Þarmaflóran hefur áhrif á húðina

Lára G. Sigurðardóttir læknir.
Lára G. Sigurðardóttir læknir.

Sumarið er tími safapressunnar. Þegar ferskir ávextir og brakandi grænmeti birtist í búðum hljóma kaldpressaðir safar hlaðnir vítamínum hreint ekki svo illa – eða hvað? Í hófi eru þeir líklega góðir til að hvíla meltinguna en jafnframt sjá líkamanum fyrir góðum næringarefnum en með þessari vinnsluaðferð erum við að hreinsa burt afar mikilvæga næringu, sem kemur við sögu síðar.

Bólgusjúkdómar í húð tengdir þarmaflórunni

Tiltölulega stutt er síðan vísindamenn fóru að skoða tengsl milli húðar og þarma en nú lítur út fyrir að húðin geti gefið okkur innsýn í ástand þarmanna, a.m.k. hjá sumum. Vísbendingar eru um að húðkvillar eins og bólur, exem, húðbólgur og rósroði geti tengst ójafnvægi í þarmaflórunni. Hingað til hafa þessir sjúkdómar oft og tíðum verið meðhöndlaðir með lyfjum en í Bandaríkjunum er æ algengara að meðhöndla þessa kvilla með næringu. Þegar öll lyf hafa brugðist, þá hefur fólk náð undraverðum bata með því að breyta mataræðinu.

Við erum meira en það sem við borðum

Oft er sagt að við séum það sem við borðum en í raun erum við það sem þarmarnir taka upp og frumurnar geta nýtt sér. Þar kemur örveruflóran við sögu. Í þörmunum er heilt samfélag af ósýnilegum verum sem þarmaflóran samanstendur af og við köllum partígesti því þeir eru ekki partur af genamengi okkar heldur mættu á svæðið eftir að við fæddumst.

Partígestirnir eru ekki þarna bara til að skemmta sér heldur hjálpa til við að næra líkama okkar svo hann starfi eðlilega. Þeir launa gestrisnina með því að standa vörð um þarmavegginn og búa til mikilvæg næringarefni úr trefjum sem við getum ekki melt. Stuttar fitusýrur eru ein afurð þeirra. Þær eru m.a. taldar hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið auk þess að stjórna sérhæfingu stofnfrumna í hársekkjum og gróanda sára, svo dæmi sé tekið. Talið er að þarmaflóran sjái okkur fyrir um helmingi K-vítamíns og því eðlilegri blóðstorku. Ef við erum marblettagjörn getur það bent til skorts á K-vítamíni. Einnig hefur verið sýnt fram á að ákveðin tegund af þarmaflóru geti framleitt fitusýrur sem hafa bakteríuhamlandi áhrif. Þetta er bara brot af starfsemi þarmaflórunnar.

Skaðræðisseggirnir

Hjálplegu gestirnir vinna best ef þeir fá nóg af trefjum í heilnæmu umhverfi. Ef aðstæður breytast, eins og eftir langvarandi sýklalyfjagjöf eða ruslfæði, þá veikjast þeir og slæmu gestirnir verða fyrirferðarmeiri. Vestrænt fæði eins og skyndibiti, sætindi eða unnar matvörur (t.d. hvítt hveiti og hvítur sykur) gefur skaðlegu flórunni eldsneyti. Þegar jafnvægið raskast er hætta á að varnarveggurinn veikist. Nú eiga slæmu bakteríurnar, eiturefnin sem þær senda frá sér og ómelt næringarefni greiðari leið inn í kroppinn sem ræsir ónæmisfrumurnar og setur þar með bólguferli af stað.

Hvernig þessu samspili þarmaflórunnar og húðarinnar er háttað er ekki fyllilega ljóst en erfðaefni baktería úr þörmunum hefur verið einangrað úr blóði psóríasissjúklinga, svo dæmi sé tekið. Auk þess eru afurðir skaðlegra baktería eins og Clostridium difficile taldar geta endað í húðinni og truflað þar endurnýjun ysta húðlagsins með tilheyrandi rakatapi og húðþurrki.

Veislumatur fyrir trilljónir partígesta

Mataræði leikur stórt hlutverk í þarmapartíinu og þegar þú borðar ertu ekki einungis að næra líkamann heldur einnig fjölmennustu partísamkomu sem þú hefur hýst eða um hundrað trilljónir örvera. Hvað við látum ofan í okkur hefur þannig áhrif á hversu hraustir hjálplegu gestirnir eru. Jafnan er talað um tvær leiðir til að halda gestunum góðum: Að gefa þeim bætibakteríuörvandi mat (e. prebiotics) og meltingargerla (e. probiotics).

Þegar við pressum safa þá hreinsum við burt trefjarnar, sem eru mikilvægt bætibakteríuörvandi fæði fyrir góðu gestina. Því er mun hollara að gera sér safa með því að setja hann í blandara en safavél. Til að fæða flóruna skaltu hugsa um trefjar (flókin kolvetni) úr plönturíkinu, t.d. baunir, ávexti og grænmeti. Þegar góðu örverurnar fá trefjar taka þær kipp og fjölga sér. Eitt sinn töldum við að trefjarnar þjónuðu einungis þeim tilgangi að gera hægðirnar mjúkar en ekki of mjúkar. En nú við vitum að örverurnar nýta trefjarnar til að framleiða mikilvæg næringarefni eins og fyrr sagði.

Matur sem hefur verið látinn gerjast, t.d. jógúrt, kefír og súrsað grænmeti (kimchi), inniheldur lifandi meltingargerla sem oftast eru góð viðbót við þarmaflóruna, svo lengi sem ekki er búið að setja mikið af sykri eða salti saman við. Talsvert af rannsóknum hefur sýnt að meltingargerlar, þá aðallega ýmsar tegundir af lactobacillus, geta minnkað einkenni ýmissa húðkvilla. Mikið úrval af gerlum er í boði og best að ráðfæra sig við fagfólk ef maður hefur áhuga á að prófa slík fæðubótarefni.

Engin ein uppskrift fyrir alla

Þarmaflóran er ólík milli manna og því er ekkert eitt fæði sem hentar öllum, líkt og ekki er hægt að steypa okkur öll í sama mót. Mikilvægast er að læra inn á eigin líkama og verða meðvitaður um hvernig hann bregst við ákveðnum mat. Opinberar ráðleggingar frá Embætti landlæknis eru góðar til að styðjast við en sumir geta þurft að aðlaga þær. Sem dæmi náðu synir mínir ekki heilsu fyrr en við foreldrarnir settum þá á mjólkurlaust fæði.

Að sjálfsögðu eru margar mögulegar orsakir húðkvilla og oftast á í hlut sambland umhverfis- og erfðaþátta. Partígestirnir eru bara einn áhrifavaldur á heilbrigði húðarinnar. Við eigum eftir að auka skilning okkar enn frekar á mikilvægi heilbrigðs samlífis við þessar örverur sem eru taldar fyrstu lífverur jarðarinnar.

„Menn eru eins og kórall; samkoma lífvera sem lifa saman.“ – Dr. David Relman, læknir og örverufræðingur við Stanford-háskóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »