Hélt hún væri með kvíða en það reyndist vera alkóhólismi

Megan Camille skrifaði áhugaverða grein nýverið um kvíða sem hún …
Megan Camille skrifaði áhugaverða grein nýverið um kvíða sem hún fékk út af drykkju á léttvíni.

Megan Camille er ein þeirra kvenna sem hafa stigið fram og talað um hvernig þær notuðu léttvín til að ráða við álagið sem fylgdi móðurhlutverkinu. Hún er laus við alla skömm og ótta við að vera dæmd fyrir það sem hún hefur að segja. Hún heldur því fram að menningin í dag sé þannig að fólk sé algjörlega sjúkt í áfengi og því megi fátt segja satt um þennan vímugjafa. 

Camille segir að hún hafi ekki þurft að ná botninum í áfengisneyslu. Hún náði að hætta að drekka áður en hún missti allt og í dag er hún ánægð með ákvörðun sína. Um þetta má lesa á vefsvæði hennar: Un-Rock Bottom.

Hún skrifaði nýverið áhugaverða grein um hvernig dagleg neysla léttvíns hefði fengið sig til að vakna um miðja nótt með kvíða. 

„Ég þurfti ekki að ná neinum botni í áfengisneyslu minni heldur frekar vakna til lífsins og taka á mínum málum. Ég hafði farið til læknis og fengið kvíðalyf vegna þess að ég gat ekki sofið og var með verulegan kvíða út af því hvernig ég drakk.“

Í greininni lýsir hún því að áfengi hafi lækkað blóðsykurinn og þannig hafi líkaminn byrjað að búa til meira adrenalín og streituhormón sem juku hjartsláttinn og gerðu hana viðkvæma fyrir áreiti frá fólki eins og til dæmis yfirmanni sínum og móður. 

„Ég er edrú núna og ekki með kvíða sem ég ræð ekki við. Ég vakna ekki á nóttunni og þurfti ekki að fara á neinn hræðilegan botn til að ná áttum. Ég þurfti bara að vakna og breyta til.“

mbl.is