„Þú þarft að hafa sterk bein til að geta sagt nei!“

Söngkonan Bríet er áhugaverð ung kona sem segist njóta lífsins …
Söngkonan Bríet er áhugaverð ung kona sem segist njóta lífsins í botn. Haraldur Jónasson/Hari

Tónlistarkonan Bríet Ísis Elfar er nánast atvinnulaus þessa dagana. Hún reynir þó að nota tímann til að semja tónlist milli þess að hún les fréttir um sjálfan sig að hún sé komin í samband með gítarleikaranum í Kaleo. Hún drekkur ekki áfengi og lifir heilbrigðum lífstíl og segir tilgang lífsins að vera hamingjusamur. 

Af hverju drekkurðu ekki áfengi?

„Ég hef aldrei haft neinn áhuga á því að sljóvga hugann eða meðvitund mína sjálfviljug. Hvernig fólk talar um áfengi og vímuefni eða meðhöndlar það hefur ekki náð til mín. Það hefur alltaf fylgt því svo mikil pressa að byrja að drekka og mér finnst mikil menning fyrir því að geta ekki skemmt sér nema að vera fullur. Ég er bara ekki sammála því. Ég held að stór partur af því af hverju ég drekk ekki sé líka hvað ferillinn minn skiptir mig miklu máli. Ég er alls ekki að segja að allir sem drekka sé ekki annt um ferilinn sinn. Ég trúi því hins vegar að það geti truflað minn. Ég hef mjög gaman að því að djamma ég vil bara vera allsgáð þegar ég er að því. Einn stærsti partur af því af hverju ég drekk ekki er út af mömmu. Hún ól mig upp í svetti og talaði mjög opinskátt um sína neyslu og hvernig áhrif það hafði á líf hennar. Hún bannaði mér aldrei neitt og talaði um sín mistök og leyfði mér að læra af þeim,“ segir Bríet.

Hvað segir fólk við þessu?

„Mér finnst ekkert að því þegar fólk neytir áfengis sér til skemmtunar eða til að skála þegar börnin eru sofnuð. Bara svo lengi sem þú hefur stjórn þá kemur það engum við. Ég finn fyrir því að fólk trúir mér ekki og spyr oftar en einu sinni hvort ég hafi í alvörunni aldrei prófað og ekki einu sinni smakkað áfengi né vímuefni. Það er vissulega óalgengara að drekka ekki en að drekka. Áfengi er svo „normalíserað“. Eins og það sé eitthvað töff við það. Í öllum kvikmyndum og tónlist er sýnt og talað um neyslu. Þetta er stanslaust i umhverfi manns. Það sem er sorglegt við það er að oftar en ekki neytir fólk áfengis til að flýja raunveruleikann. Þú þarft að hafa sterk bein til þess að geta sagt nei.“

Hvernig er að vera ung kona í dag?

„Ég nýt þess í botn. Ég er svo þakklát öllum sterku konunum sem ruddu veginn svo ég geti starfað og sinnt draumnum mínum. Í raun og veru er ég þakklát ung kona í leit að hamingjunni.“

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

„Tilgangurinn er að vera hamingjusamur. Því þú getur átt allan heiminn en ekki verið hamingjusamur og hver er þá tilgangurinn? Þess vegna er ég stanslaust að spyrja mig: Er ég hamingjusöm. Hvort sem það er í starfinu mínu. Í sambandinu mínu. Í vináttu minni við annað fólk eða bara í deginum í dag. Ef svarið er nei, þá skal ég svo aldeilis drífa mig í burt.“ 

Er paradís hér eða annarsstaðar?

„Það er þitt að búa til þína paradís.“

Hvað getur þú sagt mér um ástina?

„Ó, hún er sársauki, gleði, hún er kennari sem málar lífið allskonar fallegum litum.“

Hverjar eru fyrirmyndir þínar þegar kemur að klæðaburði?

„Ég spyr mig oft að þessu sjálf því ég veit mjög lítið um tískuheiminn. Ég veit bara að ef mér finnst flíkin flott þá klæðist ég henni. Föt eru leiðin til að tjá sig og sýna persónuleikann.“

Spáir þú mikið í heilsuna?

„Mér finnst það nauðsynlegt að passa upp á að smyrja vélina. Ég held mikið upp á það að næra sál og líkama og geri allt í mínu veldi til þess að sinna því vel.“

Áttu eitt gott ráð að gefa fólki?

„Ekki gera það ef það gerir þig ekki hamingjusama.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál