Kyrrðarástand sem fleytir okkur lengra

Unnur Valdís Kristjánsdóttir hannaði flothettuna árið 2013. Síðan þá hefur flot-menningin verið að aukast hérlendis og sækist ákveðinn hópur í að fljóta í sundlaugum landsins. Það nýjasta er Flotþerapía sem er svo miklu meira en bara samflot.

Þegar Unnur Valdís er spurð að því hvers vegna flothettan hafi orðið til segist hún hafa haft löngun til að vinna með það sem henni var kært, það er að segja baðmenningu og vatnsauðlegð þjóðarinnar. Hún vildi líka skapa upplifanir og færa fólki ró og jafnvægi. Hún segist þó ekki hafa vitað mikið um flot þegar hún fór af stað með hönnunina á flothettunni.

„Ég vissi ekkert um flot, þannig lagað. Vissi bara að það var einstaklega gott og róandi að fá frí frá togi þyngdaraflsins og vera umvafin vatninu.“

Var ekkert erfitt að koma flothettunni á markað á sínum tíma?

„Jú, svo sannarlega var það áskorun að fá fólk til að setja á sig þetta skrýtna höfuðfat. Til þess að fá fólk til að koma og prófa var nauðsyn að efna til hóptíma og þannig varð Samflot til. Það er skemmst frá því að segja að fólk komst fljótt á bragðið með þessa einföldu en áhrifaríku slökun og Flothettan og hennar boðskapur breiddist hratt og örugglega út.“

Hvernig hefur flotið þróast á þessum tíma?

„Í dag eru skipulögð Samflot í boði út um allt land og eru mjög vel sótt. Ætli það sé ekki 300-400 manns sem koma saman í hverri viku til að fljóta. Fljótandi slökunartímar eru líka byrjaðir að líta dagsins ljós í öðrum löndum eins og Svíþjóð, Danmörku og Ástralíu.“

Nú hefur Unnur Valdís þróað nokkuð sem kallast Flotþerapía. En hver er munurinn á Samfloti og Flotþerapíu?

„Ólíkt Samflotunum sem eru nokkuð sjálfbær og eingöngu hugsuð sem slökunarstund í vatni, þá hefur orðið til út frá löngun um að vinna með flotið á dýpri hátt nokkuð sem við köllum Flotþerapíu. Í Flotþerapíu er boðið upp á öruggt og kyrrlátt umhverfi og þátttakendur fá mjúka meðhöndlun á meðan flotið er. Þak er á þátttökufjölda og tíminn gengur út á að skapa aðstæður, fyrir þann sem þiggur, að gefa algjörlega eftir - sleppa takinu og svífa inn í djúpa slökun.“

Hvaða áhrif hefur Flotþerapía á fólk?

„Í Flotþerapíunni erum við að vinna með heilbrigt orkuflæði líkamans með því að skapa rými til að losa um allar stíflur sem hafa orsakast af spennu eða ójafnvægi. Í kyrrð og eftirgjöf örvum við náttúrulegan hæfileika líkamans til að heila sig, öðlumst kærkomna hvíld og endurnæringu.“

Hvað er það stórkostlegasta sem þú sjálf hefur upplifað í gegnum flotið?

„Það er ekki óalgengt að ég heyri í eða fái bréf frá fólki sem er að upplifa langþráða og kærkomna hvíld. Bættur svefn er það sem er oftast talað um. Einnig getur það gerst í þessu kyrrðarástandi að það fljóti upp í vitundina lausn á einhverjum vandamálum sem fólk hefur verið að kljást við, það er máttur kyrrðarinnar og að leyfa sér að fara inn í ástand aðgerðarleysis sem veitir okkur stundum aðgang að svörum sem eru okkur ekki sýnileg í amsti dagsins, en búa svo sannarlega í vitundinni.“

Á flotið ekki mikið inni?

„Ó, jú! Nú er flotið ekki bara „fönky“ og skemmtileg slökun og afþreying. Nú eru fagaðilar byrjaðir að vinna meira með flotið og taka það á dýpra stig og þá oft út frá þörfum sérhópa. Flotið er frábær leið til að dýpka og vinna með núvitund og hugleiðslu, einnig hefur það reynst þeim sem glíma við verki mjög vel. Kroppurinn kann vel að meta að svífa um í þyngdarleysinu og þiggja spennulosandi meðhöndlun í mýkt vatnsins.“

Hvernig verður 2020 hjá þér?

„Ég sé fram á mjög skemmtilegt og annasamt ár í að miðla boðskap vatnsslökunar. Í mars bjóðum við upp á námskeið í Flotþerapíu, þar sem við tökum á móti fólki hvaðanæva að úr heiminum sem vill læra að halda utan um vatnsslökunartíma. Þar köfum djúpt inn í vísindi og heilsufarslegan ávinning vatnsslökunar. Við höldum áfram að bjóða upp á Flotþerapíutímana okkar í Mörkinni í Reykjavík, þar sem fólk getur komið og þegið meðhöndlun á meðan flotið er. Sérstök Bumbuflot, eða Flotþerapía fyrir barnshafandi, verða 1-2 x í mánuði. Við ætlum líka að vera dugleg að bjóða upp á allskyns heilsubætandi skemmtilegheit í vatninu í formi viðburða. Allt þetta er auglýst og kynnt vel á Facebooksíðu Flothettu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »