„Það er engin skömm að fá hjálp“

Alda Lilja vill opna umræðuna um geðheilbrigðismál.
Alda Lilja vill opna umræðuna um geðheilbrigðismál. Ljósmynd/Aðsend

Rúmlega tíu ár eru síðan að Alda Lilja Hrannardóttir leitaði sér hjálpar hjá sálfræðingi. Að fara til sálfræðings var ekki eitthvað sem fólk talaði mikið um og kom það mörgum á óvart þegar Alda Lilja talaði opinskátt um vandann sem hún var að glíma við. Í dag reynir hún að opna umræðuna um geðheilbrigðismál og segir margt hafa breyst á síðastliðnum áratug. 

„Mér hafði liðið mjög illa í mjög langan tíma og grét mjög mikið af engri augljósri ástæðu. Ég fór að leita mér upplýsinga á netinu og las mér til um þunglyndi og hjálp sem væri í boði við því,“ segir Alda Lilja Hrannardóttir um hvernig henni leið þegar hún leitaði sér hjálpar hjá fagaðila. 

„Ég byrjaði að hitta sálfræðing þegar ég var 17-18 ára. Þá þekkti ég engan sem fór til sálfræðings. Þegar ég minntist á það við vini mína voru flestir mjög jákvæðir gagnvart því að ég væri að sækja mér hjálp en ég heyrði mikið af fólki líka vera mjög hissa að ég spjallaði um það opinskátt og hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að fólk héldi að ég væri „geðveik“ eða eitthvað klikkuð. Margir sögðu mér að þau vildu fara til sálfræðings en þorðu því ekki því þau voru hrædd um hvernig annað fólk myndi líta á þau.

Þegar ég loksins fékk hjálp var ég á mjög vondum stað og þetta var það eina sem var í boði. Ég held að eitthvað innra með mér hafi bara kviknað, ef ég ætlaði að halda lífi þurfti ég að fara til sálfræðings strax, það var bara ekkert annað í boði. Ég var búin að gúgla smávegis hvað væri í boði og vissi að ég gæti annað hvort farið til sálfræðings og/eða farið á lyf. Það var eitthvað innra með mér sem vissi að ég þyrfti á sálfræðingi að halda og vildi sjá hvað hann segði. Mamma mín hjálpaði mér svo að hafa samband við sálfræðing.“

Alda Lilja er teiknari og teiknar meðal annars til að …
Alda Lilja er teiknari og teiknar meðal annars til að láta sér líða vel. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur sjálfsvinnan gengið? 

„Mjög vel. Geðheilsa er bara eins og líkamleg heilsa, þú verður að vinna stöðugt í henni til að halda henni góðri. Þú borðar ekki bara hollt og hreyfir þig í mánuð og ert góð út ævina. Það er bara það sama með geðheilsu, ef þú sinnir henni ekki þá dalar henni. Auðvitað verður þetta allt auðveldara með tímanum en þú ert aldrei beint  „búin“. Til að byrja með er þetta svolítil kvöð og eitthvað sem þú þarft að gera, en þegar þetta er komið í rútínuna og æfingu þá veistu hvernig þú átt að bregðast við því sem lífið gefur þér og það verður minna mál. Ég nota mismunandi tól yfir daginn, mitt helsta tól þessa dagana er að gera mitt besta að halda rútínu, sýna sjálfri mér skilning og gera hluti sem láta mér líða vel.“ 

Hvað breyttist í kringum þig þegar þú byrjaðir að opna þig um líðan þína? 

„Aðrir byrjuðu að opna sig og jafnvel bóka tíma hjá sálfræðingum eða ráðgjöfum. Vinir mínir fóru að spyrja hvert þeir ættu að leita til að fá sálfræðing og biðja um ráð við þeirra vandamálum. Ég fæ reglulega skilaboð á Instagramminu mínu um hvert skal leita til að fá hjálp og það að fólk tengi við mína reynslu og það hjálpi því. Það er engin skömm að fá hjálp. Sem betur fer hefur mikið breyst á síðustu tíu árum og það er orðið mjög eðlilegt að fá andlega hjálp sem er frábært.“

Alda Lija er teiknari og deilir meðal annars teikningum sínum á Instagram en hún býr nú sem stendur í Amsterdam. Teikningarnar hjálpa Öldu Lilju að vinna úr tilfinningum sínum og eru meðal þeirra tóla sem Alda Lilja hefur safnað í verkfærakistu sína. Hún segir teikningarnar virka eins og ákveðin dagbók þar sem hún fær útrás. 

„Fyrir mig þá líður mér alltaf betur þegar ég er búin að teikna. Stundum þarf ég bara að krota smá á blað og enginn fær að sjá það. Stundum næ ég að gera tilbúna teikningu sem ég birti svo eða sýni vinum mínum. Stundum teikna ég bara til að draga athyglina frá því sem er að hrjá mig þann daginn. Það að birta svo teikningarnar er mjög gefandi, því ég fæ að spjalla við allskonar fólk sem er að ganga í gegnum svipaða hluti og það hjálpar mér að sjá að við erum öll svo svipuð með svipaðar tilfinningar og upplifanir. Allar tilfinningar sem ég finn fyrir hafa aðrir fundið fyrir, þess vegna finnst mér umræðan svo mikilvæg, sama hvort hún sé í listformi eða spjalli.“

Myndina teiknaði Alda Lilja.
Myndina teiknaði Alda Lilja. Ljósmynd/Aðsend

Þú hefur búið erlendis, hvernig finnst þér Íslendingar standa í umræðu um geðheilbrigði miðað við annars staðar í Evrópu?

„Mér finnst ég ekki alveg vera komin nógu vel inn í menninguna hérna til að geta dæmt það almennilega. Umræðan á Íslandi er ágæt finnst mér. Ég held að flest ungt fólk sé mjög opið fyrir umræðunni sem er frábært. Ég skil samt ekki að þjónustan sé ekki aðgengilegri á Íslandi en hún er eftir alla þessa umræðu. Þegar ég bjó í Bretlandi hafði ég aðgang að sálfræðingi í gegnum heilbrigðiskerfið mér að kostnaðarlausu, og hérna í Hollandi get ég fengið tíma í gegnum sjúkratrygginguna mína, sem er frábært. Ég þekki allt of marga á Íslandi sem hafa ekki efni á þessari þjónustu.“

mbl.is