Erna Hrönn var alltaf á fullu og lenti á vegg

Erna Hrönn lenti á vegg í desember 2019.
Erna Hrönn lenti á vegg í desember 2019. Ljósmynd/Gassi

Söngkonan Erna Hrönn Ólafsdóttir var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþáttunum Snæbjörn talar við fólk. Erna Hrönn lenti á vegg fyrir jólin 2019 og hefur verið í mikilli sjálfsvinnu síðastliðna mánuði. 

„Það er ekki langt síðan ég þurfti að setja fótinn niður af því ég keyrði mig í kaf, bókstaflega. Þetta endaði svo í harkalegum árekstri á vegg núna fyrir jólin,“ segir Erna Hrönn í samtali við Snæbjörn. 

Erna Hrönn talar um að hún hafi verið undir miklu álagi síðastliðin ár og tekið að sér mörg verkefni. Hún var á fullu í tónlistarbransanum og tók þátt í mörgum verkefnum á því sviði. Þar að auki starfaði hún á nokkrum útvarpsstöðvum. 

Hún segist hafa lent í fyrsta árekstrinum árið 2008 þegar hún var að klára háskólanám. Eftir lokaprófið lagðist hún upp í rúm og tárin streymdu. „Ég hugsaði bara: ég er að fá taugaáfall. Þarna hefði ég átt að stoppa og staldra við og hugsa hvernig ég ætti að hlaða mig,“ segir Erna. Það gerði hún hins vegar ekki og hélt áfram. 

Hún segir að í gegnum árin hafi hún fengið uppáskrifuð geðlyf og þunglyndislyf en ekki fundist þau gera neitt gagn og því hafi hún ákveðið að harka bara af sér. 

Í þættinum opnar Erna sig um mörg áföll sem hún hefur lent í á síðustu árum. Hún greinir frá fósturmissi og grófu kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir. 

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.mbl.is