Þetta gerist þegar þú ferð meira út í náttúruna án raftækja

Ljósmynd/Unsplash

„Nú þegar allur heimurinn hefur nánast stöðvast er ljóst að lítið verður um utanlandsferðir hjá flestum. Við Íslendingar getum þá verið þakklátir fyrir að búa á landi þar sem tækifærin til að ferðast og heimsækja náttúruperlur af öllum mögulegum gerðum eru nær óendanleg,“ segir Guðmundur Freyr Jóhannsson læknir í sínum nýjasta pistli: 

Guðmundur Freyr Jóhannsson, lyf- og bráðalæknir.
Guðmundur Freyr Jóhannsson, lyf- og bráðalæknir.

En ferðalög um náttúruna eru ekki einungis skemmtileg dægradvöl. Flest, ef ekki öll, okkar hafa einhvern tímann upplifað þá andlegu og líkamlegu vellíðan sem fylgir því að vera úti undir berum himni í guðsgrænni náttúrunni. Áhrifin eru ekki bara tóm ímyndun því fjöldi rannsókna sýnir að þegar einstaklingar eyða tíma á grænum svæðum og í villtri náttúru, getur það haft margvísleg jákvæð heilsufarsleg áhrif.

Sem dæmi birtist fyrir örfáum árum samantekt á rúmlega 140 rannsóknum sem sýndi að í hópi þeirra einstaklinga sem eyddu mestum tíma á grænum svæðum var marktækt lægri tíðni á sjúkdómum á borð við sykursýki af tegund 2 og tíðni dauðsfalla af öllum orsökum, samanborið við þann hóp sem eyddi minnstum tíma þar. Þá benda rannsóknir enn fremur til þess að eftir því sem grænum svæðum í borgum fjölgar og meira fjármagni er veitt í almenningsgarða hefur það fylgni við heilbrigði og lægri dánartíðni hjá íbúunum.

Þá er til fjöldi rannsókna sem benda til jákvæðra áhrifa á andlega líðan við það að vera í snertingu við náttúrulegt umhverfi. Jafnvel eru til rannsóknir sem sýna að myndir og hljóð frá náttúrunni geti haft jákvæðari áhrif á andlega líðan og streitu samanborið við myndir og hljóð úr borgum.

Í Japan er stundað nokkuð sem kallað er „shinrin-yoku“ eða „skógar-böðun“ sem snýst einfaldlega um að rölta um skóglendi og virða náttúruna fyrir sér í rólegheitunum. Lykilatriðið er að skilja öll tæki og tól eftir og virkja skilningarvitin til að meðtaka umhverfið. Samhliða vaxandi áhuga hefur rannsóknum á skógarböðun fjölgað mikið síðustu árin og virðast niðurstöðurnar vera samhljóma um að andleg og líkamleg áhrif eftir skógarböðun séu meiri og jákvæðari en við sams konar athafnir í borgarumhverfi, svo sem marktækt lægri blóðþrýstingur og púlshraði, lægri styrkur streituhormóna og meiri virkni í slökunarhluta ósjálfráða taugakerfisins.

Í dag býr um helmingur jarðarbúa í þéttbýli og fer þetta hlutfall sífellt hækkandi. Sorglega staðreyndin er sú að samhliða þessu fjölgar þeim einstaklingum sem missa tengslin við náttúru og útivist. Sem dæmi sýndi rannsókn í byrjun aldarinnar að Bandaríkjamenn eyða að jafnaði rúmlega 90% af tíma sínum innandyra. Sem viðbrögð við þessu hafa læknar í mörgum löndum jafnvel byrjað að „ávísa náttúru“ til sjúklinga sinna.

Hvort íslensk náttúra hafi sömu áhrif og japanskir skógar skal ósagt látið en þegar öllu er á botninn hvolft þurfum við ekki endilega vísindin til að segja okkur hvaða áhrif náttúran hefur á okkur. Við þurfum bara að fara út og upplifa hana.

mbl.is