Af hverju borðum við of mikið og hvað er til ráða?

Af hverju borðum við of mikið?
Af hverju borðum við of mikið? mbl.is/ThinkstockPhotos

„Það að borða of mikið, þ.e.a.s. að borða umfram það sem við þurfum, er orðið algengt vandamál í nútíma vestrænu þjóðfélagi. Þetta er í raun það algengasta vandamál sem fólk vill vinna með þegar það leitar til mín í heilsumarkþjálfun. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að borða of mikið,“ segir Þórey Krist­ín Þóris­dótt­ir, sál­fræðing­ur og heil­su­markþjálfi, í sín­um nýj­asta pistli á Smartlandi.

Í fyrsta lagi er aðgengi að mat orðið allt of auðvelt. Þegar ég var að alast upp (úti á landi) voru einungis tvær kjörbúðir og voru þær með takmarkaðan afgreiðslutíma. Auk þessara tveggja kjörbúða voru einungis einn til tveir matsölustaðir í bænum. Þótt þetta hafi verið lítill bær út á landi þá er aðgengi að mat orðið mun meira og auðveldara þar í dag en það sem áður var. Afgreiðslutími matvörubúða er orðinn mun sveigjanlegri auk þess að úrval veitingastaða er orðið mun meira. Miðað við þær breytingar sem hafa einungis átt sér stað í þessu litla bæjarfélagi getur maður rétt ímyndað sér hver þróunin hefur verið í stærri sveitarfélögum og á höfuðborgarsvæðinu.

Hér í Kaupmannahöfn, þar sem ég bý, er mikið úrval af matvörubúðum og veitingastöðum, auk þess að hægt er að fá mat á útsölu á mörgum veitingastöðum í lok dags. Aðgengi að mat er orðið svo auðvelt að þú þarft ekki einu sinni að fara út úr húsi til að kaupa inn. Netverslanir með mat er þjónusta sem er sífellt að verða algengari. Einstaklingur sem var í heilsumarkþjálfun hjá mér sagði mér frá því að hann pantaði oft og tíðum mat úr matvörubúð á netinu og fékk hann sendan heim til sín á nóttunni. Þannig að ef þú ert andvaka á nóttunni og langar í eitthvað að borða og vilt ekki eyða miklum pening í skyndibita, þá getur þú fengið mat heimsendan úr netverslun fyrir lítinn pening.

Ekki er hægt að neita því að það getur verið þægilegt og mikill tímasparnaður falist í því að kaupa í matinn á netinu. Ég mæli hins vegar með því að ef þú ákveður að kaupa í matinn á netinu, að þú rennir yfir það sem þú hefur pantað áður en þú greiðir og athugir hvort þetta sé allt nauðsynlegt? Eins og heilsumarkþjálfinn minn sagði eitt sinn við mig, ef þú átt ekki Ben og Jerry-ís í frystinum þá getur þú ekki borðað hann. Eftir því sem aðgengið að óhollum mat er erfiðara því ólíklegra er að þú borðir hann. Ef þú ert að fara upp í sumarbústað eða útilegu og kaupir þér snakk og sælgæti fyrir ferðina er mjög líklegt að þú borðir það allt saman. Ef þú hins vegar staldrar aðeins við og reynir að velja þér hollari valmöguleika er líka líklegra að þú borðir hann. Ég er ekki að segja að þú þurfir að hætta að borða sælgæti, ég mæli frekar með því að þú veljir hollari og betri valmöguleika, t.d. er kókosbitinn frá Himneskri hollustu mun betri valkostur en Snickers-súkkulaðistykki. Innkaupalisti og matarskipulag fyrir vikuna kemur þér langt því ólíklegt er að þú planir það fyrir fram að borða sælgæti eftir vinnu næsta þriðjudag sem dæmi.

Í öðru lagi er miklu meira stress í dag en áður fyrr og þegar við erum undir álagi notum við umframorku og sjálfsstjórn okkar verður minni. Auk þess kallar líkaminn á sykraðan mat þegar streituhormónin eru í auknum mæli. Reyndu að staldra við og hugsa þig um áður en þú hleypur í óhollustuna. Ég heyri þessa setningu oft frá mínum skjólstæðingum, „ég er svo góð/góður við sjálfan mig“. En ertu það virkilega? Er sykraður matur að gera þér gott? Er yfirþyngd góð fyrir þína líkamlegu og andlegu heilsu? Ert þú besta útgáfan af sjálfri/sjálfum þér þegar orkan er lág og af skornum skammti?

Í þriðja lagi, tækni. Við treystum mikið á tæknina til að skemmta okkur eða til að halda okkur uppteknum og örvuðum. Hins vegar eru margir sem borða nær alltaf fyrir framan skjá. Hvort sem það er spjaldtölva, sjónvarp eða sími, það virðist ekki skipta máli. En það sem gerist þegar við borðum fyrir framan skjáinn er að við erum ekki til staðar. Þú getur ekki einbeitt þér að því að borða og tekið þátt í því sem gerist á skjánum á sama tíma. Þetta verður oft til þess að við borðum of mikið. Við náum ekki að fylgjast nógu vel með inntöku matar á sama tíma og athyglin er á skjánum. Ég mæli með að þú reynir að vera til staðar þegar þú borðar því þá verður hættan á ofáti mun minni. Að auka meðvitund á matarinntöku okkar er mikilvægt skref í átt að heilbrigðari lífsstíl.

Sendu fyrirspurn eða bókaðu „online“ tíma: https://mindtherapy.dk/en/home/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál