Ætlaði ekki að vera á þessum aldri og vera feit

Vigdís Hauksdóttir stundar reglulega hreyfingu og borðar hollt.
Vigdís Hauksdóttir stundar reglulega hreyfingu og borðar hollt.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins ákvað fyrir ári að taka lífsstílinn í gegn og hefur lést um heil 15 kíló síðan. Hún greindi frá árangrinum á Facebook um helgina og fékk í kjölfarið ótrúlega góð viðbrögð. Með réttu hugarfari tókst Vigdísi að breyta mataræðinu. Hún fer einnig reglulega í ræktina og var einmitt á leiðinni þangað þegar blaðamaður náði í hana rétt fyrir hádegi.

Kveikjan að breyttum lífsstíl Vigdísar var sú að hún fann að hún byrjaði að þyngjast eftir að hún tók sæti í borgarstjórn árið 2018. Hún segir vinnu stjórnmálamannsins mikla kyrrsetuvinnu og segir það sama hafa gerst þegar hún settist fyrst á þing árið 2009 en þá fór hún líka að þyngjast. Hún ákvað því 1. mars 2019 að taka sig á líkt og hún gerði þegar hún var á þingi. Það var þó ekki bara mittismálið sem Vigdís var með áhyggjur yfir. Hún vildi líka vera í góðu líkamlegu og andlegu formi til þess að takast á við pólitíska andstæðinga á málefnalega hátt.

Prófaði fyrst ketó

„Ég byrjaði á ketó-kúrnum. Hann átti ekki við mig þannig að ég fór á lágkolvetnakúrinn svona þremur vikum seinna. Hann passar svona rosalega vel fyrir mig. Það er hægt að borða sælkeramat á hverjum degi. Lágkolvetnafæði er þannig að það er mikið grænmeti, mikið af hollu fæði og enginn unninn matur. Ég borða bara óunninn mat, kjöt, fisk og svo framvegis. Því fylgir: Út með allt hveiti, út með pasta, út með sykur, út með hrísgrjón, út með öll kolvetni. Ég fæ í staðinn orkuna úr fitu. Harðfiskur og smjör er snakkið mitt. Ef ég fæ mér bjór þá fæ ég mér léttbjór og ef ég fæ mér vínglas með mat þá fæ ég mér ósætt hvítvín sem dæmi,“ segir Vigdís og bendir jafnframt á að mikilvægt sé að drekka mikið vatn.

Vigdís tekur óformlegar föstur en hún borðar ekki fyrr en í hádeginu. Ef hún fer í ræktina fyrir hádegi fær hún sér eitt soðið egg.

Það er mikið að gera hjá Vigdísi í borgarstjórn Reykjarvíkur.
Það er mikið að gera hjá Vigdísi í borgarstjórn Reykjarvíkur. mbl.is/​Hari

Hvers konar hreyfingu stundar þú?

„Ég er bara í World Class og brenni og lyfti til skiptis. Svo eftir áramót þá hef ég verið að fara í Hress í Hafnarfirði og tek einn tíma í viku í rosalega flottri leikfimi sem eru teygjur, rass og læri í heitum sal. Það er rosa gott líka.“

Vigdís segist einnig hreyfa sig mikið úti og gengur mikið um borgarlandið þegar veður leyfir.

„Ég er mikil náttúrumanneskja. Elska það að vera úti og finna fyrir náttúrunni. Ég er meira í því á sumrin. Fer í kraftgöngur úti. Öskjuhlíðin er hérna við hliðina á mér. Elliðaárdalurinn skammt undan. Ég geng í kringum flugvöllinn. Það elska ég á sumrin.

Gott fyrir budduna að vera í sömu fatastærð

Þegar fataskápurinn er farinn að segja manni að maður sé tilneyddur að kaupa ný föt vegna þess að maður hefur þyngst verður maður eiginlega bara að hlýða og fara aftur í kjörþyngd. Þetta er líka svo praktískt að vera í sömu stærð. Maður getur blandað saman nýjum fötum og gömlum. Að vera alltaf í sama númeri er líka gott fyrir budduna.“

Vigdís lítur ekki á sérfæðið sem vesen og er jákvæðnin uppmáluð.

„Ef við tölum bara um ráðhúsið af því þar eru borgarstjórnarfundir og borgarráðsfundir þá vel ég það úr sem er lágkolvetnafæði. Það er yfirleitt kjöt eða fiskur og mikið af grænmeti. Svo er ég svo heppin að það eru veganistar í borgarstjórn þannig að ég fæ stundum að „teika“ það, sem er bara grænmeti. Þannig að það er ekkert einasta vandamál.

Þá er aldrei vandamál ef ég fer á veitingastaði, í bröns eða tek hádegismat með einhverjum. Íslenskir veitingastaðir eru svo rosalega fjölbreyttir og góðir að það er aldrei vandamál að finna eitthvað á matseðlinum sem passar inn í þennan kúr. Íslenskir veitingastaðir eru alveg framúrskarandi.“

Vigdís segir ekki endilega auðvelt að ná þeim árangri sem hún hefur náð og segir hugarfarið skipta miklu máli.

„Maður þarf að vera svolítið vondur við sjálfan sig þannig að ég er ekkert að segja að þetta hafi verið rosa auðvelt, sérstaklega ekki þegar ég var að byrja. Maður þarf að vera einbeittur til að árangur náist. Ég hef bara staðist þessar freistingar nokkuð vel. Enda hafa kílóin fokið. Svo var ég með það á bak við eyrað að ég ætlaði ekki að vera kona komin á þennan aldur og vera feit. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég varð að stoppa þessa þróun og grípa sjálf inn í. Það gerir þetta enginn nema maður sjálfur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál