Ég greinist með óvenjulegan, lítt ræddan geðkvilla fyrir mörgum árum. Fyrir viku greindist ég með krabbamein … í endaþarmi. En ekki hvað. Auðvitað fær einn forvitnasti skjólstæðingur Guðs hér á jörðu krabbamein á stað sem engan langar að vita um né ræða. Á næstu vikum og mánuðum mun endaþarmur minn verða umræddasti líkamsparturinn hvar sem ég kem. „Hæ Hildur, hvernig ertu í rassinum?“ verður spurning eins og „Hæ Hildur, hvernig svafstu?“ eða „Hæ Hildur hvernig gengur í vinnunni?“

Ég hafði samband við sálfræðiþjónustu Krabbameinsfélagsins í morgun, get ekki lagt allar mínar tilfinningar á fjölskyldu mína, þetta veit ég annars vegar sem atvinnukvíðaframleiðandi og hins vegar sem prestur.

Sálfræðingurinn hafði samband innan klukkustundar, ungur karlmaður, varfærinn og hlýr. Hann varð auðvitað að spyrja mig um greininguna, þá var ég nýbúin að segja honum að ég væri eiginlega pínu utan við mig af áfalli og sorg en fyndist samt svo gott að fá að tala við einhvern. Ég svaraði „jú ég er með endaþarmskrabba, staðbundið æxli meðhöndlanlegt, heppin í óheppninni, sumarið fer í að grilla á mér rassgatið“.

Sálfræðingurinn hló ekki. En svo fór ég á flug: „Heyrðu veistu ef ég get orðið ykkur seinna að liði og frætt um þetta mein þá endilega hnippið í mig, ég er hvort eð er vön að koma nakin fram, mitt hlutverk í lífinu er sem sagt ekki að vera virðulegur embættismaður heldur mennskan holdi klædd, samt nakin.“ „Já, við munum svo sannarlega eiga það inni þegar þar að kemur,“ svaraði sálfræðingurinn og í rödd hans mátti greina kímni, auðvitað fagmaður en sem betur fer ekki húmorslaus. „En nú er það þú sem þarft stuðning,“ bætti hann svo við. „Já, ég veit, enda hef ég fyrir löngu lært að ég verð aldrei of stór til þess,“ bætti ég við og þurrkaði tárin. Maður er aldrei of stór, of menntaður, of reynslumikill til að þiggja stuðning.

Amen