Hljóp af sér 77 kíló

Bautista hleypur 25 kílómetra fimm sinnum í viku í dag.
Bautista hleypur 25 kílómetra fimm sinnum í viku í dag. skjáskot

Cristina Bautista var tæplega 140 kíló þegar hún var sem þyngst. Eftir að unnusti hennar hélt fram hjá henni með annarri konu og gerði hana ólétta lenti hún á botninum og ákvað að breyta um lífsstíl.

Til að byrja með var gremjan út í fyrrverandi unnustan það sem dreif hana áfram en að lokum náði hún að breyta hugarfarinu og fór að hugsa um heilsuna fyrir sjálfa sig. Í pistli á Prevention segir Bautista sögu sína. 

„Brúðkaupið mitt átti að vera þann 31. október árið 2015. Seint í ágúst fékk ég símhringinu frá hjákonu unnusta minns. Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri til en hún sagði mér að hún væri gengin fjóra mánuði með barnið þeirra,“ segir Bautista. 

Hún segir að fyrst hafi hún kennt sjálfri sér um. Hún væri 140 kíló, feit og ljót og þess vegna hélt hann fram hjá henni. „Í höfðinu á mér, þá var ég hrædd um að finna aldrei neinn aftur. Ég hafði verið látin trúa því allt mitt líf að ég ætti að vera þakklát fyrir að fá allt sem ég gat fengið. Þannig ég ákvað að harka af mér, fyrirgefa honum og hjálpa til við að ala upp barnið,“ segir Bautista. 

Tveimur vikum seinna sendi hjákonan henni skjáskot af skilaboðum þar sem unnustinn sagðist elska hjákonuna. Eftir það ákvað hún að hætta við að harka af sér og fyrirgefa honum. Þau hættu saman. 

„Því fylgdi skelfilegt þunglyndi og ég sökk svo langt niður að ég reyndi að taka mitt eigið líf. Ég man eftir að hafa vaknað á spítalanum í byrjun október og hugsað núna er komið nóg. Ég verð að breyta einhverju.“

Hana hafði alltaf langað til að hlaupa og dáðst að hlaupurum. En þyngdar sinnar vegna hélt hún að hún myndi aldrei geta hlaupið. 

„Ég var svo hrædd um að fólk myndi dæma mig, að sjá svona feita stelpu úti í rassgati, benda og hlæja. Það hélt alltaf aftur af mér.“

Þegar hún útskrifaðist af spítalanum ákvað hún að láta á það reyna. Hún hafði alltaf átt í stríði við vigtina frá því hún var 12 ára og gert margar tilraunir til að létta sig.

„Vandamálið við allar þessar tilraunir var að ég trúði aldrei á sjálfa mig. Ég tók því sem gefnu að ég væri feit, vantaði hvatningu og langaði ekki til að breytast. Í þetta skiptið vildi ég svo innilega að þetta myndi ganga vel,“ segir Bautista. 

Fyrstu sex mánuðina hugsaði hún um fyrrverandi unnusta sinn þegar hún var á hlaupaæfingum. „Það var mitt bensín. Ég vissi samt að það myndi ekki duga endalaust. Ég kveikti á því þegar ég var búin að selja allt sem ég átti og keypti miða aðra leið til Taílands.“

Hún fór í bakpokaferðalag um Suðaustur Asíu og hljóp í hvert skipti sem hún gat. Þegar hún kom aftur til Bandaríkjanna í apríl 2016 var hún búin að léttast um 22 kíló og þá fór hún að hlaupa fyrir alvöru. 

Á fyrstu 10 mánuðum missti hún 56 kíló og að endingu er hún búin að léttast um 77 kíló í heildina. 

Í dag hleypur hún um 25 kílómetra fimm sinnum í viku og um 12 kílómetra einu sinni í viku. Hún hefur tekið þátt í öllum tegundum af hlaupum frá 5 kílómetrahlaupum upp í heilt maraþon. 

„Ef þig langar bara til að léttast til að verða aðeins heilbrigðari, endilega gerðu það, en ekki gera það af því að þig langar til að passa inn. Það er það mikilvægasta og það mun hjálpa þér á þessu ferðalagi. 

Þegar þig svíður í lungun og þér líður eins og fæturnir beri þig ekki, legðu enn harðar að þér. Ég lofa að það mun vera þess virði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál