Óvíst hvort fólk nái sér að fullu eftir kynferðisofbeldi

Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur segir áhugavert að vinna með fólki með …
Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur segir áhugavert að vinna með fólki með erfiða reynslu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dr. Gyða Eyjólfsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði, er eigandi EMDR stofunnar sem sérhæfir sig í áfalla- og sálfræðimeðferð. Hún vinnur með skjólstæðingum sem hafa m.a. lent í kynferðislegri misnotkun. Hún segir fyrsta tímann oft erfiðan hjá skjólstæðingum en það sé virkilega gefandi að fylgjast með breytingum hjá fólki. 

Í viðtali sem birtist nýverið var rætt við skjólstæðing Gyðu sem segir EMDR-meðferð það eina sem hefur virkað fyrir hana. Gyða getur ekki tjáð sig um þennan skjólstæðing eða meðferð hans þar sem sálfræðingar eru bundnir trúnaði varðandi það sem skjólstæðingar þeirra ræða í sálfræðimeðferð.

„Þegar ég fæ nýjan skjólstæðing sem vill vinna úr kynferðislegri misnotkun og afleiðingum hennar, þá spyr ég alls konar spurninga um líf viðkomandi. Þar með talið um alla áfallasöguna og kortlegg hvar er best að byrja að vinna. Ég met meðal annars hvort skjólstæðingurinn sé tilbúinn í áfallaúrvinnslu, hvort hann hafi tileinkað sér ýmiss konar bjargráð sem hann getur nýtt sér á milli viðtala til að hlúa að sér og takast á við erfiðar tilfinningar sem geta komið upp í úrvinnslunni og haft áhrif á hann næstu daga á eftir. Ef skjólstæðingurinn hefur ekki nægileg bjargráð þá byrja ég á að kenna þau áður en farið er í áfallavinnu. Ef um er að ræða skjólstæðing með flókna áfallastreituröskun þar sem hugrof (e dissociation) er eitt einkennanna þarf viðkomandi frekari undirbúning yfirleitt áður en hann er tilbúinn í áfallaúrvinnslu. Í meðferðinni nota ég EMDR-áfallameðferð.“

Gyða segir flesta halda að sálfræðingar séu alltaf að hlusta á vandamál í vinnunni. Það segir hún langt frá veruleikanum. 

„Yfirleitt fer fyrsti tíminn í að hlusta á af hverju einstaklingurinn er að leita sér aðstoðar og þá er farið yfir það sem kalla má vandamál og stundum eru sögurnar verulega alvarlegar. Þegar ég fæ skjólstæðing sem segir frá mjög erfiðum upplifunum, ýmiss konar áföllum og erfiðum langvarandi afleiðingum í þessum fyrsta tíma þá sýni ég skjólstæðingnum samkennd, skilning og hlýju. Ég útskýri fyrir honum hvernig við getum unnið með þessar upplifanir og líðan og það gefur viðkomandi von um að það sé hægt að hafa áhrif á líðan hans og honum geti liðið betur. 

Sjálf upplifi ég eiginlega alltaf mikla tilhlökkun því ég veit að ég á verkfæri sem ég get nýtt í slíka vinnu og ef skjólstæðingurinn er tilbúinn til að vinna í sínum málum þá veit ég að slík samvinna á eftir að skila viðkomandi mun betri líðan, meira sjálfsöryggi, minni kvíða, betri lífsgæðum, minni depurð, meiri gleði, meiri samkennd í eigin garð, og fleira. Þannig að jú, vissulega er fyrsti tíminn oft erfiður og erfiðar tilfinningar sem koma upp hjá skjólstæðingnum en um leið og hægt er að byrja að vinna er virkilega gaman og gefandi að fylgjast með breytingunum hjá skjólstæðingum.“

Hversu djúpstæð eru áföll hjá fullorðnum einstaklingi sem hefur lent í áfalli á kynferðissviðinu í æsku?

„Það er mjög misjafnt í raun eins misjafnt og skjólstæðingar eru margir. Ýmislegt getur haft áhrif. Það skiptir máli hvort atvikið hafi verið einu sinni eða oftar. Hveru alvarlegt brotið var, viðbrögð skjólstæðings. Hvort hann hafi frosið. Hvernig viðkomandi tengdist gerandanum. Var þetta foreldri, fjölskyldumeðlimur, nágranni og þar fram eftir götunum. Upplifði hann mikinn hrylling og vanmátt og hjálparleysi? Gat einstaklingurinn leitað til einhvers og sagt frá? Hvernig brást nærumhverfið við? Hvernig brugðust foreldrar við? Allir þessir þættir geta haft áhrif og spilað inn í hversu djúpstæð áhrifin af misnotkuninni voru.“

Hversu mörg ár þarf einstaklingur að vinna í sér til að öðlast fullt frelsi frá áfallinu? 

„Það er mjög misjafnt og velta má fyrir sér hvort maður öðlist einhvern tímann fullt frelsi frá áfallinu því það er ekki eins og slíkar minningar verði nokkru sinni gleðilegar þótt búið sé að vinna þær þannig að þær framkalli ekki áfallastreitueinkenni lengur. Það getur komið upp bakslag seinna meir ef eitthvað kemur upp á, t.d. ef einhver nákominn lendir í kynferðisofbeldi, eða kemur í ljós að gerandinn beitti annan kynferðisofbeldi, eða aðrar kveikjur. 

Eitt atvik getur tekið 3-10 viðtöl að vinna úr, ef afleiðingarnar hafa ekki verið langvarandi.  Margra ára kynferðisofbeldi tekur lengri tíma, eðlilega, og það eru svo margir þættir sem spila þarna saman. Hversu þétt getur viðkomandi mætt og þar spilar fjárhagur inn í. Getur hann verið vikulega í viðtölum? Hversu góð bjargráð á hann við upphaf meðferðar? Hefur hann unnið í sér áður og er t.d. mjög flinkur í samkennd, núvitund og/eða kann ýmislegt t.d. í hugrænni atferlismeðferð? Þetta styttir okkar vinnu verulega. Hversu hratt vinnur hann úr minningu?

Sumir vinna eina minningu niður á einu viðtali meðan aðrir þurfa nokkur viðtöl í að vinna úr minningu. Svo er spurning hversu margar minningar viðkomandi þarf að vinna – hversu vel alhæfast úrvinnslurnar?“

Hvað er það sem dró þig að EMDR-meðferðinni?

„Ég hafði ákveðna fordóma fyrir EMDR-meðferðinni í doktorsnáminu mínu og hafði hugsað mér að læra hana ekki. En á lokaárinu mínu í náminu var ég með 2 handleiðara sem sögðu að EMDR-meðferð væri hjálplegasta meðferðin sem þeir höfðu lært og þá ákvað ég að fara á námskeið. Þar heillaðist ég af aðferðinni og þá var ekki aftur snúið! Þegar ég flutti svo til Íslands voru mjög fáir sem kunnu að beita þessari meðferð, en við sem vorum að nota meðferðina hittumst reglulega fyrstu árin og handleiddum hvert annað, en alla einstaklingshandleiðslu á EMDR-meðferðina sótti ég mér í gegnum síma til Bandaríkjanna.  Mig langaði gjarnan í stærra samfélag EMDR-meðferðaraðila og fór því að flytja inn kennara til að kenna íslenskum meðferðaraðilum að beita aðferðinni. Síðustu 10 ár hafa um 180 manns bæst í hópinn og því komið sterkur og góður hópur. Til viðbótar eru um 10 af þeim komnir með hæfnivottun frá EMDR Europe-samtökunum og EMDRIA-stofnuninni í Bandaríkjunum. Við erum komin með 3 hæfnivottaða handleiðara, aðstoðarkennara og búin að stofna fagfélagið EMDR á Íslandi. Stofnun EMDR-stofunnar var svo draumur sem rættist en þar eru núna 16 meðferðaraðilar sem hafa sérhæft sig meðal annars í EMDR meðferðinni, og við erum innilega þakklátar fyrir svona öflugt verkfæri sem EMDR-meðferðin er.“

Gyða er einn eiganda EMDR-stofunnar.
Gyða er einn eiganda EMDR-stofunnar. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is