Keyrði á vegginn af fullum þunga einn laugardag í janúar

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir miðaldra kona og fasteignasali í sínum nýjasta pistli: 

2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu.
2 ár síðan ég náði ekki andanum.
2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt. 
2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið. 
2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns.

Hvernig er hægt að missa svona algjörlega tökin og sjá ekki fram úr neinu? Ég hef hugsað töluvert um það og þegar ég lít til baka þá sé ég að ég var búin að keyra ansi lengi á hnefanum. Ég held hreinlega síðan í Hruninu. Það er svakalega langur tími. Ég náði aldrei að núllstilla mig. Alltaf þegar ég hélt að ég væri komin með allt á hreinu kom nýtt áfall eða nýtt vesen. Ég stoppaði aldrei til að ná áttum og spyrja mig hvað skipti máli. Hvað vil ég og hvert er ég að fara? Ég leysti öll mín mál með því að fara mína leið og þeir sem voru ekki á sömu línu og ég, þeir gátu bara átt sig. Ég þurfti ekkert á þeim að halda. Ég vissi hvað var best fyrir mig og ég þurfti ekki að leita mér aðstoðar. Það eru aumingjar sem leita sér aðstoðar.  Ég er ekki aumingi.

Þegar kemur að skuldadögum

Ég keyrði á vegginn af fullum þunga einn laugardag í janúar 2018. Þetta var búin að vera erfið vinna í vikunni og ég var þreytt og punkteruð. Þetta var samt eðlilegt ástand fyrir mig.  Ég var þreytt, vann of mikið og hugsaði lítið um heilsuna og sjálfa mig. Ég kom heim og allt í einu fann ég að ég náði ekki andanum. Ég lagðist upp í sófa, ég fékk öran  hjartslátt og ég ofandaði á sama tíma og ég barðist við að ná andanum. Ég hágrét án þess að vita af hverju.  Ég varð skíthrædd og hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Næstu vikur á eftir voru gífurlega erfiðar. Ég barðist við að fara í vinnuna, að halda haus, að vera til staðar. Mér leið best undir sæng. Ég missti af ótal viðburðum því ég treysti mér ekki til að mæta. Ég las dánartilkynningar í Fréttablaðinu því ég öfundaði fólkið sem var þarna. Þetta var svo rólegur og afslappur staður og laus við öll vandamál. 

Frá botninum er besta spyrnan

Ég fór í gegnum nokkra mánuði af algjöru kerfishruni. Ég var hvergi til staðar, hvorki í vinnunni né fyrir börnin mín. Það kemur samt alltaf að því að þú nærð botninum. Ég náði mínum botni þegar ég missti af foreldrasýningu í fimleikum. Dóttir mín hljóp til mín og spurði, hvar ég hefði verið. Ég hefði verið eina mamman sem hefði ekki mætt. Ég skýldi mér á bakvið vinnu. Það er svo mikið að gera hjá mömmu í vinnunni. Þetta er svo góður frasi.  Í staðinn fyrir að taka á vandamálunum þá drekkir fólk sér í vinnu. Gallinn er samt að þú kemur litlu í verk þegar þú ert á þessum stað. Þú vinnur og vinnur en afköstin og framlegðin eru í engu samræmi við það. Á endanum náði ég botninum og þar með spyrnunni. Ég vissi að ég var að sigla í kaf og ég yrði að ná tökum á lífinu. Ég er einstæð móðir og er að reka fyrirtæki og það er enginn sem reddar mér. Ég var búin að ganga í gegnum tímabil þar sem ég svaf gífurlega illa. Ég tók sopril á kvöldin til að róa mig og reyna að ná góðum nætursvefni. Ég hef ekki tölu á skiptunum þegar ég vaknaði um miðja nótt og gat ekki sofið áfram. Að vera stressuð, þreytt, úttauguð og svefnlaus er banvæn blanda. 

Hlaupin bjarga geðheilsunni

Í lok apríl 2018 byrjaði ég að hlaupa. Það hafði alltaf blundað í mér að hlaupa 10 km í Reykjavíkur maraþoninu og ég sótti app sem var hlaupaforrit. Þegar ég byrjaði að hlaupa þá byrjaði ég að ná tökum á lífinu og sjálfri mér. Það er eitthvað við það að fara út og anda að sér fersku lofti.  Ég fór að sofa betur og smátt og smátt fór mér að líða betur og betur. Ég man ennþá þá tilfinningu þegar ég gat litið í spegil í fyrsta skipti og sagt við mig. Mér finnst þú frábær og ég er virkilega stolt af þér og svo ertu bara fjandi sæt líka. 

Sérfræðingur í ofhugsun

Þetta kvíðakast var samt ekki fyrsta panikkið mitt. Ég þjáðist af flughræðslu, lofthræðslu og innilokunarkennd. Þetta með flughræðsluna kom mér í opna skjöldu. Ég hafði alltaf notið þess að fljúga og flogið með allskonar rellum hér og þar um heiminn. Svo var það einn vetur að ég er að fljúga heim og ein flugfreyjan byrjar að kalla upp hvort að það sé læknir eða hjúkrunarfræðingur um borð. Þá hafði aðili sem sat fyrir framan mig orðið svona rosalega flughræddur. Það var fínt flug og notalegt en þetta sat í mér. Í lendingunni lentum við í mikilli ókyrrð og þetta varð eitt óþægilegasta flug sem ég hef farið í. Ég spáði ekkert meira í það fyrr en næst þegar ég fór í flug. Þá byrjuðu óþægindin um leið og ég kom inn í vélina.  Ég settist inn og mér fannst allt þrengja að mér. Ég byrjaði að ofanda og ég skildi ekkert í því hvað var í gangi. Lét mig hafa þetta og reyndi að slaka á. Þarna bölvaði ég stundum að drekka ekki, því það er ekki hægt að róa taugarnar með sódavatni. Þetta ágerðist svo með árunum.  Ég fékk róandi hjá homopata sem sló heilmikið á einkennin en samt aldrei nóg til að mér liði vel. Ég stressaðist upp við að heyra flugmanninn tilkynna að það væri möguleg ókyrrð framundan og stundum var ég örþreytt eftir flugið. Það tekur á að vera uppspennt í nokkra klukkutíma. Þegar ég var komin á þann stað að ég treysti mér ekki til að fljúga lengur  en í 2-3 tíma ákvað ég að leita mér fagaðstoðar. Ég fór á flughræðslunámskeið hjá Icelandair og læknaðist að fullu. Ég hef lent í allskonar ókyrrð eftir námskeiðið og aldrei verið neitt mál.

Innilokunarkenndin fór eiginlega að mestu af sjálfu sér en lofthræðslan var hins vegar stærra og meira mál. Sumarið 2006 fórum við upp í Holmenkollen sem er skíðastökkpallur í Osló til að njóta útsýnisins. Ég fór upp og ég byrjaði að ofanda og fá öran hjartslátt. Mér hafði aldrei liðið svona illa á ævinni. Ég bakkaði niður í einhverjum tryllingi og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Ég hafði oft verið smá lofthrædd, sérstaklega í fjallgöngum en þarna magnaðist hún heldur betur upp. Með árunum vatt hún svo mikið upp á sig að ég hætti að keyra út á land. Ég forðaðist aðstæður sem gætu valdið lofthræðslu eins og fjallgöngur og að fara út á svalir.  Þetta gekk ágætlega þar til ég byrjaði að æfa með Landvættum og ég setti mig í allskonar aðstæður þar sem ég þurfti að taka á lofthræðslunni. Að lokum var ég komin á þann stað að annað hvort myndi ég fara í meðferð eða ég myndi detta út úr programminu og gefast upp.  Ég valdi meðferðina og sé ekki eftir því.

Ókosturinn við ofhugsun

Í dag er ég mjög þakklát fyrir að hafa náð tökum á lífi mínu því gamla ég væri ekki að höndla þetta ástand í dag. Ég myndi ofhugsa allt saman og væri búin að bræða úr internetinu með því að googla allt sem ég gæti um Krónuvírusinn, smitleiðir, áhættuhópa og efnahagslegar afleiðingar. Ég myndi ekki sofa á nóttunni þrátt fyrir að innst inni vissi ég að 99% af því sem er í gangi er eitthvað sem ég hef enga stjórn á.  Ég væri á fullu að hugsa, hvað ef .... hvað ef þetta gerist, hvað ef þessi smitast, hvað ef ég ... Ég var sérfræðingur í Hvað Ef.

Málið er að hlutirnir gerast óháð því hvort að við höfum áhyggjur af því eða ekki. Við erum í óvissutímum. Við vitum ekki hvað er framundan eða hvað ástandið mun vara lengi. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og vera stressaður en þegar ég hugsa um allar andvökunæturnar sem ég átti útaf hlutum sem ég gat ekki stjórnað þá hefði verið betra að sleppa takinu. Kvíðin yfir einhverju sem kannski myndi gerast. Hversu oft gerðist það síðan ekki?

Gamla ég, hefði brugðist svona við. Guð minn góður ef þetta gerist þá getur þetta gerst. Ef þetta gerist af því að þetta gæti gerst og þá er þetta líkleg niðurstaða og svo yrði ég í einhverju panik mode að reyna að redda einhverju sem gæti mögulega gerst einhvern tímann í framtíðinni. Þetta er algjörlega galið. Rökhugsun og ofhugsun eiga nefninlega litla samleið.

Að læra að sleppa takinu

Róm var ekki byggð á einum degi. Það var meðvituð ákvörðun hjá mér að sleppa takinu. Það var gífurleg vinna, bæði sjálfsvinna og með sérfræðingum. Ég fór til sálfræðinga og það hjálpaði mér gífurlega mikið. Ég áttaði mig á því einn daginn að ég væri búin að missa hæfileikann á því að vera langrækin. Sagði við kærastann, „mikið svakalega varð ég pirruð þegar þú gerðir þetta“. Svo þurfti ég að stoppa og viðurkenna, „ég man ekkert hvað það var“. Mig rámaði í að það var eitthvað sem pirraði mig en ég mundi hins vegar ekkert hvað það var eða hvenær eða hvers vegna. Þetta fannst mér algjörlega frábært móment og ég nýt þess að lifa í núinu. Gamla ég var sérfræðingur í fortíðarþráhyggjur og ef það hefði verið keppt í langrækni og ofhugsun á Olympíuleikunum þá hefði ég fengið gull.

Ef það skiptir ekki máli eftir 5 ár ekki eyða meira en 5 mínútum í það

Ef þú hugsar til baka um öll skiptin sem þú ert búin að vera í taugaáfalli yfir einhverju.

Sambandinu sem gekk ekki upp.

Draumastarfinu sem þér var sagt upp.

Háskólanáminu sem þú féllst í.

5 árum seinna skiptir þetta ennþá máli? Ef ekki, hefði þá mátt koma í veg fyrir alla þessa vanlíðan? Þegar þú lendir í þessu þá er gott að muna að ekkert varir að eilífu. Auðvitað er drulluerfitt að vera fastur í hringiðunni og sjá enga leið út úr þessu en tíminn mun líða og fyrr en varir kemstu við upp á yfirborðið aftur.

Mín ráðlegging til allra sem sjá ekki alveg til lands í dag er að leita sér aðstoðar. Stundum er nóg að fara á trúnó með góðum vini. Stundum þarf meiri aðstoð. Hvað sem þú gerir ekki gera ekki neitt. Við erum öll með okkar vandamál og það versta sem við gerum okkur og þeim sem við elskum er að fara þetta á hnefanum. Það er líka gott að muna að það er ekki sjálfselska að setja sig og sína heilsu í fyrsta sæti. Ef þú ert ekki í lagi þá getur þú ekki verið til staðar fyrir aðra.

Ekki harka þetta af þér

Ég hugsa oft hvaða skilaboð við erum að senda krökkunum okkar, og þá sérstaklega litlu strákunum. Harkaðu þetta af þér, þetta er nú bara smá skeina. Þarna erum við að segja þeim hvernig þeir eiga að bregðast við og hvernig þeim á að líða. Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að bregðast við. Kannski var þetta ekki óttinn við skeinuna. Kannski var þetta óttinn við að detta sem þurfti að bregðast við. Það sem háði mér var að mér fannst mín vandamál svo óttalega ómerkileg í stóra samhenginu. Ég þurfti sálfræðing til að segja mér að mínar upplifanir og mínar tilfinningar eru jafnréttháar og annara. Þegar við segjum við einhvern, harkaðu þetta af þér, það eru aðrir sem hafa það verra en þú, þá erum við að segja að þú eigir ekki rétt á því að líða á ákveðinn hátt. Það á enginn að segja þér hvernig þér á líða. Það sem ég hef lært er að setja mig í fyrsta sæti. Ef ég er þreytt þá hvíli ég mig. Ég sleppi æfingu ef ég er illa stemmd.

Það ber enginn ábyrgð á þinni hamingju nema þú sjálf. Ef þú vilt breytingar þá þurfa þær að byrja hjá þér.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál