Er hægt að stunda of mikla sjálfsfróun?

Sérfræðingar segja hollt að stunda sjálfsfróun en stundum geti atferlið …
Sérfræðingar segja hollt að stunda sjálfsfróun en stundum geti atferlið farið úr böndunum. Ljósmynd/Colourbox

Á vef tímaritsins Womens Health má finna áhugaverða grein sem fjallar um álit sérfræðinga á sjálfsfróun. Ef þú ert ein/einn þeirra sem hefur velt fyrir sér hvort hægt sé að gera of mikið af þessari iðju, þá er eitt víst og það er að sérfræðingar vita meira um málið en margir aðrir. 

Í greininni kemur fram að margir hafi upplifað tímabil þar sem iðjan fer yfir eðlilegt viðmið. Fólk skaðar sig sjaldnast við iðjuna, en sjálfsfróun getur haft áhrif á sambönd.  

Sérfræðingurinn Sadie Allison Phd, segir sjálfsfróun góða leið til að slaka á og minnka kvíða. Vegna þess að þegar fólk fær fullnægingu, þá losna allskonar efni út í líkamann sem róa og bæta svefninn svo dæmi séu tekin. 

Sjálfsfróun getur einnig aukið sjálfsvirðingu fólks og öryggi í svefnherberginu með makanum að mati Allison. Enda sé erfitt að vita hvað er hægt að fá út úr kynlífinu ef einstaklingur kann ekki á sjálfan sig á þennan hátt. 

Kate Balestrieri Phd í sálfræði segir hins vegar að ef fólk er of mikið að stunda sjálfsfróun og þá með hjálpartæki geti það hindrað að upplifa ánægju með makanum og jafnvel hindrað að einstaklingurinn fái fullnægingu í kynlífinu. Enda getur makinn aldrei gert það sama og hjálpartækið gerir. 

Það ætti hins vegar enginn að óttast doða til framtíðar, því ástandið mun ekki vara að eilífu. Mælst er til þess að setja hjálpartækið til hliðar í viku eða svo og sjá þá hvað gerist í framhaldinu. 

Balestrieri bætir við að of mikil sjálfsfróun geti eyðilagt sambönd. Þar sem það geti tekið dýrmætan tíma frá sambandinu, búið til allskonar óeðlilega hegðun, feluleiki og fantasíur sem eiga ekki stoðir í raunveruleikanum. Þetta verður einnig áberandi hjá aðilum sem nota klám. Klám getur að hennar mati búið til forðun í sambandi og óraunhæfar kröfur og væntingar í kynlífinu. 

Gullna reglan virðist vera sú að ef það sem þú ert að gera hverju sinni fer yfir mörkin þín eða maka þíns, þá er það vanalega eitthvað sem þú ættir að skoða betur, að mati sérfræðinga. 

mbl.is