Svona áttu að haga þér í spa-i

Gott er að mæta tímanlega í nudd.
Gott er að mæta tímanlega í nudd. Ljósmynd/Unsplash

Fyrir þá sem eru ekkert sérstaklega vanir að fara í spa eða heilsulind getur verið hreinasta martröð að fara í eina slíka. Það er þó ekkert að óttast ef þú hagar þér almennilega og ferð eftir þessum viðmiðum. 

Mættu 15 mínútum áður en þú átt pantaðan tíma

Ef þú hefur ákveðið að gera vel við þig og panta nudd eða aðra meðferð í heilsulindinni ættir þú að vera mættur alla vega 15 mínútum áður en tíminn hefst. Þá hefurðu tíma til að skipta yfir í sundföt og sloppinn. Sé tilgangurinn að ná að slaka á er líka nauðsyn að þurfa ekki að vera á hlaupum og geta notið þess að slappa af í heilsulindinni áður en þú ferð í meiri slökun. 

Slepptu símanum

Símarnir okkar eru miklir streituvaldar og eru sífellt að trufla okkur. Ef þú vilt ná almennilegri slökun er best að skilja símann eftir í skápnum. Ef þú þarft nauðsynlega að láta vita á Instagram að þú ert að gera vel við þig, taktu mynd í afgreiðslunni eða á leið inn. 

Hafðu hljótt

Flestir sem fara í spa eru þar til að hafa það rólegt. Þó að það sé gaman að fara með vinkonum sínum í heilsulind þá er nauðsynlegt að taka tillit til annarra gesta og ekki vera með of mikinn hávaða.

Þvoðu þér vel

Það þarf kannski ekki að segja Íslendingum sem eru vanir að skrúbba sig hátt og lágt fyrir allar sundferðir, en það er mikilvægt að fara í góða sturtu áður en haldið er í pottana. Það er líka mikilvægt að þvo sér vel eftir á. 

Taktu til eftir þig

Ekki skilja sloppinn, handklæði og inniskó eftir úti um allt. Það er ókurteisi.

Ekki taka börnin með 

Heilsulindir eru til þess gerðar að slaka á og hafa það rólegt. Það er því betra að skilja börnin eftir heima. 

Það getur verið einstaklega notalegt að skella sér í spa.
Það getur verið einstaklega notalegt að skella sér í spa. Ljósmynd/Unsplash
mbl.is