað ef ég næ ekki að klára hann af því að ég er að burðast með þessi aukakíló? Það var því ekkert í stöðunni, það yrði að segja þeim upp húsaleigunni. Ég ræddi við Sigga þjálfara. Hann ráðlagði mér að borða meira af eggjum og avokadói og æfa á minna álagi tímabundið. Það var lítið mál að fara aftur í egg og avokadó. Það var morgunmaturinn sem ég borðaði alla daga þegar ég var að létta mig í fyrra skiptið. Ég hætti að borða það því mér fannst það taka svo langan tíma að græja þetta. Það er samt pínu kaldhæðnislegt að nenna ekki að gera morgunmatinn sem gæti skilað þér betri árangri. Það verður að játast að mér fannst æðislegt að fara aftur í þennan morgunmat. Ég ákvað að borða samviskusamlega 6 daga vikunnar og leyfa mér svo allt á laugardögum. Fyrstu vikuna gekk allt ágætlega. Ég léttist og nammidagurinn var hóflegur. Næstu viku greip mig alveg svakaleg löngun í bragðaref. Ég ákvað að það væri tilvalið að leyfa mér það. Það er hægt að kaupa smábarnabragðaref sem virkar mjög hóflegur við hliðina á hinum bragðarefunum. Ég fæ mér alltaf með kókósbollu, mars og jarðarberjum. Þetta skiptið fannst mér hann ekki alveg eins góður og mig minnti. Mér fannst nú samt best að klára hann, það er jú verið að hamra á að minnka matarsóun. Daginn eftir mundi ég hvers vegna ég er hætt að borða bragðaref. Ég vaknaði þrútin, liðirnir stífir, ég var með hálsbólgu og blessuð vigtin steig upp um 1.200 grömm á milli daga. Ég tók því þá ákvörðun að ástarsambandi okkar væri lokið. Það er ekki þess virði að fá bakslag um nokkrar vikur. Það verður að horfa á staðreyndir. Bragðarefur er mitt kryptonite og meira að segja Superman getur ekki leyft sér allt. Ég ræddi þetta við Hildu vinkonu. Hún sagði: „Þetta er orðrétt það sem þú sagðir þegar þú fékkst þér bragðaref á leiðinni á Fljótamótið í fyrra. Þá sagðir þú, ég ætla aldrei aftur að borða bragðaref.“ Það rifjaðist upp fyrir mér að ég var búin að fá mér þrisvar sinnum bragðaref á einu ári og alltaf sama líðanin daginn eftir. Allt er þegar þrennt er og tel ég því fullreynt að ég og bragðarefur eigum ekki samleið. Gamla ég gat alveg tekið stóran bragðaref, jafnvel í eftirrétt eftir pitsu og fengið sér svo smá nammi í eftirrétt. Ég meina, það má nú alveg leyfa sér smá ekki satt. Ég vaknaði hvort sem er alltaf með þrútna og stífa liði alla morgna og því erfitt að tengja þessa líðan við eitthvert ákveðið mataræði. Mitt mataræði var einfaldlega þannig að ég átti mjög auðvelt að viðhalda þessari líðan. Frelsið að vakna flesta morgna óþrútin og óstíf er ólýsanleg. Að hafa orku til að fara á æfingu kl. 05.40 eru forréttindi og ég veit það. Það eina sem ég þurfti að gera var að hætta að vera fórnarlamb eigin hugsana og ákvarðana.

Kál er ekki morgunmatur

Fyrir mörgum árum þegar ég var einu sinni sem oftar að reyna að létta mig sá ég prógramm þar sem mælt var með að borða egg og salat á morgnana. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Kál er ekki morgunmatur. Það borðar engin heilvita manneskja kál í morgunmat, meira endemis ruglið.  Svo vældi ég heilmikið yfir ósanngirni alheimsins að ég gæti ekki borðað allt sem ég vildi, sleppt því að hreyfa mig og verið í kjörþyngd. Ég mætti nú ekki einu sinni horfa á súkkulaði þá þyngdist ég. Sannleikurinn var hins vegar sá að ég horfði aldrei á súkkulaði, eða sko ég horfði bara nógu lengi til að opna pakkann og gúffa því svo í mig. Ég áttaði mig á geðveikinni um daginn þegar ég var að versla á laugardegi og ég var búin að ákveða að fá mér smá nammi. Rakst á Freyjumix, ég elska Freyjumöndlur og Freyjukúlur. Freyjumix er æðislegt. Ég greip pokann og skoðaði kaloríurnar. Í pokanum voru rúmlega 1.600 kaloríur. Gömlu mér hefði nú ekki fundist neitt mál að stúta einum svona poka, drekka slatta af kóki með og svo auðvitað smá snakki með ídýfu. Það má nú alveg leyfa sér smá ekki satt. Í staðinn stal ég lúku af hrískúlum frá Brynjari.

Í fyrra var ég að hlaupa með hóp þegar einn …
Í fyrra var ég að hlaupa með hóp þegar einn í hópnum sagði, „þú ert náttúrulega hönnuð í hlaup. Þú ert með þetta DNA. Þess vegna er þetta svo auðvelt fyrir þig“. Ljósmynd/Aðsend

Þú ert hönnuð í hlaup

Í fyrra var ég að hlaupa með hóp þegar einn í hópnum sagði: „Þú ert náttúrulega hönnuð í hlaup. Þú ert með þetta DNA. Þess vegna er þetta svo auðvelt fyrir þig.“ Ég vissi ekki alveg hvað manneskjan var að fara. Ég er ekki hönnuð fyrir hlaup, ég hef hlaupið í 12 mánuði. Fyrir 13 mánuðum hataði ég hlaup. Svo kom skýringin. Ég á frænku sem getur ekki létt sig. Það er bara í hennar genum að hún getur það ekki, svo ólíkt þér. „Akkúrat,“ sagði ég, „þetta er það sama og ég sagði í tuttugu ár. Ég sagði alltaf, það er í genunum á mér að ég get ekki létt mig. Ég er bara svona hönnuð“. Svo skautaði ég alveg fram hjá þeirri staðreynd að langflestir í minni fjölskyldu eru í kjörþyngd, fannst það vera algjört aukaatriði. Þú finnur alltaf réttlætinguna fyrir því sem þú vilt. Ef þú vilt réttlæta hvers vegna þú getur ekki eitthvað þá finnur þú leiðina.

Margir skilja ekki alveg hvers vegna ég tók ákvörðun um að létta mig um 8 kg. Ég væri mjög fín eins og ég væri. Ásdís mín, þú verður nú að passa þig að missa þig ekki í einhverja vitleysu.

Þetta er mjög einfalt. Ég er búin að skrá mig í hálfan járnkarl í september 2020. Mitt markmið fyrir hann er mjög einfalt, ég ætla að komast í mark undir tímamörkum. Hvað ef þessi 8 kíló sem eru svo heimakær að það hálfa væri nóg koma í veg fyrir það. Það væri eiginlega frekar glatað svo ekki sé meira sagt.

Ég ákvað því að breyta um hugsunarhátt. Í staðinn fyrir að horfa á mataræði sem eyland þá er það núna hluti af æfingaplaninu mínu. Það er bensínið sem kemur mér í gegnum æfingar og byggir mig upp til að ná markmiðum mínum.

Þegar ég hugsa það þá er eiginlega alveg galið að vakna 4 sinnum í viku kl. 05.00 til að mæta á æfingar. Taka einhverjar æfingar seinni partinn og svo þrjár um helgar og borða svo eitthvert ruslfæði yfir daginn.

Þetta er ekki ósvipað og kaupa sér Ferrari og dæla á hann skipaolíu. Hvers vegna er það að við förum með bílana okkar í þjónustuskoðanir einu sinni á ári en við hugsum oft minna um eigin líkama?

Því meira sem ég hugsa um hvað ég borða því auðveldara á ég með að ná tökum á öllu. Ég er hætt að vera í fórnarlambsgírnum og væla yfir því að ég megi ekki borða súkkulaði daglega án þess að fitna. Það er einfaldlega staðreynd og þetta er ekkert persónulega tengt mér, held að flestir séu að glíma við þetta.

Ég er gífurlega heppin. Ég fór í gegnum 20 ár af röngu mataræði og hreyfingarleysi og ég skemmdi ekkert. Ég er með alheilbrigðan líkama sem gerir mér kleift að hreyfa mig eins og ég vil. Ég er 51 árs og ekki með neina lífsstílstengda sjúkdóma. Það eina sem ég þarf að gera er að borða rétt 90% af tímanum. Ég hef líka náð tökum á sykurfíkninni. Ég nýt þess að leyfa mér ekki alltaf allt. Ég veit að það er gjald sem þarf að greiða í hvert einasta skipti.

Það er alltaf gjald sem þarf að greiða. Annaðhvort núna með aga, mataræði og hreyfingu eða seinna með lífsstílstengdum sjúkdómum og pilluboxum. Ég kýs að greiða gjaldið núna.

Er salat morgunmatur?
Er salat morgunmatur? Ljósmynd/Aðsend

Þú ert auðvitað orðin 51 árs og það hægir á brennslunni

Í fyrra varð ég fimmtug og í ár 51 árs, furðulegt alveg hvernig það gerist á einni nóttu eiginlega. Ég er í besta formi lífs míns og á hverjum degi þegar ég vakna veit ég að ég er í besta formi lífs míns. Það er góð tilfinning. Ég þarf hins vegar að hafa mun meira fyrir því að létta mig og borða rétt heldur en 17 ára sonur minn. Hann er einfaldlega yngri og með aðra brennslu en ég. Mörgum finnst að ég ætti að sætta mig við staðreyndir. Ásdís, það hægir á grunnbrennslunni þegar þú eldist. Það er eðlilegt að bæta aðeins á sig þegar fólk eldist. Ásdís, bla bla bla. Ég kýs að hlusta ekki á þessar ráðleggingar. Það er svo skrýtið að þegar kemur að hreyfingu og mataræði þá eru ótrúlega margir tilbúnir að ráðleggja mér að sætta mig við hlutina eins og þeir eru. Ef ég væri lesblind og vildi verða skurðlæknir þá myndu fáir segja, veistu þú ættir ekkert að vera að hugsa um það. Þú ert lesblind og þetta er bara of erfitt fyrir þig. Ég hugsa að ég fengi frekar að heyra, þú veist að þú þarft að leggja meira á þig heldur en þeir sem eiga auðvelt með nám af því að þú ert lesblind og svo fengi ég þá aðstoð sem ég þyrfti. Ég á sem betur fer mjög auðvelt með nám, minn akkelsarhæll er að ég á erfiðara með að létta mig en margir. Ég er hins vegar sannfærð um að þetta kemur allt með kalda vatninu og svo hellings aga, hreyfingu og viðhorfi. Ég er ekki 51 árs kona sem horfi á það sem náttúrulögmál að ég þyngist af því bara. Ég er 51 árs kona sem ætla að klára hálfan járnkarl við mestu mögulegu líkamlegu aðstæður.

2 mánuðir að komast undir 80 kg

Ég elska Facebook-minningar, þær halda mér á tánum. Það er svo auðvelt að gleyma hvernig hlutirnir voru. Svo kemur mynd þar sem ég er tæp 100 kíló og ég man hver ég var og hver ég ætla aldrei aftur að verða. Um daginn kom 2ja ára minning á Facebook. Mynd af mér á vigt sem sýndi 79,8 kg. Textinn sagði að ég hefði verið 2 mánuði að komast undir 80 kg, þ.e. að sveiflast frá 81-79.8, 2 mánuði. 2 árum seinna hvarflar ekki að mér að fara upp í þessa þyngd aftur. Þarna var ég hins vegar himinlifandi að komast undir 80 kg. Ég man ennþá þessa tilfinningu í hvert skipti sem ég náði svona markmiði. Ég var himinlifandi þegar ég komst undir 90 kg. Í dag ætla ég aldrei aftur að fara upp í 90 kg. Ég veit að ég get það þar sem ég veit hvað ég þarf að gera og hverju ég þarf að sleppa til að fara ekki þangað aftur.

Það skiptir engu hvað þú borðar milli jóla og nýárs

Það skiptir hins vegar öllu hvað þú borðar milli nýárs og jóla. Það er alltaf einhver helv. dagur sem kemur og eyðileggur mataræðið. Alltaf eitthvað áreiti sem eyðileggur fyrir okkur. Ef það er ekki afmælisveisla, þá er það bolludagurinn, páskarnir, grillin á sumrin, aðventan og svo auðvitað jólin og áramótin. Ég meina, það er bara bolludagur einu sinni á ári. Það má alveg leyfa sér smá. Þarna er ég svo sannarlega sammála. Það er einn bolludagur á ári. Vandamálið í dag er að hann byrjar á fimmtudegi og teygir sig svo yfir á þriðjudag svona afgangabolludagur. Ég meina, ekki erum við að fara að farga þessum gómsætu bollum.  Páskarnir byrja svona 6 vikum fyrir páska og aðventan er farin að teygja sig fram í miðjan nóvember. Það má sko alveg tríta sig smá, það eru bara jól einu sinni. Það er hins vegar spurning ef við fáum okkur sex bollur í staðinn fyrir eina hvað það kostar. Ef við borðum 3 páskaegg í staðinn fyrir eitt og förum á 4 jólahlaðborð í staðinn fyrir 2. Hvað þá, hverju myndi það skila í verri lífsgæðum?

Það er alltaf gjald sem þarf að greiða. Eina spurning er, hvenær viltu greiða það?

HÉR er hægt að fylgj­ast með Ásdísi á In­sta­gram:

View this post on Instagram

“Sometimes overcoming a challenge is as simple as changing the way you think about it.” Anonymous Þetta var stuð. Síðast þegar ég hljóp á bretti tók ég 100 mín og mér fannst það drepleiðinlegt og ótrúlega lengi að líða enda mitt langlengsta brettahlaup. Kvefuð í dag og ákvað að taka inniæfingu. Sá að @joningis tók 3 tíma á bretti og ákvað að sameina 2 æfingar í eina. Brettahlaup og andlegt úthald. Setti mér markmið að hlaupa 2 tíma, fann podcast með @snorribjorns og hlustaði á @arnarpetur í 2 tíma. Viti menn þessir 2 tímar liðu fáranlega hratt, ég sigraði hausinn á mér og lærði helling um hlaup í leiðinni. Verð að mæla með þessu podcasti #miðaldrakonan #midaldrakonan #growthmindset #þægindaramminn #afþvíéggetþað #þríkó

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Feb 15, 2020 at 10:17am PSTLjósmynd/Aðsend
mbl.is