Fastar í allt að 40 tíma í einu

Ellie Goulding ætlar að taka sér frí í haust.
Ellie Goulding ætlar að taka sér frí í haust. AFP

Tónlistarkonan Ellie Goulding greindi nýverið frá því í viðtali við breska miðilinn Mirror að hún fastaði í allt að 40 tíma í einu. Goulding hefur fengið gagnrýni eftir að hún greindi frá lífsstíl sínum en sjálf vill hún meina að hún fari varlega. 

Goulding segist bara drekka vatn og aðra drykki þegar hún fastar og segir hún það minnka bólgur. 

„Ég geri þetta mjög örugglega með því að passa upp á að borða næringarríkan mat dagana fyrir og eftir,“ sagði Goulding og sagði jafnframt að læknir hefði sagt þessa löngu föstu í lagi. „Föstur eru öruggar og nytsamlegar nema þú sért með sykursýki eða önnur heilsuvandamál,“ sagði tónlistarkonan. 

Tónlistarkonan segist hafa byrjað á því að fasta í 12 tíma og smám saman fastað í lengri tíma. Segir hún föstur frábærar til að veita meltingarkerfinu hvíld. 

Þrátt fyrir að Goulding segi fösturnar öruggar hefur hún fengið sinn skammt af gagnrýni á samfélagsmiðlum. Fösturnar eru meðal annars sagðar vera annað orð yfir átröskun. Goulding svaraði fyrir sig á Twitter. 

„Ég borða mjög mikið og æfi reglulega. Ég er mjög heilbrigð, ég drekk stundum, borða það sem mig langar í og fasta einn dag í viku. Það er ekki að svelta sig. Þegar kemur að fólki í sviðsljósinu þá tel ég mig vera góða fyrirmynd,“ tísti Goulding. 

Ellie Goulding.
Ellie Goulding. AFP
mbl.is