Ayahuasca – dóp fína fólksins?

Ayahuasca er vímuefni, af ætt ofskynjunarefna. DMT er annað af …
Ayahuasca er vímuefni, af ætt ofskynjunarefna. DMT er annað af tveimur aðal innihaldsefnum í Ayahuasca (einnig kallað hoasca). Hitt heitir harmine. mbl.is/Colourbox

Núna virðist andlega þenkjandi fólk líta á áhrif Ayahuasca sem einskonar „upplifun“ en ekki vímu.“ segir Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir í nýjum pistli á Skaðaminnkun þar sem hún segir það ákveðna hræsni að tala gegn vímuefnaneyslu og jaðarsetja fólk sem notar LSD, kannabis, kókaín eða önnur vímuefni en upphefja fólk sem notar Ayahuasca: 

Töluvert hefur verið talað um ofskynjunarefnið Ayahuasca, sem sumir telja undraefni og lækningu allra meina. En hvað er Ayahuasca?

Ayahuasca er vímuefni, af ætt ofskynjunarefna. DMT er annað af tveimur aðal innihaldsefnum í Ayahuasca (einnig kallað hoasca). Hitt heitir harmine.

Ayahuasca er öflugt hugbreytandi efni sem indíánar í Amazon S-Ameríku hafa drukkið sem te í aldaraðir við trúarathafnir. Vímuáhrifin byrja að koma fram um það bil 30 til 60 mínútum eftir að efnið er innbyrgt og ná hámarki eftir 1 til 2 klukkustundir. Vímuáhrifin eru viðvarandi í um það bil 3 til 4 klukkustundir. Flestir þola áhrifin vel, en ráðleysi, ofsóknarbrjálæði og kvíði geta komið fram hjá viðkvæmum einstaklingum. Það er hægt að veipa DMT og DMT ofskynjunarefnið hefur einnig verið framleitt í efnaverksmiðjum, undir nafninu Dimitri. Tilbúið DMT er venjulega í formi hvíts kristallaðs dufts og reykt.

Dóp er dóp er dóp

Flest vímuefni koma úr náttúrunni og mörg hafa verið notuð í trúarlegum tilgangi. Það er áhugavert í þessu samhengi að velta fyrir sér aðgreiningu á milli áfengis og annarra vímuefna, löglegra og ólöglegra. Samfélagið okkar samþykkir áfengisneyslu, og hvetur reyndar til hennar við mörg tilefni. Fólk sem stendur frammi fyrir því að vilja hætta að drekka áfengi verður þess vegna oft mjög félagslega einangrað. Fyrir suma er félagsleg einangrun reyndar mesta áskorun vímuefnalauss lífsstíls. Núna virðist andlega þenkjandi fólk líta á áhrif Ayahuasca sem einskonar „upplifun“ en ekki vímu.

Þegar Bandaríkjamenn bönnuðu ópíum voru þeir ekki bara að banna vímuefnið ópíum. Þeir voru að banna vímuefnið sem Kínverjar notuðu. Þeir voru sumsé að ná sér niðri á Kínverjum. Kókaín var mikið notað af hörundsdökkum Bandaríkjamönnum og marijúana var notað af Mexíkóum. Það sem ræður því hvaða vímuefni við álítum hættuleg, eða vond, ræðst meira af rasískum fordómum en efnasamsetningu vímuefnanna.

En er ekki allt í lagi að nota Ayahuasca?

Jú jú, það finnst mér. Algjörlega. Það er í lagi að nota vímuefni, svo framarlega sem fólk veit hvað það er að nota. En það er mikil hræsni að tala gegn vímuefnaneyslu og jaðarsetja fólk sem notar LSD, kannabis, kókaín eða önnur vímuefni en upphefja fólk sem notar Ayahuasca. Fólk sem notar LSD er að nota ofskynjunarefni. Fólk sem notar Ayahuasca er að gera það líka.

Thomas Szas (1985) rannsakaði fíkniefnalöggjöf Bandaríkjanna og komst að þeirri niðurstöðu að tvöfalt siðgæði var forsenda hennar. Áfengi og tóbak eru vímuefni hvíta, kristna fólksins. Kristið fólk drekkur áfengi. Kirkjan notar vín við trúarathafnir. Vín er „gott“ vímuefni, notað af „rétta“ fólkinu. Vímuefni eins og ópíum, kókaín og marijúana, sem eiga uppruna sinn í framandi löndum eru vond.

Ég hef ekkert á móti vímuefnum almennt og finnst reyndar að það eigi að lögleiða öll vímuefni. En ég vil samt ekki að vímuefni séu kölluð te. Mér finnst það ruglandi.

Það er ekkert yfirnáttúrulegt við ofskynjunarefnið Ayahuasca. Það hefur efnafræðilega verkun eins og öll önnur vímuefni. Ofskynjunarefni opna hugann og einstaklingurinn upplifir ýmislegt stórkostlegt. Af hverju? Jú, hann er í vímu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál