10 bestu bækurnar til að lesa í sóttkví

Það eru fjölmargir einstaklingar heima í sóttkví þessa dagana.
Það eru fjölmargir einstaklingar heima í sóttkví þessa dagana.

Fjölmargir Íslendingar eru í sóttkví heima hjá sér í dag vegna kórónuveirunnar. Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur sjálfur. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms. 

Fjölmargir aðilar hafa bent á mikilvægi þess að fólk taki tilmæli Landlæknis um sóttkví alvarlega og má finna leiðbeiningar til almennings um sóttkví hér.

Til að gera dvölina heima bærilegri er alltaf gott að hafa góð bók við höndina. 

Þetta eru bestu bækurnar að mati Smartlands fyrir almenning heima:

Urðarmáni

Höfundur: Ari Jóhannesson

Upphafskafli sögunnar og lokakaflinn gerast árið 2020. En þess má geta að í bókinni kemur fram að kínverskur ferðamaður komi til landsins í febrúar árið 2020 með veirusýkingu. Bókin kom út í fyrra og því mjög áhrifaríkt að lesa hana í dag. 

Í raun fallar bókin um Reykjavík á tímum spænsku veikinnar. Urðarmáni er grípandi og áhrifamikil söguleg skáldsaga um líf, dauða og lærdóma fortíðar. 

Konan sem datt upp stigann - saga af kulnun

Höfundur: Inga Dagný Eydal

Þeir sem taka sóttkví fagnandi vegna mikillar vinnu og álags í lífinu ættu að skoða það sem Inga Dagný hefur að segja um álag í lífinu. Sjálf hefur hún í nokkur ár glímt við afleiðingar þess að hafa veikst af of mikilli streitu og ekki getað stundað fasta vinnu síðan hún hætti í erilsömu starfi sem hjúkrunarfræðingur.

Í bókinni segir Inga Dagný sögu sína og birtir brot úr dagbókum. Auk þess segir hún frá fólkinu sínu sem sumt þurfti einnig að takast á við áföll og alvarlega sjúkdóma. Konan sem datt upp stigann er saga konu sem tekst á við kulnun af æðruleysi en kemur líka oft auga á broslegu hliðarnar. Hún lítur gagnrýnum augum til fortíðar um leið og hún horfir fram á veginn í leit að lausnum og bata.

Brúin yfir Tangagötuna

Höfundur: Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn er að margra mati snillingur að skrifa um ástina. Nýjasta bók hans, sem er ísfirsk ástarsaga úr samtímanum lýsir lífi Halldórs sem býr einungis níu og hálfu skrefi frá ástinni sinni en finnst leiðin þangað furðu flókin. 

Bókin hefur vakið athygli víða og fangar vanalega athygli lesenda og stelur tíma. Eitthvað sem er nauðsynlegt þegar finna þarf leiðir til að dunda sér í heila fjórtán daga heima. 

Aðferðir til að lifa af

Höfundur: Guðrún Eva Mínervudóttir

Tilviljun leiðir saman ólíka sögumenn þessarar einstæðu skáldsögu: Borghildi sem nýorðin er ekkja; tölvukarlinn Árna sem þarf að takast á við offitu og hreyfingarleysi; hina ungu Hönnu sem glímir við átröskun, og Aron Snæ ellefu ára son einstæðrar móður … en eftir því sem sögunni vindur fram fléttast örlög þeirra saman í stigmagnandi frásögn. Áhugaverð bók sem enginn ætti að missa af. 

Plan B

Höfundur: Guðrún Inga Rangarsdóttir

Gyða er afkastamikið skáld sem hefur aldrei komið út á prenti þrátt fyrir margar tilraunir til þess að heilla útgefendur. En nú er hún með frábæra hugmynd að stórri skáldsögu sem er byggð á skrautlegu fólki sem hún vann með í heimaþjónustu Kaupmannahafnar.

Þegar ritstífla setur strik í reikninginn ákveður Gyða að endurnýja kynnin við gömlu vinnufélagana og til að halda sér í formi skrifar hún um sitt eigið líf, Plan B. Í Kaupmannahöfn flækist hún fljótt í litríkan lygavef.

Plan B er fyrsta skáldsaga Guðrúnar Ingu Ragnarsdóttur, frumleg og listavel spunnin saga af ferðalagi sem tekur óvænta stefnu. Bráðfyndin og snjöll samtímasaga um væntingar og vonbrigði.

Ketóflex 3-3-1

Höfundur: Þorbjörg Hafsteinsdóttir

Bók Þorbjargar fjallar um hreint og heilnæmt mataræði. Bókin er sögð góð leið til að taka heilsuna föstum tökum og nýta sér kosti ketó-mataræðis með sveigjanleika. 

Eftir aðlögunartímabil er ketósan brotin upp með fjölbreyttara mataræði; Þrír dagar í ketósu, þrír í hleðslu og einn frjáls dagur. Á ketóflex endurnýjar líkaminn sig og jafnvægi næst á hormóna og orku. Það skilar sér í betri líðan, aukinni fitubrennslu, betri svefni, bættu útliti og meiri gleði.

Ketóflex 3-3-1 inniheldur dásamlegar og einfaldar, sykurlausar og ketóvænar uppskriftir sem henta í hraða samfélagsins.

Farsælt líf, réttlátt samfélag - kenningar í siðfræðið PEP

Höfundur: Vilhjálmur Árnason

Í bókinni fjallar Vilhjálmur um nokkrar af helstu siðfræðikenningum í sögu Vesturlanda og veitir jafnframt innsýn í samtímarökræðu um farsælt líf og réttlátt samfélag. Í bókinni er rætt um Platon, Aristóteles, Hobbes, Kant og fleiri. 
Bókin er góð áminning um viðbrögð réttlátra samfélaga og á erindi við alla sem vilja rifja upp lykilstef siðfræðinnar til dagsins í dag. Efni sem að margra mati varðar alla einstaklinga í samfélaginu. 
Why We Sleep: The New Science of Sleep and Dreams

Höfundur: Matthew Walker

Sjaldan eða aldrei hefur umræðan um mikilvægi svefns verið meiri. Bókin um af hverju við sofum er ein vinsælasta og umtalaðasta bók undanfarin ár. Breski svefnvísindarmaðurinn Matthew Walker fer um víðan völl í bókinni um allt sem snýr að svefni. Eðli svefns og þróun hans yfir ævina. Mikilvægi svefns fyrir líkamann og hættur þess að fá ekki nægan svefn. 

Eftir lestur bókarinnar keppist fólk vanalega við að ná góðum svefni sem er grunnurinn að velfarnaði einstaklingsins að mati sérfræðinga. 


Verðandi

Höfundur: Michelle Obama

Verðandi er saga Michelle Obama um uppvöxt hennar, mótunarár og ekki síst saga hennar og Baracks Obama í Hvíta húsinu.

Obama segir opinskátt frá því hvernig var að alast upp við þröngan kost, mennta sig og vinna sig síðan til hæstu metorða. Einlæg, kraftmikil bók sem veitir mörgum innblástur. Eftir lestur bókarinnar segja margir að þeir hafi nýja sýn á eigið líf og markmið í lífinu. 

14.000 Things to be Happy About

Höfundur: Barbara Ann Kipfer

Þessi bók er algjörlega ómissandi inn á hvert heimili í dag. Hún var upphaflega gefin út fyrir 25 árum en var endurútgefin nýverið. Kipfer byrjaði að gera lista sem barn um allt sem gerði hana hamingjusama í lífinu. Bókin smitar alla þá sem lesa hana af hamingju. 

Hvort heldur sem eru tuttugu mínútur fyrir þig sjálfa, karmelluís eða bara för eftir kanínur í snjónum. Það er ýmislegt sem hægt er að gleðjast yfir í veröldinni ef vel er að gáð. 

Höfundur setur engar útskýringar eða álit á því sem hún skrifar að hægt sé að gleðjast yfir, sem gefur lesandanum tækifæri á að muna þetta úr sínu lífi. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál