Ekkert eitt næringarefni til sem „bústar“ ónæmiskerfið

Guðmundur Freyr Jóhannsson segir að eiginleika ávaxta eigi til að …
Guðmundur Freyr Jóhannsson segir að eiginleika ávaxta eigi til að tapast þegar þeir eru settir í blandara. Ljósmynd/Unsplash

„Nú þegar kórónuveirufaraldurinn ríður yfir heimsbyggðina verður okkur öllum augljóst hvað það er sem skiptir mestu máli  heilsa og velferð okkar allra. Annað dagsins amstur bliknar í samanburðinum. Á þessum tímum er því mikilvægast að við öll séum samtaka og gerum okkar besta til að verjast þessum vágesti,“ segir Guðmundur Freyr Jóhannsson læknir í sínum nýjasta pistli í samvinnu við Nettó: 

Guðmundur Freyr Jóhannsson lyf og bráðalæknir.
Guðmundur Freyr Jóhannsson lyf og bráðalæknir.

Langmikilvægasta atriðið er að sjálfsögðu að fylgja sóttvarnaráðum og fyrirmælum þeirra sem best þekkja til og hefur verið falið það tröllvaxna verkefni að leiða okkur í gegnum þennan storm.

Annað og ekki síður mikilvægt atriði er að við hlúum vel að andlegri og líkamlegri líðan okkar sjálfra sem og okkar nánustu til að styrkja ónæmisvarnirnar.

Nýlega birtist gott viðtal við Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmislækningum, þar sem hann talar um hvað grundvallarlífsstílsþættir s.s. reglulegur svefn, hreyfing, að huga að andlegri líðan og streituminnkun sem og góð næring skipta miklu máli fyrir ónæmiskerfið. Það sem almennt stuðlar að góðri heilsu stuðlar einnig að góðu ónæmiskerfi.

Hvað næringuna snertir þá er mér vitanlega ekkert eitt næringarefni til sem „bústar“ ónæmiskerfið og breytir því í einhvers konar „ofurónæmiskerfi“. Ónæmiskerfið, eins og önnur líffærakerfi, reiðir sig á fjölda vítamína, steinefna og orkuefna til að sinna sínu hlutverki. Ef eitthvert þeirra skortir getur það haft neikvæð áhrif en hafi líkaminn nóg af einhverju efni breytir litlu að taka meira af því og óhóflegt magn getur jafnvel haft skaðlegar afleiðingar.

Það sýnir sig einnig að líkaminn nýtir næringarefnin best þegar þau koma úr fæðunni. Því er allra best að fá næringarefnin úr fjölbreyttum alvörumat nema ef sérstakar ástæður gefa tilefni til að taka bætiefni, s.s. verðandi mæðrum er ráðlagt að taka fólat og einstaklingum sem eru vegan er ráðlagt að taka B12 o.s.frv. Á Íslandi er þó mælt með að allir taki lýsi og/eða D-vítamín til að tryggja nægjanlegan D-vítamínbúskap.

Það skiptir einnig töluverðu máli fyrir ónæmiskerfið að prótíninntakan sé nægjanleg og heildarorka fæðunnar sé í samræmi við orkuþörf einstaklingsins. Það er vel þekkt að prótín- og næringarskortur veikir ónæmiskerfið og eykur næmi fyrir sýkingum en rannsóknir sýna einnig að of mikil orkuinntaka leiðir til langvinnrar bólgumyndunar sem aftur hefur tengingu við fjölda sjúkdóma, þar á meðal röskun á ónæmisvörnum líkamans.

Áður en kórónuveiran birtist heimsbyggðinni var vaxandi tíðni lífsstílssjúkdóma helsta heilsufarsógnin sem olli okkur áhyggjum. Eitt stærsta vandamálið í því samhengi er of mikil neysla mikið unninna matvæla sem að jafnaði eru næringarsnauð og orkurík. Sem dæmi sýndi nýleg vel útfærð rannsókn að einstaklingar borða allt að 500 kaloríum meira á dag þegar matvælin eru mikið unnin samanborið við sambærilegan en lítið unninn mat.

Þannig sjáum við þá þversögn að óhófleg þyngdaraukning og næringarskortur eykst samhliða um allan heim sem aftur hefur neikvæð áhrif á ónæmisvarnirnar.

Það yrði of langt mál að fara ofan í í smáatriðum hvað er hollt og næringarríkt mataræði og ég ætla því að leyfa mér að vitna í opinberu brasilísku leiðbeiningarnar sem taka þetta saman á mjög einfaldan hátt og endurspegla íslenskar leiðbeiningar: Borðum sem mest af fjölbreyttum næringarríkum mat sem við tilreiðum sjálf úr ferskum grunnhráefnum og takmörkum neyslu á næringarsnauðum unnum matvælum. 

Miðað við stöðu okkar í dag, ef frá eru taldar leiðbeiningar almannavarna, þá er leitun að betri ráðleggingu.

https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fimmu.2018.01055/full

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4517043/

https://www.cell.com/cell-metabolism/pdf/S1550-4131(19)30248-7.pdf

https://www.vox.com/2015/2/20/8076961/brazil-food-guide

https://www.medscape.org/viewarticle/926097

https://www.sciencedirect.com/…/arti…/pii/S1074761318302954…

https://www.cell.com/cell-metabolism/…/S1550-4131(18)30504-7

https://www.atsjournals.org/…/10.1513/AnnalsATS.201706-447AW

https://link.springer.com/article/10.1007/s00125-017-4318-z…

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/28392139

https://clinicaltrials.gov/ct2/show/NCT03996538

https://www.youtube.com/watch?v=YCsyTd29i9Y

https://insight.jci.org/articles/view/131774

https://www.frontiersin.org/articles/…/fimmu.2018.01055/full

https://www.cell.com/cell-metab…/…/S1550-4131(19)30248-7.pdf

mbl.is