Katrín ætlar að gifta sig um leið og samkomubanni lýkur

Katrín Sigurbjörnsdóttir einkaþjálfari í Reebok Fitness skipuleggur hverja viku fyrir …
Katrín Sigurbjörnsdóttir einkaþjálfari í Reebok Fitness skipuleggur hverja viku fyrir sig svo hún verði ekki brjáluð í öllu aðgerðarleysinu.

Katrín Sigurbjörnsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í íþróttafræði síðasta haust og starfar nú sem einkaþjálfari hjá Reebok Fitness. Eftir að samkomubann var sett hefur hún verið atvinnulaus en reynir að nýta tímann vel, borða hollt, skipuleggja tímann og æfa í allavega tvo tíma á dag. Hún er heppin að hafa átt varasjóð sem hún hefur lifað á, en svo er hún líka í sambúð og heldur kærastinn henni uppi að hluta til. Það fyrsta sem Katrín ætlar að gera þegar samkomubanni lýkur er að giftast ástinni sinni.  

Hvaða áhrif hefur það þegar vinnustaðnum er lokað?

„Þegar útbreiðsla faraldursins hófst hér reyndi ég að halda í vonina um að það kæmi ekki til lokana í líkamsræktarstöðvum. Ekki aðeins vegna þess að þær eru vinnustaðurinn minn heldur líka vegna þess að ég sjálf elska að lyfta og hreyfa mig og ræktin er fastur punktur í minni tilveru. Það var mjög undarlegt að vakna á morgnana fyrst eftir að lokaði og þurfa ekki að mæta til vinnu rúmlega sex! Dagarnir eru lengur að líða og auðvitað hefur það áhrif á andlega líðan að vera ekki í vinnu. Fjárhagsáhyggjur verða meiri og maður þarf strax leiða hugann að því hvernig tekjuöfluninni á að vera háttað í þennan tíma. Verst er að vera í óvissu og vita ekki hvenær opnað verður og hvenær ég get hafið störf aftur. Ég vona bara að allar aflétting samkomubannsins gangi vel og ég geti farið að vinna aftur mánaðarmótin maí-júní,“ segir hún. 

Ertu sjálfstætt starfandi hjá Reebok?

„Já, ég er sjálfstætt starfandi, það er yfirleitt þannig að borgað er fast gjald til stöðvarinnar og með því fæ ég aðgang sem þjálfari. Ég vona bara að líkamsræktarstöðvarnar komist í gegnum þetta, ég veit þetta er erfitt fyrir þessi fyrirtæki. Oft eru háar leigugreiðslur sem á að greiða í hverjum mánuði og róðurinn þyngist þegar dyrunum er lokað.“

Hvernig nærðu endum saman?

„Sem stendur er ég að nota spariféð mitt til að komast í gegnum þennan tíma. Ég hef alltaf lagt til hliðar ef ske kynni að eitthvað kæmi upp á og hvenær á maður að njóta þess ef ekki í heimsfaraldri! Ég er heldur ekki ein í heimili, unnusti minn ber okkur líka svolítið uppi þar til þessu lýkur. Við erum að kanna hvort ég eigi rétt á einhvers konar atvinnuleysisbótum en það getur verið að ég falli milli stafs og bryggju þar sem ég er einyrki og það er ekki langt um liðið síðan ég byrjaði að vinna.“

Hvað hefur þú gert í samkomubanninu til að verða ekki alveg brjáluð?

„Í byrjun var ég hrædd um að ég yrði brjáluð, ég elska að vera heima hjá mér en það er svolítið annað þegar einhver segir manni að maður eigi að halda sig heima. Ég hef reynt að halda mínu striki varðandi hreyfingu og mataræði en þetta eru tveir mikilvægustu póstarnir hjá mér þegar kemur að andlegri líðan. Í hverri viku gerum við, ég og kærasti minn, skipulag fyrir næstu sjö daga þar sem við ákveðum einn skemmtilegan hlut sem við gerum, það getur bara verið að fara í göngutúr, púsla eða eitthvað slíkt. Svo ákveðum við líka hver kvöldmaturinn verður og kvikmyndir sem við ætlum að horfa á. Það hjálpar að hafa eitthvað að hlakka til og að sjá aðeins fyrir sér hvernig dagarnir verða. Þá renna þeir ekki bara saman í eitt Netflix sull!“

Hvernig eru venjulegir dagar hjá þér?

„Undanfarið vakna ég klukkan 8-9. Ég fæ mér yfirleitt sama morgunmat og les alltaf blöðin. Svo slaka ég aðeins á, horfi kannski á einn þátt, les bók eða fer yfir matardagbækur. Ég hef verið að taka við þeim frá viðskiptavinum mínum á meðan á þessu stendur til þess að hjálpa þeim líka að hafa smá aðhald. Svo fer ég á æfingu í um það bil tvo tíma. Í eftirmiðdaginn reynum ég og kærasti minn að gera eitthvað saman, fara í stuttan göngutúr til dæmis. Ég borða yfirleitt frekar snemma á kvöldin og finnst gaman að eyða smá tíma í að elda eitthvað gott. Yfirleitt er ég að vinna til 7 svo ég hef ekki alltaf tíma til að nostra svona við kvöldmatinn. Svo horfi ég á eitthvað skemmtilegt eða les bók. Inn á milli hef ég verið að lita í litabækur, stundum mála ég mig, bara fyrir sálina og sjálfa mig og reyni að dunda mér eitthvað heimavið. Svo er auðvitað hátíð þegar maður þarf að fara í matarbúð, þá dubbar maður sig upp!“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Á venjulegum degi borða ég yfirleitt bananapróteinpönnukökur í morgunmat, tvö mjólkurglös og lýsi með. Í hádeginu fæ ég mér skyr, grænmeti meðhummus og ávexti eða kotasælu með einhverju góðu gúmmulaði. Snarl á milli hádegis og kvöldmatar er yfirleitt Hámark, ávextir, hrökkbrauð með áleggi eða eitthvað slíkt. Á kvöldin borða ég bara venjulegan heimilismat. Ég fylgi ekki neinu sérstöku mataræði en reyni yfirleitt að hafa allar máltíðir þannig samsettar að ég fái eitthvað prótein, kolvetni og fitu. Oft fæ ég mér svo smá snarl áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar ég borða snemma. Það getur veriðCheerios með mjólk, Hámark og banani eða mjólk og brauð. Ég leyfi mér alveg að fá mér nammi og slíkt en reyni kannski að takmarka það við helgarnar.“

Hvers saknar þú mest?

„Ég sakna þess mest að geta farið þangað sem ég vil þegar ég vil. Allt í einu langar mig rosalega mikið í partý, bíó, leikhús og út að borða. Ég sakna þess að fá að lyfta þungt og auðvitað sakna ég þess að hitta fólkið mitt sem ég er að þjálfa. Foreldrar mínir hafa líka verið í sjálfskipaðri sóttkví síðan um miðjan mars svo það er líka erfitt að geta ekki hitt þau á sama hátt og áður.“

Hvaða æfingar ertu að gera á hverjum degi?

„Í samkomubanninu hef ég svolítið verið að einblína á að missa ekki niður vöðvamassa. Þá verður maður að gera styrktaræfingar og borða vel. Ég hata að fara út að hlaupa þó ég geri það nú stundum bara af því ég veit ég hef gott af því. Ég er aðallega að lyfta lóðum fyrir einstaka vöðvahópa 5-6 sinnum í viku og tek svo 1-2 þolæfingar eða HIIT æfingar á móti.“

Hver er besta æfing allra tíma?

„Hnébeygja, helst með þunga stöng. Ég elska hnébeygjur. Reyna á læri, rass, kvið, bakvöðva, næstum allt saman!“

Hvað er það fyrsta sem þú ætlar að gera þegar samkomubanninu lýkur?

„Það fyrsta sem ég ætla að gera er að gifta mig í júlí! Ég krossa bara putta og vona að allt fari vel svo það gangi eftir!“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál