Ætlar þú að breytast í mannlega ruslafötu í samkomubanninu?

Margir eru óvanir því að þurfa að vinna heima og enn aðrir eru skelkaðir yfir því að þurfa að fara í sóttkví og mega ekki fara út á meðal fólks í tvær vikur. Eins og með svo margt í lífinu er það undir okkur sjálfum komið hvernig við förum í gegnum þennan skafl. 

Ætlum við að fara í gegnum hann með því að éta okkur í hel og breytast í mannlega ruslafötu? Ætlum við að vera föst í ísskápnum eða ætlum við að gera það sem við höfum sjaldan tíma til í okkar daglega lífi?

Hvernig væri að nýta þennan tíma til að byggja sig upp andlega og líkamlega? Hvernig væri að fara í göngu túr á hverjum degi eða út að skokka? Hvernig væri að gera heimaæfingar á hverjum degi undir leiðsögn Önnu Eiríks?

Hvernig væri að prófa að drekka einn sjeik á dag, til dæmis í hádeginu. 

Sumir sérfræðingar halda því fram að sjeikar séu ekki hollir en ég vil benda á að það skiptir máli hvað er í sjeiknum. Ef sjeikinn er fullur af ávöxtum, sykruðum djúsum og bólgumyndandi innihaldsefnum þá er hann líklega ekki að gera neitt fyrir þig. En ef hann er með fáum en góðum innihaldsefnum og ekki of sætur þá gæti hann bætt heilsu þína. Sér í lagi ef þú ert vanalega að borða í lúgusjoppum í hádeginu.

Í þessum sjeik hér fyrir neðan er prótein, fita og einn bolli af frosnum hindberjum sem eru ekki mjög sæt. 

Uppskrift: 

1 bolli vatn

2 skeiðar Feel Iceland kollagen

3 msk hnetusmjör

1 msk tahini (má sleppa)

1 bolli frosið avókadó

1 bolli frosin hindber

Allt sett í blandara og þeytt saman. Þú getur sett í skál og skreytt með ávöxtum en þú getur líka borðað þetta eitt og sér með skeið eða röri. Ef þú þarf meiri olíu er sniðugt að bæta henni út í þennan sjeik. 

Gangi þér sem allra best! 

mbl.is