Þakklát fyrir að hafa unnið sjálfsvinnuna

Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi.
Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi.

Sara Barðdal einkaþjálf­ari og heil­su­markþjálfi langaði að leggja sitt af mörkum og býður fólki ókeypis æfingaprógramm í gegnum heimasíðu sína Hitfit.  Hún segir tækifæri fyrir fólk til þess að nýta tímann sem það hefur nú til þess að byggja sig upp líkamlega og andlega. 

„Það er í raun aldrei betri tími en núna, þar sem sterkt ónæmiskerfi er ein af okkar bestu vörnum. Ég legg ótrúlega mikla áherslu á heildræna leið þegar kemur að því að vinna með heilsuna og inni í prógramminu er einnig kennsla sem fjallar um hvernig við getum minnkað stress, hugleiðsla sem leiðir fólk að kærleikanum sem býr innra með þeim og matseðill og uppskriftir þar sem áherslan er á næringarríkt og heilbrigt mataræði. Allt það ásamt góðum og skemmtilegum heimaæfingum sem eru alveg fullkomnar núna heima í sóttkví/samkomubanni.

Ég veit að margir eru að ganga í gegnum erfiða tíma. Eitt af því besta sem við getum gert núna er að byggja okkur upp og hugsa vel um heilsuna. Það er það sem við höfum stjórn á og getur gefið okkur mikinn andlegan og líkamlegan styrk á þessum óvissutímum,“ segir Sara.   

Að æfa heima getur verið fjölskylduverkefni.
Að æfa heima getur verið fjölskylduverkefni.

Að taka heimaæfingu hefur líklega aldrei verið vinsælla. Heimaæfingar hafa lengi verið stór hluti af lífi Söru en þrátt fyrir það er margt breytt í hennar lífi þessa dagana. 

„Það hefur margt breyst á síðustu vikum, öll fjölskyldan er núna heima en ég á tvo litla stráka, þriggja og sex ára, þannig það er nóg að gera. Hreyfingin er tól sem ég gríp í á hverjum degi. Þetta er eitt af því sem hjálpar mér að líða vel, hafa orku og styður við geðheilsu mína.

Ég legg mikla áherslu á að búa til tíma til að hreyfa mig því ég finn svo mikinn mun ef ég sleppi því. Þetta er í rauninni tilvalinn tími til að prófa sig áfram í heimaæfingum, því þó svo að börnin séu heima er það alls engin hindrun. Margar mömmur í samfélaginu okkar eru að æfa með börnum, setja æfingastöðvar og gera þetta að fjölskylduverkefni. Þetta er því mjög gott tækifæri til þess að sýna þeim í verki að hreyfing skiptir máli fyrir heilsuna og vera fyrirmynd fyrir þau í leiðinni. “ 

Þú býrð í Danmörku hvernig er ástandið þar? 

„Ég bý í litlum bæ sem heitir Sønderborg og hér er allt voða rólegt. Það er svolítið eins og það sé sunnudagur á hverjum degi en hér loka verslanir yfirleitt á sunnudögum. Þessa dagana hefur verið fallegt veður og sól úti og skógurinn og strandlengjan fyllast því af fólki sem er úti í göngu-, hjóla- eða hlaupatúr. Fólk á miserfitt með þetta enda erum við öll í mismunandi aðstöðu. Sumir geta notið kyrrðarinnar með sjálfum sér á meðan aðrir eru að bugast yfir orkumiklum börnum, heimalærdómi og vinnu. Í gær var tilkynnt að staðan yrði óbreytt fram yfir páska þannig við erum rétt að byrja þetta tímabil. Núna þakka ég fyrir að hafa unnið sjálfsvinnuna og sé með tólin til þess að vera með hugarfarið rétt stillt og ekki detta í ótta og panik.“

Ef það er ein æfing sem fólk ætti að gera á hverjum degi í þessu ástandi hvaða æfing væri það?

„Það er erfitt fyrir mig að velja eina æfingu fyrir alla enda erum við öll svo mismunandi en nokkrar góðar og einfaldar æfingar fyrir flesta væru til dæmis hnébeygjur, planki eða halda 90 gráðum upp við vegg,“ segir Sara og bendir einnig á æfingu sem hún deildi nýlega á Instagram og hún kallar karatefroskinn. Æfinguna má sjá hér að neðan en hún reynir á allan líkamann. 

„Ég hvet einnig alla til þess að skrá sig hér og fjá fjölbreyttar æfingar hér. Þar má sjá margar mismunandi æfingar sem er mjög gott að gera þessa dagana og í raun alla daga.“

Nú eru margir sem nýta tímann og baka á fullu, hvað finnst þér um það?

„Bakstur þarf alls ekki að vera óhollur og slæmur fyrir heilsuna. Við höfum einnig verið að baka og gera alls konar í eldhúsinu. Ég nota nánast aldrei hefðbundinn sykur né hvítt hveiti. Ég hef verið að baka hafrabollur, banana- og kókosmöffins og búa til orkukúlur. Allt úr hollum og góðum hráefnum. Ég myndi hvetja alla til þess að nýta tímann og prófa sig áfram í hollari bakstri, oft er þetta bara spurning um hvað þú ert vön að gera. Ég nota yfirleitt ávexti fyrir sætu eins og banana eða döðlur. Ég gríp í annars konar hveiti eins og bókhveiti, kókoshveiti, kínóahveiti, spelt/heilhveiti, hafra, mulin fræ eða hnetur svo dæmi séu tekin,“ segir Sara og bendir lesendum á girnilega og holla möffinsuppskrift sem hún deildi á Instagram á dögunum.

 

View this post on Instagram

💯Bananamuffins með kókostopping💯⠀ Þessi er æði! Frábær til að baka með börnunum heima 😍 ⠀ Innihald:⠀ 2 mjúkir bananar 🍌⠀ 2 egg🥚⠀ 1/4 bolli plöntumjólk⠀ 1/4 bolli ólífuolía⠀ 2 tsk hunang⠀ 1 tsk lyftiduft⠀ 1/2 bolli hafrar⠀ 1/2 bolli heilhveiti⠀ ⠀ Topping:⠀ Kókosmjöl og hunang hrært vel saman. ⠀ ⠀ 1. Stappaðu banana ofaní skál og bættu síðan eggjum, mjólk, hunangi og olíu saman og hrærðu vel.⠀ 2.Bættu síðan við þurrefnunum og hrærðu saman⠀ 3. Settu í muffins form og toppaðu með kókosinum.⠀ 4. Bakaðu í 15 mín við 180 gr. ⠀ ⠀ Hvetjum ykkur til að prófa! Láttu endilega vita hvernig smakkast! 💖

A post shared by HIITFIT.is (@hiitfit_is) on Mar 20, 2020 at 4:15am PDT

 

Sara segist ekki vilja gera lítið úr þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir en segir þó að það sé hægt að horfa á jákvæðu hliðarnar. 

„Mér finnst þetta vera ótrúlega góð áminning um hversu tengd við öll erum á þessari jörðu og að við þurfum sýna samstöðu. 

Einnig eru margir að fá tækifæri til að staldra við, hægja á sér og skoða forgangsröðina sína. Fá svigrúm til að horfa inn á við og spyrja sig spurninga eins og, hver er ég ef ég er ekki á fullu, að vinna, gera og græja hitt og þetta. Þjóðfélagið er allt að detta í hæga gírinn og ég hvet alla til að nýta þennan tímann og byggja sjálfa sig upp. Gera hluti sem hafa kannski verið aftast á listanum í langan tíma og fólk hefur ekki gefið sér tíma til að framkvæma 

Sinna heilsunni sinni enn þá betur, gefa sér tíma til að elda frá grunni, tengjast fjölskyldunni sinni, tala meira við vini og ættingja, eyða meiri tíma útí náttúrunni og tengjast sjálfum sér og gildunum sínum á ný.  

Það leynast mörg tækifæri og vaxtarmöguleikar á erfiðum tímum. Þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum þá getum við valið tvær leiðir, að detta í ótta og vonleysi og leyft þeim að brjóta okkur niður, eða mætt þeim með styrk. Minnt okkur á að við stjórnum okkar viðbrögðum og upplifunum þó svo að við höfum ekki endilega stjórn á aðstæðum. Við getum æft okkur í að halda í jákvætt hugarfar, ákveðið að sjá möguleikana frekar en hindranirnar og minnt okkur á að þetta er tímabil sem mun líða hjá og við munum komast í gegnum það saman.“ 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál