„Á morgun hætti ég“

Rannveig Borg Sigurðardóttir starfar sem lögfræðingur í Sviss. Hún er …
Rannveig Borg Sigurðardóttir starfar sem lögfræðingur í Sviss. Hún er áhugamanneskja um heilbrigt líferni og nemi í alþjóðlegri fíknifræði við King´s College.

„Á morgun hætti ég, er setning sem margir kannast líklega við að hafa sofnað út frá. Oftar en ekki breytist ekkert til batnaðar næsta dag. Að hætta að drekka kaffi eða eyða minni tíma á samfélagsmiðlum getur reynst þrautin þyngri. Hvað þá að ná tökum á alvarlegum fíknivanda (e. Substance abuse disorder),“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir lögfræðingur í Sviss, áhugamanneskja um heilbrigt líferni og nemi í alþjóðlegri fíknifræði við King´s College í nýjum pistli á Smartlandi: 

Umræða um fíknivanda á vel við nú á tímum kórónuveirunnar og er nátengd umræðunni um geðheilbrigði og forvarnir.  Þrjár milljónir manna láta lífið á ári hverju sökum áfengisdrykkju (hvort sem það er í hófi eða ekki). Til samanburðar hafa rúm sjö hundruð þúsund látist af völdum kórónuveirunnar í ár.

Áfengisfaraldurinn sem löngum hefur geisað er í vexti. Staðreyndir um skaðsemi áfengis eru alltaf jafn sláandi og vandamálið er stórt. Áfengi er þunglyndisvaldandi og kvíðavekjandi. Árið 2012 var áfengi skilgreint af alþjóðlega krabbameinsrannsóknarráðinu (IARC) sem örugglega krabbameinsvaldandi. Hættan eykst í hlutfalli við neyslu. Áfengi er ennfremur mjög ávanabindandi – fyrir alla. 

Það þekkja flestir einhvern sem á við áfengisvandamál að stríða, bæði leynt og ljóst. Líklegt er að drykkjan hafi aukist nú á tímum kórónuveirunnar.  

Oftar en ekki eiga heilu fjölskyldurnar um sárt að binda sökum drykkju og meðvirkni – fíkn fer ekki í  manngreiningarálit. Börn forstjóra, kennara, lækna og lögfræðinga þurfa að vekja pabba eða mömmu sem veit ekki að það er kominn mánudagur eftir að hafa dottið í það á laugardaginn og þurfa að láta foreldri undir áhrifum keyra sig í tómstundir. Auðvitað getur vandamálið verið mun betur falið, viðkomandi sinnt sinni vinnu og helstu skyldum nánast aðfinnslulaust í einhvern tíma. En viðkomandi jafnvel kominn með minnistruflanir og áhugamálin falla í skuggann. Öll fjölskyldan stendur saman við að hylma yfir neyslunni. Það er sannað að áfengisfíkn (eins og önnur fíkn) hefur áhrif á alla fjölskylduna.  

Margir sammælast um að ýta allri gagnrýni á áfengi frá og kalla boðberann fanatískan en eru mjög áhugasamir um aukaverkanir af til dæmis verkjalyfjum eða geðlyfjum sem viðkomandi þyrfti sannanlega á að halda. 

Jafnframt má ætla að áfengisglaðir hafi litlar sem engar áhyggjur af sóttvörnum eins og fréttir síðustu vikna sannreyndu. 

Það er löngu orðin úrelt kenning að einstaklingar sem glíma við áfengisfíkn þurfi að ná botninum til að spyrna við fótum. Það er nauðsynlegt að mæta fólki þar sem það er statt og að sjálfsögðu er betra að grípa inn í áður en í meiri óefni er komið. Það þarf að sérsníða meðferðarúrræði að viðkomandi einstaklingi og neyslu hans.  

Ýmsar leiðir standa til boða til að hvetja einstaklinginn til að vilja ná bata, til að mynda áhugahvetjandi samtöl (e. Motivational interviewing) sem er tækni sem byggir á samkennd og samvinnu til að einstaklingur vilji ná bata á eigin forsendum.  

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ráðleggur meðal annars víðtæka beitingu á stuttum inngripum (e. Brief Interventions) hjá heilbrigðisstarfsfólki til að skima fyrir áfengismisnotkun með það fyrir augum að grípa fyrr inn í. WHO gefur út leiðbeiningar um hvernig eigi að beita þessum inngripum. Við reglubundna læknisskoðun myndi einfalt áfengispróf vera lagt fyrir sjúklinga og niðurstöður síðan ræddar stuttlega.  

Heilbrigt líferni og almennt stuðningsnet getur einnig gert gæfumuninn. Tólf spora kerfin hafa löngu sannað ágæti sitt sem stuðningsnet og eru almennt viðurkennd leið. Það er sannað að sækja reglulega fundi allt frá einum fundi á viku hjálpar við fráhald. 

Andlega þættinum má sinna með íhugun og núvitundaræfingum sem hafa öðlast sívaxandi hljómgrunn sem viðurkennd leið til að ná tökum á fíkn. Vísbendingar er um að reglubundin ástundun geti minnkað þrá í efni (e craving) og dregið úr neyslu. 

Ekki má síðan gleyma áhugamálum og því sem er skemmtilegt. Á valdi fíknar sagði kona nokkur „það eina sem veitir mér gleði er að drekka – allt annað er litlaust og leiðinlegt“. Með aldrinum gleymum við stundum okkur sjálfum og að sinna því sem okkur fannst gaman. Þetta á enn frekar við þegar við erum á valdi fíknar og getur tafið batann.  

Þá eru til bækur eins og bækur Annie Grace sem hafa hjálpað mörgum. Ég hvet þá sem láta sig málið varða til að kynna sér þær. Höfundur leiðréttir mikið af þeim algengu hugmyndum sem við höfum um drykkju á skemmtilegan og áhugaverðan hátt. Hennar kenning byggist á því að það að sannfærast um neikvæð áhrif neyslu sé stundum nóg til að viðkomandi sé tilbúinn til að breyta hegðun sinni.  Sérstaklega þegar brugðist er við í tíma.

Að lokum er aldrei of oft sagt að hika ekki við að leita sér hjálpar og muna að það er raunhæfur möguleiki að keisarinn sé ekki í neinum fötum!“

WHO

WHO COVID

WHO Brief Intervention training

IARC

Annie Grace



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál