Dugleg að lyfta og mótfallin megrunarkúrum

María Ósk Valdemarsdóttir
María Ósk Valdemarsdóttir Ljósmynd/Aðsend

María Ósk Valdemarsdóttir býr í Danmörku þar sem hún starfar hjá lyfjaframleiðandanum Novo Nordisk og kennir hóptíma í líkamsræktarstöðinni Fitness World í Kaupmannahöfn. María Ósk finnur mun á líðan sinni þegar hún borðar ekki hollt og er alfarið á móti megrunarkúrum. 

„Fyrst og fremst gefur það mér orku og vellíðan,“ segir María Ósk þegar hún er spurð hvað það gefi henni að hugsa vel um heilsuna. „Ég finn mjög mikinn mun á skapinu og kem miklu meiru í verk.“

María Ósk stundaði grunn- og meistaranám í lyfjafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hún fór því snemma að standa á eigin fótum, elda og gera sinn eigin mat. Við það jókst áhuginn á heilsusamlegum lífstíl. „Þá fór ég að pæla mjög mikið í innihaldsefnum, samsetningu fæðu og hvernig hægt er að gera uppskriftir hollari,“ segir María Ósk. Áhugi á heilsu og hreyfingu hafði þó alltaf blundað í Maríu Ósk og frá því að hún man eftir sér var hún alltaf með mikla orku. 

Lyftir mikið

„Ég er mjög íhaldssöm þegar kemur að því að hreyfa mig og það gerist mjög sjaldan að ég detti í letigírinn. Auðvitað kemur það fyrir en um leið og ég fer af stað aftur þá finn ég hvað hreyfingin gefur mér mikla orku og ég vil halda áfram.“

María Ósk æfir sex sinnum í viku og segist aðallega lyfta. Hún tekur tvær til þrjár æfingar á viku þar sem hún leggur áherslu á neðri líkama og tvær æfingar þar sem hún leggur áherslu á efri líkamann. Einu sinni í viku tekur hún svo góða þolæfingu. 

Áttu þér uppáhaldsæfingu?

„Já algjörlega, en ég á  reyndar erfitt með að velja á milli réttstöðulyfta og mjaðmalyfta. Þær eru báðar í algjöru uppáhaldi og hafa verið það síðustu árin.“

María Ósk lyftir fjórum til fimm sinnum í viku.
María Ósk lyftir fjórum til fimm sinnum í viku. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert er bannað

„Þegar kemur að mataræði get ég alveg dottið í kæruleysisgírinn. Auðvitað er mikilvægt að leyfa sér óhollustu inn á milli en ég finn mjög mikinn mun á mér andlega þegar ég borða til dæmis of mikinn skyndibita eða nammi. Mér finnst skipta svo miklu máli að líða vel bæði líkamlega og andlega og það er klárlega það sem hvetur mig áfram. Þegar ég dett í kæruleysisgír í mataræðinu á ég mjög auðvelt með að stýra mér inn í hollustuna aftur.“ 

Þrátt fyrir að hollusta verði yfirleitt fyrir valinu hjá Maríu Ósk er hún mikill nautnaseggur.  

„Ég hugsa mjög mikið um mat sem orkugjafa. Ég elska mat, ég elska að elda góðan mat og baka. En eitt það versta sem ég veit er þegar mér líður illa af mat og það hvetur mig mjög mikið til að velja hollari kostinn. Ég veit að mér líður margfalt betur eftir á og ég fæ meiri orku. Upp á síðkastið hef ég svo prófað að leggja áheyrslu á að vera meðvituð um það sem ég borða, borða hægar og njóta matarins í stað þess að klára matinn á núll einni.

Ég er með eina mjög skýra reglu þegar kemur að mataræði og það er, það er ekkert bannað og allt er gott í hófi!“

María Ósk fór til útlanda í nám eftir menntaskóla og …
María Ósk fór til útlanda í nám eftir menntaskóla og þurfti því að elda sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Vonar að ræktin opni fljótlega

Í Danmörku hafa líkamsræktarstöðvar verið lokaðar vegna kórónuveirufaraldursins. Eftir ágætis byrjun bíður María Ósk nú eftir því að komast í ræktina. 

„Í byrjun fannst mér það ekkert mál og leit á þetta sem ákveðna áskorun. Ég hélt fast i sex æfingar á viku og einn hvíldardag. Þrátt fyrir mjög góða byrjun fannst mér það verða erfiðara og erfiðara með tímanum og vona innilega að ræktin opni fljótlega. Það hjálpar klárlega að plana æfingarnar og skrifa niður hvað ég ætla að gera. Um leið og ég er svo byrjuð og komin í gírinn man ég alltaf af hverju ég er að þessu. 

María Ósk segir þó að kórónuveirufaraldurinn hafi ekki bara haft slæm áhrif þar sem hún byrjaði á því að koma jóga inn í rútínuna sína eftir að líkamsræktarstöðvar lokuðu. 

„Eftir að við vorum send heim að vinna útaf kórónuveirunni er ég byrjuð að gera að minnsta kosti jóga í tíu mínútur á hverjum morgni til að byrja daginn, og ég elska það. Ótrúlegt hvað aðeins 10 mínútur geta gert mikið.“

Er eitthvað sem ber að varast þegar kemur að heilsusamlegu mataræði og hreyfingu?

„Af minni reynslu hafa megrunarkúrar skaðað meira en þeir hafa gagnast mér og ég mun alltaf mæla með lífstílsbreytingum hægt og rólega frekar en að hoppa á nýjasta megrunarkúrinn. Markaðssetningar fyrir megrunarkúra lofa oft öllu góðu en það gleymist oft að minnast á að í flestum tilvikum misheppnast þeir eða kílóin koma aftur. Oft ýta megrunarkúrar undir neikvæðar hugsanir um eigin líkamsmynd og það er eitthvað sem ég tel vera mjög skaðlegt fyrir andlega heilsu og getur ýtt undir mun óheilbrigðari lífstíl en nokkur aukakíló. Við erum öll svo ólík að það er ekki víst að eitthvað virki fyrir þig sem virkar fyrir aðra. Ég mæli alltaf með að maður hlusti á sinn eigin líkama og hafi fókus á andlega heilsu alveg eins mikið og á líkamlega heilsu.“ 

View this post on Instagram

★𝐒𝐡𝐨𝐮𝐥𝐝𝐞𝐫 𝐛𝐮𝐫𝐧𝐨𝐮𝐭 🔥 & 𝐂𝐚𝐫𝐝𝐢𝐨 ★⁣ ⁣ 𝐄𝐪𝐮𝐢𝐩𝐦𝐞𝐧𝐭𝐬: Dumbbells/weights & a chair ⁣ ⁣ 𝟏𝟓 𝐞𝐱𝐞𝐫𝐜𝐢𝐬𝐞𝐬, 𝟒𝟓 𝐬𝐞𝐜𝐨𝐧𝐝𝐬 𝐨𝐟 𝐰𝐨𝐫𝐤 𝐚𝐧𝐝 𝟏𝟓 𝐬𝐞𝐜𝐨𝐧𝐝𝐬 𝐫𝐞𝐬𝐭 𝐦𝐢𝐱𝐢𝐧𝐠 𝐮𝐩𝐩𝐞𝐫 𝐛𝐨𝐝𝐲 (𝐦𝐨𝐬𝐭𝐥𝐲 𝐬𝐡𝐨𝐮𝐥𝐝𝐞𝐫𝐬 𝐰𝐢𝐭𝐡 𝐬𝐨𝐦𝐞 𝐜𝐚𝐫𝐝𝐢𝐨)⁣ 𝟏. Side 2 side & swing arms up⁣ 𝟐. Lateral side raises ⁣ 𝟑. Front raises ⁣ 𝟒. Jumping jacks ⁣ 𝟓. Arnold press⁣ 𝟔. Bicep curls into press⁣ 𝟕. High knees ⁣ 𝟖. Snatches ⁣ 𝟗. Upright row ⁣ 𝟏𝟎. Run out-out-in-in⁣ 𝟏𝟏. 4x bicep curls while holding the other⁣ 𝟏𝟐. Push ups (narrow) ⁣ 𝟏𝟑. Front kicks with toe touches ⁣ 𝟏𝟒. Dips ⁣ 𝟏𝟓. Wide push ups ⁣ ⁣ I did 𝟑 rounds and guys I’m SO sore! It’s SO good to try every now and then to work 𝐎𝐍 𝐓𝐈𝐌𝐄 instead of counting the reps... because you have to KEEP ON GOING 🔥 ⁣ ⁣ Sore shoulders, sweaty and 𝐒𝐎 happy to be able to train outside in the sun 🤩☀️ ⁣ ⁣ I wish you guys a great weekend 😘 ⁣ ⁣ #fit #fitfam #fitness #fitdk #fitspo #home #workout #homeworkout #dailymotivation #fitspo #trainathome #training #hometraining #healthy #health #happy #styrketræning #cardio #arme #skuldertræning #hjemmetræning #goals #motivation #friday #workoutathome #staysafe #stayhome #upperbody #sun #weekend #weekendvibes

A post shared by 𝓜𝓪𝓻𝓲𝓪| 𝓗𝓮𝓪𝓵𝓽𝓱| 𝓕𝓲𝓽𝓷𝓮𝓼𝓼 (@mariaosk_dk) on Apr 24, 2020 at 2:43am PDT

mbl.is