Sjö ráð til þess að líða betur heima í þessu ástandi

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

„Við finnum það á þessum dögum sóttkvíar eða heimavistar hversu mikilvægt tengslanetið okkar er. Skyndilega verða samskipti við börn, systkini, ættingja og vini dagleg. Allir vilja vita hvernig heilsufarið er, hvort viðkomandi haldi sig ekki örugglega heima ef hann er einkennalaus og hvort heimavistin sé nokkuð að fara með geðheilsuna,“ segir Guðrún Bergmann í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:

Boð um aðstoð koma víða að og allir sýna umhyggju og ástúð.

TENGSLANETIÐ

Fólk sem er á flakki erlendis er hvatt til að koma heim til Íslands vegna þess að hér er tengslanetið, fjölskyldan, vinirnir og heilbrigðiskerfið okkar. Það er einmitt tengslanetið sem er svo mikilvægt að geta tengt sig við á álagstímum.

Dagsdaglega þurfum við kannski ekki mikið að nota þetta tengslanet, en þegar þörf er á því er gott að vita að það virkar.

Tengslanetið er net sem hefur verið hnýtt í gegnum árin og stækkað og orðið sterkara með fleiri möskvum. Net af fólki sem er til staðar fyrir þig og þú fyrir það, þótt þið hafið kannski ekki haft reglulega svo mikið samband, þá eru tengingarnar enn til staðar. Tengslanetið er því sennilega eitt mikilvægasta net lífsins.

HEIMAVISTIN GETUR NÝST VEL

Það er svo ótal margt sem hægt er að gera í heimavistinni. Gott er að halda ákveðinni reglu á lífinu, þótt ekki sé farið út í vinnu klukkan átta eða níu á morgnana. Hér eru nokkrar hugmyndir að því hvernig gera má það. 

  1. Búðu um rúmið þitt á morgnana. Þetta er grunnregla sem mér var kennd í æsku og ég hef fylgt síðan. Móðir mín sagði það virðingu við svefnstaðinn og að það væri mikilvægt í lok dags að koma þreytt/-ur að vel uppbúnu og snyrtilegu rúmi. Að auki er það fyrsta verkefni dagsins og þegar því er lokið eru allir líkur á að önnur verkefni gangi vel.
  2. Klæddu þig – kannski ekki í dragt eða jakkaföt – en ekki vinna í náttfötunum. Það getur verið þægilegt, en gerir lítinn mun á milli dags og nætur. Þessum mun er mikilvægt að halda.
  3. Taktu þér tíma til að gera nokkrar líkamsæfingar daglega eða fara út að ganga. Hjá sumum getur líkamsræktin falist í gönguferð um heimilið, hjá öðrum í æfingum sem finna má fjöldann allan af á Facebook þessa dagana og hjá öðrum í hressandi göngu- eða hlaupaferð úti, þar sem hægt er að moka í sig haug af súrefni, því vindurinn sér um það.
  4. Haltu reglu á matmálstímum. Það sama gildir reyndar um svefntímann, því ef hann fer úr skorðum fer öll regla dagsins líka úr skorðum.
  5. Er þú ert með börn heima, gerðu þá skipulag fyrir daginn, þ.e. hvenær á að læra og hvenær er frítími. Það hjálpar þeim að halda þeirri reglu sem tengist föstum skólatíma og veitir þeim aðhald og stuðning, sem skapar öryggi.
  6. Settu líka samverustundir með fjölskyldunni. Það er mikilvægt. Sá frítími þarf ekki endilega að vera fyrir framan sjónvarpið. Nú er upplagt að draga fram spil og púslur, sem eru að rykfalla inni í skáp. Meðan verið er að spila og púsla erum við nefnilega í samskiptum við þá sem með eru, en við tölum lítið hvert við annað þegar við sitjum fyrir framan sjónvarpið.
  7. Margir nýta heimavistina til að fara í gegnum myndirnar sínar, taka til í skápum eða hreinsa til í gömlu dóti. Það er líka frábær leið, því þegar við hreinsum til í gömlu dóti búum við til rými fyrir eitthvað nýtt til að koma inn í líf okkar.

Tryggðu að hver heimavistardagur sé gefandi, hvernig sem þú velur að verja honum.

mbl.is